„Sjö bátar“ verðlaunuð á Minimalen hátíðinni

Sjö bátarSjö bátar, stuttmynd Hlyns Pálmasonar, var valin besta norræna listræna myndin á Minimalen stuttmyndahátíðinni í Þrándheimi sem fór fram frá 27. – 31. janúar. Um er að ræða fyrstu verðlaun myndarinnar, sem var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto haustið 2014 og hefur síðan þá ferðast á yfir 20 alþjóðlegar kvikmyndahátíðir.

Sjö bátar segir frá manni sem berst fyrir lífi sínu úti á opnu hafi. Hann er umkringdur af sjö bátum.

Um ástæður valsins sagði dómnefndin:

„Í mynd sem lætur frásögnina líða áfram í aðeins einni töku, sem virðist í fyrstu vera einföld framsetning sögusviðsins, kvikna áleitnar spurningar varðandi félagslega hegðun okkar. Leikstjórinn nálgast með nákvæmni þá tilhneigingu okkar til að hunsa fólk í neyð. Sú tilhneiging er vandamál sem auðvelt er að heimfæra á stærra samhengi þeirra vandamála er steðja að mannkyninu.“

Sjö bátum var leikstýrt af Hlyni Pálmasyni og skrifaði hann einnig handritið. Julie Waltersdorph Hansen og Per Damgård Hansen framleiddu myndina fyrir Masterplan Pictures ásamt Antoni Mána Svanssyni sem framleiddi fyrir Join Motion Pictures. Maria von Hausswolff sá um stjórn kvikmyndatöku og Julius Krebs Damsbo klippti myndina.

Þess má geta að Sjö bátar var unnin að miklu leyti af sama fólki og stendur nú á bak við fyrstu kvikmynd Hlyns í fullri lengd, Vetrarbræður (d. Vinterbrødre), sem er líkt og Sjö bátarsamframleiðsla milli Danmerkur og Íslands. Masterplan Pictures mun framleiða myndina og Join Motion Pictures verður meðframleiðandi.

Sjá nánar hér: Sjö bátar vann til verðlauna á Minimalen hátíðinni | FRÉTTIR | Kvikmyndamiðstöð Íslands

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR