Morgunblaðið um „Child Eater“: Hryllingur með ferskum augum

Colin Critchley í Child Eater eftir Erling Óttar Thoroddsen.
Colin Critchley í Child Eater eftir Erling Óttar Thoroddsen.

„Erlingur er augljóslega vel skólaður í eðli hrollvekja – sögu þeirra, baklandi og menningarlegu vægi. Í handritinu vinnur hann markvisst með væntingar áhorfenda og hefðina en afbyggir hana sömuleiðis og endurvinnur,“ segir Hjördís Stefánsdóttir gagnrýnandi Morgunblaðsins um Child Eater Erlings Thoroddsen. Hún gefur myndinni fjórar stjörnur.

Umsögn Hjördísar er svohljóðandi:

Nú á hrekkjavökunni var ferska íslensk-ameríska hrollvekjan, Child Eater, frumsýnd í Bíó Paradís. Leikstjóri myndarinnar, Erlingur Óttar Thoroddsen, lauk nýverið námi í kvikmyndagerð frá Columbia-háskóla í New York. Lokaverkefni hans samanstóð af stuttmyndunum Child Eater og The Banishing sem báðar hafa hlotið góðar viðtökur og verið sýndar víða á kvikmyndahátíðum. Child Eater er fyrsta mynd Erlings Óttars í fullri lengd en hún er byggð á áðurnefndri stuttmynd og skartar sömu aðalleikkonunni. Myndin var framleidd óháð og fjármögnuð með söfnunarsjóði aðstandenda hennar.

Child Eater gerist í hrörlegum smábæ í New York-ríki og segir frá Helen (Cait Bliss), ungri gengilbeinu sem er fengin til að passa drenginn Lucas (Colin Critchley) eina kvöldstund. Lucas er nýfluttur með föður sínum í afskekkt draugahús sem stendur í skógivöxnum bæjarjaðrinum. Um árabil hefur sú flökkusaga gengið manna á milli að í þessum skógi búi sturlaður maður, Robert Bowery (Jason Martin), sem veiðir börn og borðar úr þeim augun svo hann sjálfur verði ekki blindur. Þegar Lucas fer í háttinn segir hann Helen frá því að hann hafi séð þennan skuggalega mann þá um daginn og að hann fylgist sífellt með Lucasi hvar sem hann er og hvert sem hann fer. Helen reynir að hughreysta Lucas en gerir það einungis af hálfum hug því á þeirri stundu bankar Tom (Dave Klasko) kærasti hennar upp á. Tom er sjálfumglaður og vill lifa og leika sér en Helen komst að því fyrr um daginn að hún er ófrísk og þau þurfa því að gera upp sín mál. Þegar Lucas kallar aftur og segir Bowery vera í fataskápnum sínum bregst Helen höstuglega við en á hana renna tvær grímur þegar Lucas hverfur sporlaust úr rúmi sínu skömmu síðar. Þá tekur við martraðarkenndur björgunarleiðangur og blóðug barátta þar sem margir eiga eftir að liggja í valnum áður en yfir lýkur.

Erlingur er augljóslega vel skólaður í eðli hrollvekja – sögu þeirra, baklandi og menningarlegu vægi. Í handritinu vinnur hann markvisst með væntingar áhorfenda og hefðina en afbyggir hana sömuleiðis og endurvinnur. Hann kryddar seið sinn með stefjum út bókmenntafræði svo úr verður afar marglaga táknsaga, óhóflega ofhlaðin vísunum sem í stað þess að drukkna í merkingarfræðilegum pytti verður að gáskafullri og hnyttinni ímyndaveislu. Í myndinni láta til að mynda á sér kræla norn með eitrað epli, skrímsli með augnablæti í anda Óla lokbrár, ófreskja í skáp/kjallara/skógi og vampírulegur uppvakningur. Við þetta allt spinnur Erlingur svo aðalkenningu myndarinnar um að hvítir storkar færi verðandi foreldrum hvítvoðunga sína en að sama skapi geti svartir storkar numið brott og étið börn óhæfra foreldra.

Handrit myndarinnar er úthugsað og frásögnin vel undirbyggð allt frá opnunaratriðinu sem segir í endurliti frá því hvernig stúlkubarn í skjannahvítum blúndukjól sleppur naumlega úr klóm ófreskjunnar Bowery, öðru auganu fátækari. Aldarfjórðungi síðar er þetta fórnarlamb, Ginger (Melinda Chilton), orðið að ekki síður sturluðu skrímsli sem telur sig verndara glataðra barna en er í raun hefndarþyrst grýla. Söguþráður myndarinnar er djöfullega úthugsaður, ógnvekjandi og blóði drifinn en samt einnig sprenghlægilegur á köflum. Í raun má segja að myndin endurveki hrollvekjur níunda áratugarins líkt og Scream gerði á sínum tíma. Í handriti beggja mynda er lipurlega skotið inn kaldhæðnum vísunum í gamalgróna formúluna og háðskri samfélagsrýni. Í báðum myndum er ósæmilegu gríni einnig blandað við yfirgengilegt ofbeldi slæginga-raðmorðingjamynda til að skopstæla og í senn upphefja klisjur klassísku hryllingsmyndanna.

Myndin er vel leikin og áhorfendur eru uggandi um velferð Lucasar allt til enda. Þeir hvetja Helen til dáða í björgunaraðgerðunum og hlæja að ábyrgðarleysi Toms. Ginger er svo krassandi að hún stelur nánast senunni á köflum og augnétandi skrímslið Bowery er óhugnaðurinn holdi klæddur. Hann klífur strax metorðastigann og tekur sér sinn sess meðal frægustu hryllingsmyndaraðmorðingja allra tíma: Freddy Krueger, Michael Myers og Jason Voorhees. Bowery er óljós og ódauðlegur fjandi, hvorki lífs né liðinn. Það er ekki nóg með að hann veiði börn til að éta úr þeim augun heldur neyðir hann þau fyrst til að fara með sér í feluleik þar sem þau eru blinduð með tuskubrúðulegri dauðagrímu. Nærvera hans ein og sér er ógnvænleg. Hann vofir yfir eins og stór, hæglátur og gleypandi skuggi þannig að áhorfendur og persónur eru oft ekki viss um hvort hann standi álengdar eða hvort myrkrið villi þeim sýn. Það er þangað til hann hreyfir sig skyndilega, slær fórnarlömbin niður eða hrifsar þau til sín og étur augu þeirra eins og óseðjandi tryllt óargadýr.

Hetjur myndarinnar eru ekki varnarlaus fljóð eða minni máttar fórnarlömb sem sterkar karlmannlegar hetjur þurfa að bjarga. Því er frekar á hinn veginn farið. Fórnarlömbin eru flest kokhraustir karlmenn og þeir eru stráfelldir um miðbik myndarinnar í farsakenndum kafla sem veitir örvingluðum áhorfendum kærkomið tækifæri til að springa úr spenningi og frussa af hlátri. Tæknilega séð kemur myndin einnig á óvart og þar munar mest um skemmtilegan leik með gleiðlinsu í kvikmyndatöku. Hún afbakar fjarlægðir og ruglar jafnt persónur og áhorfendur í ríminu svo þær upplifa sig í senn innilokaðar og sturlaðar af víðáttufælni. Ægivald myrkursins nýtur sín einnig í sviðsmynd og lýsingu svo allt leggst á eitt og úr verður vel heppnuð, bráðfyndin og ógnvekjandi hrollvekja.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR