Örvarpið rúllar í fjórða sinn

Harpa og Halldóra standa fyrir Örvarpinu. (Mynd Vilhelm Gunnarsson)
Harpa og Halldóra standa fyrir Örvarpinu. (Mynd Vilhelm Gunnarsson)

Örvarpið, vettvangur örmynda á Íslandi, snýr aftur í haust, en opnað var fyrir umsóknir 1. september síðastliðinn.

Þetta er fjórða tímabil Örvarpsins, sem hýsir örmyndahátíð á vefsíðu RÚV, undir www.ruv.is/orvarpid, en einnig verður uppskeruhátíð Örvarpsins haldin á Stockfish Film Festival í vor. Auk þess heldur Örvarpið áfram að halda utan um masterklassa í örmyndagerð, fyrirlestra og kynningar á örmyndaforminu almennt, auk annarra viðburða sem tengjast örmyndum.

Harpa Fönn og Halldóra Rut, stofnendur Örvarpsins, hafa orðið:

“Hátíðin virkar þannig að allir geta sent inn örmynd sína, í hvaða formi sem er, á www.ruv.is/orvarpid. örmyndin getur verið tónlistarmyndband, tölvuteiknimynd, örleikverk, örsaga, heimildarörmynd, stuttmynd, ljóðlist, osfrv. Sérstök valnefnd kemur svo saman vikulega út haustið og velur eitt verk til sýningar á vefsvæði Örvarpsins www.ruv.is/orvarpid. Valin verk verða í kjölfarið til sýningar Örvarpsins á Stockfish film festival vorið 2017.“

Örvarpið stofnuðu þær stöllur fyrir fjórum árum síðan:

“Við höfum verið að vinna saman í um 6 ára skeið núna, og vorum sjálfar að framleiða örmyndir – að fanga augnablikið og veiða hugmyndir og örsögur, en fundum svo að enginn var vettvangurinn til að sýna myndirnar! Við ákváðum því bara að stofna okkar eigin. Úr varð og tók RÚV vel í hugmyndina, og þeir hafa verið okkar helstu bakhjarlar síðustu tímabilin, ásamt Bíó Paradís.”

Örvarpið hvetur almenning til að taka þátt, og sérstaklega ungu kynslóðina, en Örvarpið er kjörinn vettvangur til að gera tilraunir með örmyndaformið, hvort sem eru tilraunakenndar stuttmyndir, vídeólist, hreyfimyndir, stutt-heimildarmyndir, tölvuteiknimyndir eða eitthvað allt annað – allt er leyfilegt. Eina skilyrðið er að myndin má ekki vera lengri en 5 mínútur.

“Vikurnar 3. og 10. nóvember verða sérstaklega tileinkaðar örmyndum unga fólksins (20 ára og yngri), og þá munu einungis þær myndir koma til greina sem örmynd vikunnar,”

segir Halldóra.

“Ég vil líka bæta við að því fyrr sem myndin er send inn, því lengur er hún í pottinum og því meiri líkur á vali, en umsóknir loka 7. desember, og verður síðasta örmyndin birt 8. desember.”

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR