Krummi með hvíta hanska, kafli úr „Egils sögum“

Páll-Valsson
Páll Valsson.

Egils sögur – á meðan ég man kallast minningabók Egils Ólafssonar tónlistarmanns og leikara, sem nýkomin er út. Páll Valsson skrásetur, en JPV gefur út. Klapptré fékk góðfúslegt leyfi höfunda og forleggjara til að birta stuttan kafla úr bókinni þar sem segir af Hrafni Gunnlaugssyni, sænska leikaranum Sune Mangs og gerð kvikmyndarinnar Í skugga hrafnsins þar sem Egill fór með stórt hlutverk.

Hrafn fékk  virtustu leikstjórnarverðlaun Svía, Guldbaggen, fyrir Hrafn­inn flýgur og  myndin varð þekkt á Norðurlöndum og  víðar; í Svíþjóð náði hún sannkölluðum „költstatus“. Hrafni virtust þá  margir vegir færir – og fékk  mág sinn til þess að  feta með sér  næstu skref, víkinga­myndirnar Í skugga hrafnsins og Hvíta víkinginn.

Strax með framhaldsmyndinni, Í skugga hrafnsins, var kominn hybris í Krumma. Velgengnin með Hrafninn flýgur hafði stigið honum til höfuðs og hann hélt að hann gæti gert allt einn, þyrfti lítið á öðrum að halda. Hann var kominn með hvíta hanska eins og Kurosawa, fullur af sjálfum sér og talaði ekki við einn einasta leikara. Samt var hann þarna með frábæra leikara eins og Reine Brynjolfsson og Sune Mangs sem var goðsögn í Svíþjóð  og einn alvinsælasti leikari þar í landi.

Sune og stóra kallið

Sune var mjög skemmtilegur. Hann var stór og mikill, afar hræddur við hesta og þannig innréttaður þá að hann þurfti alltaf að vera á klósettinu. Svo var hann í rosalegum búningi, sem tók langan tíma að klæðast, og með fáránlegar tennur uppi í sér sem Krummi heimtaði að allir ættu að vera með, missmíði mikið og heyrðist ekki almennilega hvað menn sögðu, þetta var tóm vitleysa.

Aumingja Sune, “Sune han har tänder, Och andra tänder på, men hans stora hjärta brinner / till toiletten att nå,“ ortum við. Hann var ekki fyrr kominn í búninginn  en hann þurfti úr honum á klósettið.

Sune, sem nú er látinn, varð ungur barnastjarna  í Svíþjóð og allar götur síðan dáður mjög og vinsæll leikari. Hlýr, elskulegur karl og skemmtilegur. Við tökurnar á þessari mynd hafði hann óskaplegar áhyggjur af tvennu: að salerni væri í námunda  við tökustaðinn og að matartími væri virtur. Það mátti alls ekki seinka honum. Hvort tveggja hafði örugglega eitthvað að gera með hans iðrasýstem.

Tökur fóru  fram á hverasvæðinu við Mývatn. Sune hafði talað mikið um að það yrði að vera kamar til taks, því hann gæti ekki farið  langar vegalengdir þegar stóra kallið kæmi. Stóra kallið. Þetta var mikið mál fyrir hann, og hann lagði ríka áherslu á þetta. Þeir sem eru með iðrin í lagi geta haldið í sér, munar ekkert um það, en Sune barði það í gegn að kamarinn var alltaf færður með tökustaðnum. Kamarinn elti Sune. Stundum heyrðist öskrað: „Kamar í ramma“ … Kamarinn var svona hylki, eins og lítil eldflaug.

Svo gerist það eitt sinn að Stóra kallið kemur, og þrjár búningakonur koma hlaupandi, Sune byrjar að blóta, proppsarar hlaupa af stað með kamarinn og bún- ingakonurnar hlaupa með Sune og klæða hann úr á leiðinni, og hann fer inn á kamarinn. Svo leið langur tími. Kamarinn var svo lítill að varla var hægt að loka honum, en Sune stór og feitur, þannig að gyrt var niður um hann og rassinum stungið inn, féll svona eins og korktappi í flöskustút. Svo líður og bíður. Allir á settinu mæna á kamarinn. Svo kemur allt í  einu vindhviða, mjög skyndilega. Og það skiptir engum togum að þetta skítahylki hreinlega fýkur um koll, fellur til jarðar og rúllar niður brekku. Allir frjósa, búningakonur standa agndofa og ekki sér fyrir endann á því vandamáli sem er í uppsiglingu.  Svo æða allir af stað, proppsararnir og búningakonurnar, hver um annan þveran.

Þegar komið er að kamrinum heyrist fúkyrðaflaumur mikill, og þegar gætt er að mátti sjá þar inni Sune Mangs og innihald kamarsins í einni hræru, eins og risastór kokteilhristari hafi hrist allt saman og blandað. Reynt var að ná Sune út, en það gekk ekki vel og hann var með allt niðrum sig, hann var svo berháttaður þarna á staðnum. Proppsarar komu með strigapoka og stóðu til að skýla honum, samt sást í hann útataðan, og svo var komið með vatnsfötur langar leiðir að skola aumingja Sune. En ekkert meira var tekið þennan dag því það var ekki til búningur.

Svo átti Sune voðalega erfitt  með að ná íslenskunni, Kristinn Hallsson talaði fyrir hann, ólíkt Reine sem var svakalega duglegur í íslenskunni. Sune náði þessu bara ekki, og ekki hjálpuðu tennurnar. Þetta var mjög kómískt allt saman, maður skynjaði pirringinn. Svo var hann svo hræddur við hestana og spýtti textanum út úr sér, þú sást angistina  í augunum á honum. Ég var á hestbaki við hlið hans, og hann var alltaf að segja biðjandi: „Kom nærmere, stå tæt på mig“, var svo hræddur um að detta. Svo kom textinn allur brenglaður út úr honum, maður átti bágt með að halda andlitinu. Þetta var hreinasta martröð fyrir Sune, honum leið svo illa … hestar, tanngarður, tungumál og kamaráhyggjurnar. Og ég gleymi aldrei síðasta tökudeginum, hvað Sune var glaður, eins og sælt barn, gekk í endurnýjun lífdaga, yngdist upp, varð léttari og kvikari í spori, tók tanngarðinn og henti honum upp í loftið.

Sune Mangs í kvikmyndinni Í skugga hrafnsins.
Sune Mangs í kvikmyndinni Í skugga hrafnsins.

Önnur saga, ekki síður kómísk, tengist þessari mynd og Sune Mangs. Þá var verið að mynda hestaat, sem varð umtalað, á neðri bakkanum við Gullfoss, sem er friðlýst svæði. Þarna átti að vera þingbúð. Það var leiðindaveður þennan dag, ofboðsleg rigning, kalt og blautt og varð fljótlega hræðileg helvítis vosbúð. Krummi var með fullt  af statistum sem voru gestir á þinginu, börn og gamalmenni, og það varð að fylgja mönnum niður hættulegt einstigi.

Ég var svakalega pirraður yfir þessu öllu, aðstöðuleysinu og að Krummi skyldi ekki gefa mönnum breik þennan dag. Hann hélt hins vegar ótrauður áfram, þótt allir væru orðnir niðurrigndir og illa til reika. Í þessari senu voru tvær þyrlur sem komu og tóku yfirlitsskot af tjaldbúðunum, sem voru auðvitað feik, þarna var eitt stórt tjald. Svo kemur að því að ég malda í móinn, segi Krumma að nota nú tækifærið, allir séu hraktir og blautir og hann skuli nú leyfa fólki að fara í rútuna, gefa því heitt að drekka og svona, og svo skuli hann kalla það niður … „neinei, enga vitleysu, við erum að missa af ljósinu,“ segir þá Krummi, sjálfur í dúnúlpu  með hvítu hanskana, og var staðsettur hinum megin á bakkanum með gjallarhorn, kallandi skipanir.

Þá víkur sögunni að Sune Mangs og Stóra kallinu og vaxandi angist, hann var allan tímann að hugsa um hvernig hann kæmist á salernið því það var upp einstigi að fara. Ég segi við Sune að Krummi hljóti að gera hlé eftir tvo tíma í mesta lagi því allir væru svo hraktir, „tålamod Sune, det er det som gælder“. Það skiptir svo engum togum að ekkert af þessu gengur eftir. Sune heldur kyrru fyrir og hreyfir sig hvergi, en allt í einu er hann horfinn. Ég hugsa með mér að einhver hafi farið með hann á kamarinn sem var uppi á bakkanum, þetta hafi bjargast. Síðan er komið að tiltekinni senu, Krummi æpir í gjallarhornið að allir eigi að fara inn í stóra tjaldið, þyrlurnar séu að koma, og Biskupinn (Sune) eigi að ganga yfir sviðið. Ég tek eftir  að Sune er bara með nokkuð hýrri há, og gerir sig kláran. Svo eru þyrlurnar að koma og allir komnir inn í tjaldið … þá skyndilega kemur bara öll strollan hlaupandi út úr tjaldinu, öskrandi og æpandi. Þá var Sune búinn að skíta inni í tjaldinu, og kæfandi skítalyktin hrakti menn út. Krummi öskrar á menn til baka, en án árangurs. Þetta var algjörlega óborganleg og ógleymanleg  sena. Stóra kallið hafði semsé komið og svo hafði einhver stigið í skítinn, af þessu fóru miklar lýsingar síðar. En aumingja Sune var í neyð, hann komst ekki upp einstigið. Og fékk svo yfir  sig skammarræðu frá Krumma:

„Sune, þú mátt bara skíta í kamarinn,  ekki skíta í leikmyndina  …“ Hann sat undir þessu eins og dæmdur maður. Sune átti alla mína samúð, því Krummi skynjaði ekkert svona. Hann bölvaði bara Sune, „helvítis kallinn er búinn að eyðileggja fimm daga fyrir  mér með þessum andskotans kamarferðum“, hann hafði engan húmor fyrir þessu.

Hvíti víkingurinn var eitthvert stærsta kvikmyndaverkefni sem íslensk­um kvikmyndagerðarmanni hafði verið falið. Þetta var samnorræn framleiðsla og Hrafn Gunnlaugsson fékk myndarlega styrki og til  liðs við sig valinn mann í hvert rúm; ef til vill var þetta draumaverkefni lífs hans enda efnið eins konar samnefnari þeirra mynda sem hann hafði bestar gert áður, eða  höfðu að minnsta kosti náð mestri útbreiðslu.

Framleiðandi var Dag  Alveberg, einn  sá  öflugasti á Norðurlöndum, yfirhljóðmaður var sá sem hafði séð um verðlaunamynd Bille August, Pelle Erobreren, tökumaður var Tony Forsberg og  tónlistin í höndum Hans Erik  Philip, rétt eins og í Hrafninn flýgur. Og í aðalkvenhlutverkið valdi Hrafn unga og óþekkta norska stúlku, Mariu Bonnevie, sem nú er í hópi þekktustu norrænu leikkvenna.

Myndin var sýnd á Norður­löndum sem sjónvarpsmynd í fjórum hlutum og olli  víðast hvar von­brigðum. Handritið þótti frekar þunnt og klisjukennt, verulega skorti á dýpt í persónusköpun og jafnframt mátti gagnrýna leikinn. Hrafn var sjálfur óánægður með útkomuna og skellti skuldinni á framleið­endur sem hefðu tekið yfir í klippiherberginu og hann hefði ekki ráðið endanlegri útkomu. Löngu síðar setti Hrafn sína eigin útgáfu á markað. Egill mágur hans lék í þessari sögulegu mynd.

Krummi getur að miklu leyti sjálfum sér um kennt. Hann fékk þarna breik lífs síns en honum var ómögulegt að nýta sér það vegna stærilætis. Hann hlustaði ekki á neinn, hélt að hann gæti gert þetta allt einn og kunni ekki að virkja það góða fólk sem var þarna með honum. Þarna voru afburða handritshöfundar að skrifa senur og spinna við verkið, einn var Andrew Hislop, toppmaður frá BBC. Hann var látinn skrifa nýjar senur daglega en þurfti að búa við það að hirða upp leifarnar af handriti sínu í tætlum fyrir  utan herbergið sitt, því Krummi, sem bjó fyrir ofan hann, reif það jafnóðum og henti því út um gluggann. Svo sagði hann finnska tökumanninum upp eiginlega strax, sá hafði unnið mikið með Kaurismäki. Og þannig gekk þetta.

Ég var að reyna að koma vitinu fyrir hann, og var ekki einn um það, og skipa honum að hlusta á þetta hæfa fólk sem var allt í kringum hann, en nei, hybrisinn kom í veg fyrir það. Hann gróf  sína eigin gröf  með snautlegri og allt að því óafsakanlegri framkomu við toppfólk. Mægðir þvældust ekki fyrir í okkar samskiptum, okkar samband var gott að því leyti að við rifumst mikið þarna, eins og hundur og köttur dag eftir dag, en sættumst jafnharðan því alltaf  lofaði hann bót og betrun. Krummi á auðvitað margar góðar hliðar, en hann er fljótfær.  Hann heldur sjálfur að hann sé maður instínktsins, og þá sé best að enginn standi í vegi fyrir honum, en það reynist oft vera bara fljótfærni. Honum fannst að allir aðrir væru að draga sig niður úr sínu mikla flugi. Þetta var sorglegt, og ég hef stundum hugsað um það að ef Hvíti víkingurinn hefði tekist vel og gengið upp, þá hefði vegur Krumma orðið allt annar. Hann hefði örugglega komist á stærri markað, og hver veit hvað þá hefði gerst, því Krummi var frjór um margt og snjall sögumaður.

[Sjá má nokkur brot úr kvikmyndinni Í skugga hrafnsins hér að neðan:]

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR