Tvöfaldur lokaþáttur „Ófærðar“ á sunnudag, stór sjónvarpshelgi framundan

ófærð ólafur darriÁkveðið hefur verið að ljúka sýningum á Ófærð næstkomandi sunnudagskvöld með því að sýna þá tvo síðustu þættina saman. „Við vildum verðlauna áhorfendur fyrir þessar frábæru viðtökur sem þáttaröðin hefur fengið með því að stytta biðina erfiðu,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV.

„Það hefur verið alveg einstaklega gaman að fylgjast með vangaveltum við kaffivélalarnar og á samfélagsmiðlum yfir ráðgátunni um hver morðinginn er og ennþá skemmtilegra verður að upplifa viðbrögðin þegar því hefur verið ljóstrað upp.“

Allt bendir því til að þessi helgi verði einhver stærsta sjónvarpshelgi í manna minnum, því þá verður ekki einasta umræddur tvöfaldur lokaþáttur af Ófærð heldur munu úrslitin í Söngvakeppninni 2016 fara fram kvöldið áður í beinni útsendingu, í fyrsta sinn frá Laugardalshöll, laugardaginn 20. febrúar. Þar verður öllu til tjaldað enda verið að fagna 30 ára þátttökuafmæli RÚV í hinni vinsælu Eurovision-söngvakeppni.

Ófærð hefur notið mikilla vinsælda síðan sýningar hófust 27. desember og að jafnaði fengið allt að 60% áhorf, sem er mesta áhorf sem mælst hefur á þáttaröð, síðan rafrænar mælingar hófust árið 2008.

Ófærð hefur einnig gengið afar vel erlendis þar sem sýningar eru hafnar, í Noregi, Finnlandi, Frakklandi og Bretlandi. Í Noregi hafa að jafnaði um 500 þúsund manns horft í hverri viku og ríflega 5 milljónir manna horfðu á fyrstu fjóra þættina sem sýndir voru  sl. mánudagskvöld í Frakklandi. Þar hefur þáttaröðin einnig fengið fínar umsagnir fjölmiðla og sama má segja um viðbrögðin í Bretlandi samanber umsagnir The Daily Telegraph og The Guardian.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR