Sjónvarpið (RÚV) 50 ára í dag

ruv-a-afmaeli-i-dag_3Í dag 30. september eru 50 ár liðin frá því sjónvarpsútsendingar hófust á Íslandi. RÚV fagnar þessum tímamótum með hátíðahöldum alla helgina.

Mikill afmælisbragur verður á dagskrá sjónvarps, sent verður út allan sólahringinn, alla helgina. Fjölbreytt nýtt efni í bland við gamla kunningja sem skjóta upp kollinum og búast má við óvæntum uppákomum.

Afmælisdeginum er fagnað með þættinum RÚV á afmæli í dag, þar sem fjölmargir Íslendingar koma við sögu. Útsvar er í afmælisbúningi og ný íslensk kvikmynd, Fyrir framan annað fólk verður frumsýnd í sjónvarpi.

Á laugardag býður RÚV þjóðinni í leikhús en þá er sýnd upptaka á einni vinsælustu sýningu síðasta leikárs, uppfærslu Vesturports á söngleiknum Í hjarta Hróa hattar.

Á ruv.is verður sýnt beint frá Opnu húsi í Efstaleiti og um kvöldið verður sýnd samantekt frá afmælisveislunni. Á sunnudag kl. 18 hefst ný þáttaröð af Stundinni okkar en þátturinn hefur verið á dagskrá frá fyrsta starfsári RÚV.

Sama kvöld er heimildamyndin Dagur í lífi þjóðar á dagskrá. Þann 30. september 2015, þegar 49 ár voru liðin síðan sjónvarpsútsendingar hófust, leitaði RÚV til þjóðarinnar og bað fólk að taka upp myndband af deginum sínum og öllu því sem gerðist, frá morgni til kvölds. Afraksturinn var svo settur saman í sérstaka afmælismynd sem RÚV færir þjóðinni að gjöf, nú ári síðar, á stórafmælinu þegar 50 ár eru liðin síðan sjónvarpsútsendingar hófust á Íslandi.

Gestastofa RÚV opnuð í dag

Á afmælisdaginn, föstudaginn 30. september kl. 17 verður ný Gestastofa RÚV opnuð við hátíðlega athöfn. Þar mun forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, verða viðstaddur ásamt fyrrverandi og núverandi starfsfólki RÚV en Gestastofan mun svo opin almenningi næsta dag á Opnu húsi.

Gestastofa RÚV er fyrir þá sem sækja RÚV heim og vilja kynna sér sögu þess og starfsemi. Uppistaðan í sýningunni er myndir, munir og lifandi efni úr fórum RÚV og þar er sagan rakin frá stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930 til dagsins í dag. Opnun sýningarinnar er til marks um aukna áherslu RÚV á að opna samtalið við þjóðina og boðið verður, sem fyrr, upp á skoðunarferðir um Útvarpshúsið og sýninguna, auk þess sem grunnskólabörnum verður sérstaklega boðið í slíkar heimsóknir.

Opið hús á laugardag

Laugardaginn 1. október verður Opið hús hjá RÚV í Reykjavík og á Akureyri í til­efni 50 ára af­mælis sjónvarps á Íslandi.

RÚV býður lands­mönn­um öllum í heim­sókn í Út­varps­húsið, Efsta­leiti 1, laugardag kl 13 – 16:30.  Starfs­menn húss­ins taka á móti fólki og leiða það um húsið til að kynna starf­semina. Fólki gefst kost­ur á að skoða bæði út­varps- og sjón­varpstöku­ver og Gestastofu RÚV. Öllum er boðið í kaffi og vöffl­ur og KrakkaRÚV, Stundin okkar, Ævar vísindamaður og fleiri sjónvarpsstjörnur skemmta afmælisgestum.

Starfsfólk RÚV á Akureyri býður í vöfflukaffi og kynnir starfsemina í nýju húsnæði við Hólabraut, laugardag kl 13 – 15.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR