Svartir sandar, traustir innviðir og endurgreiðsla

Birgir Olgeirsson skrifar á Vísi ítarlega fréttaskýringu um Ísland sem tökustað erlendra kvikmynda og endurgreiðsluna, sem nú stendur til að hækka í 25%. Rætt er við Einar Hansen Tómasson hjá Film in Iceland og Baltasar Kormák.

Einnig er að finna þarna ýmiskonar tölulegar upplýsingar um endurgreiðslurnar allt frá 2001 til 2015.

Einar ræðir það starf sem Film in  Iceland sinnir og fer yfir hversu mikið hlutirnir hafi breyst á rúmum áratug eða svo.

Trúin til staðar
Hann segir margljóst að þeir framleiðendur og leikstjórar sem hafa komið hingað til lands séu afar ánægðir með þau gæði sem íslensk framleiðslufyrirtæki hafa veitt í gegnum árin.

„Þannig að þjónustufyrirtækin hafa verið að gera mjög vel. Það er ákveðið traust komið á Íslandi, þannig að menn eru ekki taka áhættu með því að fara til Íslands. Nú vita menn að það er öruggt að koma til Íslands, þú færð þjónustuna sem þú þarft, þú getur skotið og innviðirnir eru sterkir,“ segir Einar.

Töluverð breyting hefur orðið á hans starfi þessi tólf ár sem hann hefur unnið við að kynna Ísland sem tökustað. Í upphafi snerist vinnan hans aðallega um að sannfæra kvikmyndagerðarmenn um að Íslendingar væru fullfærir um að taka við stórum verkefnum. Í dag séu tengslin og traustið orðið annað og snúast fundirnir margir hverjir um að fara yfir verkefni sem gætu hugsanlega verið kvikmynduð á Íslandi.

„Þessi trú, hún er komin. Það er það sem skiptir svo miklu máli. Nú skiptir máli að vera samkeppnishæfur og halda því áfram,“ segir Einar. Hann segir ekkert standa í vegi fyrir því að Ísland geti áfram verið vinsæll tökustaður á komandi árum.

Baltasar Kormákur ræðir hugmyndir sínar um útvíkkun kvikmyndaframleiðslunnar og leggur þar sérstaka áherslu á að vinna með erlendu stúdíóunum í stað þess að vera aðeins í þjónustuhlutverki. Hann ræðir einnig hugmyndir sínar um að byggja upptökustúdíó hér á landi og vill að áhersla verði lögð á eftirvinnsluna einnig.

„Miklu meiri atvinnumenn í þessu“
Leikstjórinn Baltasar Kormákur hefur einnig verið iðinn við að hvetja erlent kvikmyndagerðarfólk til að taka upp á Íslandi auk þess sem hann sjálfur hefur komið með stór verkefni hingað til lands.

Hann segir góðan árangur hafa náðst í þessum málum undanfarin ár en hann vill að Íslendingar taki næsta skref í þessum bransa með því að hækka endurgreiðsluna úr ríkissjóði upp í 25 prósent. Með þeirri hækkun gætu Íslendingar fært sig úr þjónustuhlutverkinu og farið yfir á framleiðslustig.

Baltasar tekur undir orð Einars um að gott orð fari af íslensku kvikmyndagerðarfólki ytra. Starfsfólkið sem fer á milli íslensku fyrirtækjanna sé orðið mjög fært og reynslumikið og nýtur íslensk kvikmyndagerð góðs af því.

„Það er miklu fleira fólk farið að vinna við þetta og orðið miklu þjálfaðra. Þegar ég var að byrja hérna þá var aðallega verið að taka upp á sumrin og einstaka sinnum var eitt og eitt verkefni sem slæddist inn um veturinn. Þetta var eiginlega bara sumarhobbý. Núna er þetta orðin vinna allt árið í kring. Þegar við vorum að gera Ófærð vorum við í tökum í hálft ár. Þetta eru orðnir miklu meiri atvinnumenn í þessu,“ segir Baltasar.

Sjá nánar hér: Fréttaskýring: Svarti sandurinn kveikti áhuga Hollywood á Íslandi

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR