Morgunblaðið um „Fyrir framan annað fólk“: Klassískar aðstæður

Svandís Dóra Einarsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Hafdís Helga Helgadóttir og Snorri Engilbertsson fara með helstu hlutverkin í Fyrir framan annað fólk.
Svandís Dóra Einarsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Hafdís Helga Helgadóttir og Snorri Engilbertsson fara með helstu hlutverkin í Fyrir framan annað fólk.

Hjördís Stefánsdóttir skrifar um Fyrir framan annað fólk Óskars Jónassonar í Morgunblaðið og segir hana hugljúfa mynd um hugnæmt ástarævintýri. „Handritið slær engar feilnótur en er líka í engan stað sértækt,“ segir Hjördís og gefur myndinni þrjár stjörnur.

Hjördís segir meðal annars:

Fyrir framan annað fólk er eiginlega fyrsta hefðbundna rómantíska gamanmyndin sem gerð hefur verið hér á landi. Í anda formgerðarinnar segir myndin af tveimur ungum og geðþekkum elskendum sem virðist vart skapað nema skilja en þegar upp er staðið ber ást þeirra sigur úr býtum.

Og ennfremur:

Það neistar af ástarbríma Húberts og Hönnu og persónur þeirra eru bæði heilsteyptar og sannfærandi. Þokki leikaranna virðist einnig ljá þeim auka-áru. Aðrar persónur myndarinnar eru fremur flatar og skrípalegar og því ekki jafn sannfærandi þótt þær séu vel leiknar.

Myndin fylgir formgerð rómantískra gamanmynda út í æsar og söguþráðurinn er því nokkuð fyrirsjáanlegur og aðstæður persóna afar klassískar. Myndin heggur því í sama knérunn og þorri mynda hjartagosans Hughs Grants (t.d. Bridget Jones’s Diary, Love Actually, Four Weddings and a Funeral) en munurinn er sá að í hans myndum eru yfirleitt fleiri sterkar og/eða sérstæðari persónur, sögusviðið frumlegra eða aðstæðurnar ýktari.

Sú íslenska mynd sem áður hefur komist næst því að fylgja þessari formgerð er Okkar eigin Osló (2011) en þar var unnið aðeins meira með styrkjandi dramatíska afbyggingu.

Á heildina litið er Fyrir framan annað fólk afar hugljúf mynd um hugnæmt ástarævintýri. Handritið slær engar feilnótur en er líka í engan stað sértækt. Tæknileg vinna er öll til fyrirmyndar, myndefnið skartar silkimjúkri glansáferð og tónlistin er dillandi. Myndin er afar vel leikin, samtölin rúlla lipurlega og eru mátulega krydduð smellnum bröndurum. Áhorfendur fara brosmildir og hýrir heim úr bíó en myndin skilur lítið meira eftir sig en það.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR