Truenorth undirbýr tvö enskumælandi verkefni

Óskar Jónasson.
Óskar Jónasson.

True North vinnur nú að undirbúningi tveggja kvikmynda sem gerðar verða á ensku; annarsvegar The Malaga Prisoner eftir handriti Óskars Jónassonar og Arnaldar Indriðasonar og hinsvegar Keflavik eftir bandaríska leikstjórann Michael G Kehoe.

Screen International greinir frá.

Í frétt Screen kemur fram að The Malaga Prisoner muni fara í tökur á næsta ári undir stjórn Óskars. Tökur munu fara fram að mestu á Malaga á Spáni og myndin verður að mestu enskumælandi en einnig á íslensku og spænsku. Myndin fjallar um tvo íslenska lögreglumenn sem sendir eru til Spánar til að sækja smáglæpon.

True North er nú í viðræðum við spænska meðframleiðendur um þátttöku. Áætlaður framleiðslukostnaður er um 5 milljónir dollara, eða um 621 milljón króna.

Keflavik verður nokkru ódýrari mynd en áætlaður kostnaður er 3 milljónir dollara eða um 373 milljónir króna. Myndin segir frá því þegar alþjóðlegur hópur vísindamanna kemst að tilvist geimvera í yfirgefinni herstöð í Keflavík. Stefnt er að tökum 2017 og mun bandaríski framleiðandinn Tommy Harper, sem meðal annars hefur starfað mikið með JJ Abrams starfa með True North að verkefninu.

Mynd Ara Alexanders í tökur í haust

Þá segir Screen einnig frá því að mynd Ara Alexanders, sem nú kallast Mihkel (áður Vaidas, ísl: Undir halastjörnu), fari í tökur í haust. Myndin er gerð í samvinnu við Eista og Norðmenn. Klapptré hefur áður sagt frá verkefninu hér.

Screen hefur eftir Kristni Þórðarsyni hjá True North að metnaður félagsins standi til að gera söluvænlegar myndir sem og að gera fleiri myndir á ensku ásamt því að halda í hina íslensku þætti. „Við viljum ná til breiðs hóps áhorfenda,“ segir Kristinn.

Sjá nánar hér: Truenorth lines up English-language projects | News | Screen

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR