Morgunblaðið um „Baskavígin“: Öll kurl koma til grafar

Rammi úr Baskavígunum.
Rammi úr Baskavígunum.

Hjördís Stefánsdóttir skrifar um spænsk/íslensku heimildamyndina Baskavígin í Morgunblaðið og segir með ólíkindum að hægt sé að gera svona viðamiklu og flóknu efni góð skil í rúmlega klukkutíma frásögn en það takist með miklum ágætum. Myndin fær fjóra og hálfa stjörnu.

Umsögn Hjördísar fer hér:

Heimildarmyndin Baskavígin var frumsýnd á San Sebastian kvikmyndahátíðinni í september síðastliðnum. Hún lýsir örlögum 83 baskneskra hvalveiðimanna sem urðu skipreika við Íslandsstrendur haustið 1615. Þeir voru illilega á flæðiskeri staddir því hérlendis giltu á þessum tíma lög sem meinuðu útlendingum að dvelja á landinu yfir veturinn, jafnvel þótt þeir ættu engra annarra úrkosta völ. Miklar hremmingar tóku við og að endingu voru rúmlega þrjátíu Baskar myrtir að undirlagi Ara í Ögri í grimmilegustu og ófyrirleitnustu fjöldamorðum Íslandssögunnar. Þessara atburða var minnst í fyrra þegar 400 ár voru liðin frá voðaverkunum. Af því tilefni voru haldnar þverfaglegar ráðstefnur hér á landi og erlendis þar sem fræðimenn báru saman bækur sínar og reyndu að ná heildarsýn á söguna. Ráðstefnurnar urðu kveikjan að heimildarmyndinni og hún er unnin í samvinnu Baska og Íslendinga. RÚV hefur keypt sýningarrétt að myndinni en hún var frumsýnd á RIFF í október og er nú sýnd í Bíó Paradís.

Í myndinni eru Baskarnir fyrst kynntir til sögunnar. Þeir settu upp stórar hvalveiðistöðvar á Nýfundnalandi strax á sextándu öld og enginn stóðst þeim snúning í viðskiptum með þær afurðir á Evrópumarkaði. Hvalveiðar voru afar ábatasöm atvinnugrein en að sama skapi viðsjárverð og því ekki heiglum hent að starfa við hana. Baskarnir fóru að venja komur sínar á Íslandsmið snemma á 17. öld og sumarið 1615 komu þrjú hvalveiðiskip að landi vestur á Ströndum. Skipstjórarnir þrír Martín de Villafranca (Richard Sahagún), Pedro de Aguirre (Fernando Ustárroz) og Esteban de Tellería (Abraham Puche) stigu á land ásamt áhöfnum sínum og römbuðu mitt inn í ólgandi kviku afar flókins stjórnarfars sem gerði móttökurnar óblíðari en efni stóðu til. Stjórn landsins var undirokuð af danska kónginum og lituð spillingu innlendrar yfirstéttar. Átök innan íslensku þjóðkirkjunnar, milli kaþólskrar trúar og hinnar lúthersku settu sitt strik í reikniginn og almenningur sem lifði við afar kröpp kjör og hafði áður lent í ljótum rimmum við sjóræningja var skiljanlega óttasleginn í garð útlendinga.

Þennan gráa, þokudrungaða sumardag á Ströndum tók hópur heimamanna með séra Jón Grímsson (Gunnar Gunnarsson) og Jón lærða Guðmundsson (Sigurður H. Pálsson) í broddi fylkingar á móti langt að komnum Böskunum. Jón lærði vildi bjóða gestina velkomna en séra Jón var tortrygginn og herskár í þeirra garð. Baskarnir báru fyrir sig veiðileyfi sem Ari í Ögri hafði uppáskrifað og selt þeim dýru verði og með því fengu þeir að slá upp vinnubúðum. Þeir veiddu og verkuðu marga hvali yfir sumarið og versluðu töluvert með ýmsan varning við innfædda. Veiðileyfið sem Ari ávísaði var veitt án leyfis danskra yfirvalda þannig að í raun var Ari að breiða yfir eigin spillingu og glæpi þegar hann safnaði liði um haustið og reyndi að drepa alla Baskana. Í lok afar gjöfullar vertíðar þegar þeir hugðust sigla heim fórust skip þeirra í óveðri. Rúmlega áttatíu skipreika útlendingar urðu þá að leita ásjár heimamanna. Sumir lentu hjá góðu fólki sem hjálpaði þeim og þar gekk sambúðin sæmilega. Ragnheiður Eggertsdóttir, móðir Ara sýslumanns, var ein þeirra sem gerðu vel við þá. Meðal Baskanna voru reyndar einnig nokkrir ribbaldar sem stálu sér til viðurværis og það skapaði nokkra úlfúð og illindi.

Um þrjátíu Baskar voru drepnir af múgæstum her sem skipaður var bændum og búaliði. Margir voru þvingaðir í þann her og hótað sektum eða öðru verra ef þeir reyndu að skorast undan ægivaldi Ara. Færð og óveður vörnuðu því að Ari næði til eftirlifandi aðkomumannanna og vantaði þó ekki að hann reyndi. Þeir sem komust undan stunduðu sjóinn og drógu björg í bú með margvíslegum öðrum hætti. Baskarnir voru iðnir og auðguðu umtalsvert bæði mannlíf og efnahag á Vestfjörðum þetta hálfa ár sem þeir neyddust til að þrauka þar í útlegð, skömm og frosthörkum. Þegar fyrsta enska fiskiskipið sást að vori hertóku þeir það til að sigla heim en síðan hefur ekkert spurst til þeirra. Jón lærði var harmi sleginn yfir þessum voðaverkum og skrifaði um þau en fékk bágt fyrir og var sendur í ævilanga útlegð. Samtímaheimild hans er notuð sem leiðarstef myndarinnar.

Það er með ólíkindum að hægt sé að gera svona viðamiklu og flóknu efni góð skil í rúmlega klukkutíma frásögn en það tekst með miklum ágætum í Baskavígunum. Ungi og upprennandi leikstjórinn Aitor Aspe skilar sögunni afar haganlega frá sér. Leikna frásögnin er innskotin af viðtölum við fjölda fræðimanna svo úr verður spennandi og grípandi rannsóknarsaga. Öll sjónræn umgjörð er meistaralega útfærð. Sviðsett atriði voru flest tekin upp á sögustöðum á Vestfjörðum en auk þess var leitað fanga við að finna raunsæislegt umhverfi í öðrum landshlutum sem rímar við frásagnartímann. Hluti leikna efnisins var einnig tekin upp á Spáni og um borð í eftirlíkingu af hvalveiðiskipi frá 17. öld. Vel var skipað í hlutverk og allur leikur er sterkur. Stafrænar tæknibrellur auðga heildina enn frekar og munar þar mest um tölvuteikningar af gríðarmiklum hvölum og ísjökum i stórsjó. Magnaðar gagnvirkar hreyfimyndir og grafískar teikningar af fornfálegum kortum og handritaskrifum Jóns lærða binda frásögnina á sannfærandi hátt saman og vellukkuð tónlist Hilmars Arnars Hilmarssonar magnar spennandi framvinduna hressilega.

Allar sagnfræðilegar staðreyndir eru settar fram á áhugaverðan hátt og gaman er að sjá spænskt fræðaumhverfi, kallast á við enskt og íslenskt í viðtölunum við fræðafólkið. Öll framsaga viðmælenda, ásamt áprentuðum textum og þýðingum skilar sér einnig skýrt og skilmerkilega. Söguþráðurinn fylgir brennandi áhuga þverfaglegra fræðimanna frá mörgum þjóðlöndum á því að afhjúpa þögguð leyndarmál og sagnfræðileg samsæri. Loftað er um forna skömm og gamlt ósætti gert upp. Það er augljós vilji allra sem að myndinni koma að sýna sögulega atburði í hlutlausu ljósi og koma öllum tiltækum kurlum til grafar svo hægt sé að rekja söguna frá upphafi til enda. Fræðileg rannsóknarleit myndarinnar leiðir áhorfendur oft á óvæntar slóðir, úrvinnslan er grípandi og útkoman er skemmtileg.

Sagan af Baskavígunum er epísk og bardagar hennar afar blóðugir. Hún hefur hingað til aðeins verið hálfkveðin eða þögguð í synd og skömm en hún er krassandi og mikilvæg heimild um forna tíma og á hiklaust erindi við alþjóð manna um ókomna tíð.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR