„Svanurinn“ í tökur í júlí

Ása Helga Hjörleifsdóttir. (Mynd: Vísir/Vilhelm)

Tökur á Svaninum, fyrstu bíómynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, hefjast í júlí. Hlín Jóhannesdóttir og Birgitta Björnsdóttir hjá Vintage Pictures framleiða. Ása Helga lýsir myndinni meðal annars sem sögu um níu ára stúlku í tilvistarkreppu.

Þetta kemur fram á Vísi, en þar segir m.a.:

Myndin byggir á skáldsögunni Svaninum eftir Guðberg Bergsson og fjallar um níu ára afvegaleidda stúlku sem er send í sveit til að þroskast og fullorðnast, myndin er að miklu leyti um samband hennar við náttúruna og hvernig það er að eldast. Hún flækist líka inn í líf fólksins á bænum þar sem töluvert drama er í gangi og án þess að hún geri sér grein fyrir því er hún flækt í atburðarás sem hún sjálf skilur ekki. Það er óhætt að segja að þetta fjalli um níu ára stúlku í tilvistarkreppu,“ segir Ása Helga Hjörleifsdóttir, leikstjóri og kvikmyndagerðarkona, spurð út í nýjustu kvikmynd sína, Svaninn.

Ása Helga lærði kvikmyndagerð í Columbia-háskóla í New York. Þar lagði hún fyrstu drög að handritinu árið 2010 í áfanga sem nefnist aðlögun að hvíta tjaldinu.

„Þetta var hálfgerð æfing þegar ég byrjaði að skrifa handritið, svo ákvað ég að senda drögin áfram sem varð til þess að ég, ásamt Hlín Jóhannesdóttur og Birgittu Björnsdóttur hjá Vintage Pictures, fékk kvikmyndaréttinn að skáldsögunni,“ segir Ása Helga.

Tökur á myndinni fara að mestu fram í Svarfaðardal í júlí og ágúst og segist Ása einstaklega spennt fyrir ferlinu. Laufey Elíasdóttir sér um leikaraval í myndinni, en hún hefur leikið í fjölda kvikmynda; Reykjavík, Vonarstræti, Brúðgumanum og Blóðböndum.

„Í sameiningu höfum við Laufey unnið að leikaravali sem er um þessar mundir að fullmótast. Ástæða þess að ég valdi Svarfaðardal er vegna þess hversu fallegur hann er og ekki skemmir fyrir að ég er ættuð þaðan og var mikið þar sem barn,“ segir hún.

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR