Íslenskar heimildamyndir á nýrri hátíð í Úkraínu

i want to be weird
Stilla úr Ég vil vera skrýtin eftir Brynju Dögg Friðriksdóttur.

Sjö íslenskar heimildarmyndir verða sýndar á Poltava Film Festival sem fram fer dagana 26. til 29. maí n.k. í Úkraínu. Einar Þór Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður er einn aðstandenda hátíðarinnar.

Myndirnar eru:

  • Ég vil vera skrýtin eftir Brynju Dögg Friðriksdóttur.
  • Aska eftir Herbert Sveinbjörnsson.
  • Þeir sem þora eftir Ólaf Rögnvaldsson og Kolfinnu Baldvinsdóttur.
  • Sjóndeildarhringur eftir Berg Bernburg og Friðrik Þór Friðriksson.
  • Andlit norðursins eftir Magnús Viðar Sigurðsson.
  • Veðrabrigði eftir Ásdísi Thoroddsen.
  • Draumalandið eftir Þorfinn Guðnason og Andra Snæ Magnason.

Stjórnendur hátíðarinnar, Einar Þór Gunnlaugsson og Oleg Mingalev, segja hátíðina ekki síst haldna til að styrkja bönd milli Íslands og Úkraínu á menningarsviðinu.

Samskipti þessara tveggja Evrópulanda eru ekki mikil og afar lítið um menningarhátíðir eða aðra viðburði sem styrkja tengslin, Safn þeirra íslensku mynda sem sýndar verða einkennist af tilvísun í náttúru, vatn og sögu. Það er von aðstandenda að áhorfendur í Poltava kynnist Íslandi og norrænum slóðum frá fleiri en einu sjónarhorni og á hvaða róli Ísland er. Íslenskar heimildarmyndir pg list hafa ekki áður fengið viðlíka kynningu í landinu.

Poltava er um 300.000 manna borg, staðsett á milli höfuðborgarinnar Kiev og Donetsk, héraðsins þar sem nú er háð stríð við málaliða Rússa. Í landinu verður vart við stríðsátökin á hverjum degi með einum eða öðrum hætti, hvort sem það er beinn fréttaflutningur, hækkun mánaðarlegra reikninga eða fráfall fjölskyldumeðlims. Óhætt er að segja að stríðsþreytu gæti á svæðinu þótt menningarlíf sé í blóma og heimamenn reyni að sinna daglegu amstri í skjóli átaka.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR