Jörundur og Jóna ráðin til Kvikmyndaskóla Íslands

Jörundur Rafn Arnarson og Jóna Finnsdóttir.

Tveir nýir deildarforsetar hafa hafið störf við Kvikmyndaskóla Íslands. Þetta eru þau Jóna Finnsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri LHÍ, sem nú veitir leikstjórnar- og framleiðsludeild forstöðu og Jörundur Rafn Arnarson myndbrellumeistari, sem tekur við sem yfirmaður deildar skapandi tækni.

Hrafnkell Stefánsson mun áfram stýra handrita- og leikstjórnardeild og Rúnar Guðbrandsson verður áfram yfir leiklistardeild, en allar fjórar stöðurnar voru auglýstar í vor.

Jóna og Jörundur eru bæði reynsluboltar með víðtæka þekkingu og starfsreynslu.

Jóna Finnsdóttir hóf feril sinn hjá RÚV, þar sem hún vann við dagskrárgerð í tæpan áratug áður en hún fór til náms í framleiðslu kvikmynda í The American Film Institute í Los Angeles. Síðar lauk Jóna MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík.

Jóna rak kvikmyndafélagið Tónabíó, sem m.a. framleiddi myndirnar Tár úr steini og Sporlaust, en Jóna var aðalframleiðandi beggja myndanna. Hún hefur einnig starfað sem framleiðslu- og framkvæmdastjóri við fjöldann allan af kvikmyndum, stuttmyndum og heimildarmyndum, s.s. Ryð og Kaldaljós .

Jóna starfaði sem framkvæmdastjóri Listaháskóla Íslands frá stofnun hans árið 1999 til ársins 2013.   Nýlega var hún einn framleiðenda heimildarmyndarinnar Latínubóndans. Jóna rekur framleiðslufyrirtækið Túndru ehf og er með verkefni fyrir bíó og sjónvarp í undirbúningi.

Jörundur Rafn Arnarson hefur unnið við myndbrellur í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og auglýsingum í yfir 12 ár. Hann hefur starfað fyrir fyrirtæki á borð við Framestore, Swiss International, Moving Picture Company (MPC), RVX, Saga film, Pegasus, Caoz, The Mill ofl.

Jörundur rekur einnig eigið fyrirtæki, Reykjavík IO. Hann hefur unnið við kvikmyndaverkefni á Íslandi, í Englandi, Svíþjóð og Bandaríkjunum undanfarin 10 ár.   Meðal verkefna sem Jörundur hefur unnið við eru: Everest, Eiðurinn, Hjartasteinn, Game of Thrones, Fyrir framan annað fólk, Fúsi, Halo: Nightfall, Borgríki 2, Hross í oss, Ófeigur gengur aftur, XL, Djúpið, Contraband, Thor: Legends of Valhalla, Tinker Tailor Soldier Spy, Harry Potter and The Deadly Hallows, Part 2, Tyrannosaur, Rokland, Salt, Clash of the Titans, Where the Wild Things Are, The Good Heart, Réttur, Dagvaktin og Næturvaktin.

Jörundur fékk Edduverðlaun fyrir brellur í kvikmyndinni Hross í oss og var einnig tilnefndur sama ár fyrir brellur í kvikmyndinni Ófeigur gengur aftur.

Sjá nánar hér: Kvikmyndaskóli Íslands » Tveir nýir deildarforsetar ráðnir til Kvikmyndaskóla Íslands

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR