Lovísa Lára Halldórsdóttir vinnur að sinni fyrstu bíómynd

Lovísa Lára Halldórsdóttir leikstýra.
Lovísa Lára Halldórsdóttir leikstýra.

DV ræðir við Lovísu Láru Halldórsdóttur sem nú vinnur að sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Myndin heitir Týndu börnin og er stefnt að sýningum á næsta ári.

Í viðtalinu segir m.a.:

„Mér datt aldrei í hug að ég gæti orðið kvikmyndaleikstjóri. Þeir voru allir eldri karlar með grátt hár,“ segir Lovísa Lára Halldórsdóttir. Það vill samt svo til að þegar hún var komin áleiðis í námi í Kvikmyndaskóla Íslands áttaði sig hún á því að hún gæti svo sannarlega orðið kvikmyndaleikstjóri, þrátt fyrir skort á fyrirmyndum.

„Ég hafði alltaf áhuga á skrifum og kvikmyndum og fór í Kvikmyndaskólann til að verða handritahöfundur. Þar rann upp fyrir mér ljós – að sjálfsögðu gat ég orðið kvikmyndaleikstjóri. Ég hafði áður unnið við stjórnunarstörf og leikstjórn snýst einmitt um það – að hafa yfirsýn, sjá til þess að allir séu að gera sitt, og fá það besta fram hjá fólki. Þetta er frábær vinna fyrir skapandi unga konu, en kvikmyndabransinn er ansi mikið eftir á þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Það fer þó vonandi að breytast,“ segir Lovísa Lára í samtali við blaðakonu DV.

Og ennfremur:

En hvernig skyldi bransinn hafa tekið henni – ungri konu í kvikmyndaleikstjórn? „Flestir eru mjög jákvæðir og eru kannski að vanda sig alveg sérstaklega og detta mögulega í einhvern óþarfa stuðning. Ég hef líka tekið eftir því að stundum þegar ég er að leikstýra á setti eiga sumir til að skipta sér af hlutum sem þeir halda að ég ráði ekki við vegna kyns míns og aldurs.“

Nýlega sendi Lovísa tvær stuttmyndir frá sér á hátíðarúnt um heiminn, og á dögunum lauk hún tökum á fyrstu mynd sinni í fullri lengd. Myndin heitir Týndu stelpurnar og byggist að hluta til á sönnum atburðum. „Ég var búin að vinna að handritinu í þrjú ár, en fyrst um sinn datt mér ekki í hug að leikstýra henni sjálf. Bróðir minn var líka í Kvikmyndaskólanum og þegar hann kom til mín með svipaða hugmynd varð þetta allt skýrara í kollinum á mér og ég fékk kjark til að fara alla leið með ákveðin þemu sem ég hafði verið að gæla við.“

Unglingsstelpur rannsaka morð

Myndin segir frá tveimur 14 ára stelpum, sem eiga ólíkan bakgrunn og búa við ólíkar aðstæður, en eiga það sameiginlegt að vilja sleppa frá heimilum sínum. „Handritið byggist að hluta á persónulegri reynslu og reynslu vinkvenna minna. Stelpurnar eru dálítið ímyndunarveikar og halda að þær verði vitni að morði. Þær byrja að rannsaka það upp á eigin spýtur og flækjast þar með inn í atburðarás sem þær ráða engan veginn við.“

Sjá nánar hér: Lovísa Lára er kvikmyndaleikstjóri – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR