Heimildamyndin „Veðrabrigði“ frumsýnd, stikla hér

Rammi úr Veðrabrigðum.
Rammi úr Veðrabrigðum.

Heimildamyndin Veðrabrigði eftir Ásdísi Thoroddsen verður frumsýnd í Bíó Paradís þann 26. nóvember og verður sýnd í viku. Myndin segir af sjávarþorpinu Flateyri þar sem íbúar berjast fyrir tilveru sinni og framtíð þorpsins. Með tilkomu kvótakerfisins færðust örlög íbúanna í hendur þeirra sem réðu kvótanum.

Á Flateyri við Önundarfjörð hefur byggst upp þorp í kringum útgerð og fiskverkun. En nú hallar undan fæti. Lögin um stjórn fiskveiða hafa reynst þorpinu afdrifarík. Fyrir utan eru gjöful fiskimið, en ekki er sjálfsagt að róið sé til fiskjar. Mikill hluti þorpsbúa er pólskt verkafólk sem hefur sótt þangað í atvinnuskyni, en á hinn bóginn flytja ungir Íslendingar burt í leit að menntun og einhverju öðru við að vera en fiskvinnu. Fylgst er með nokkrum þorpsbúum við störf sín og rætt við þá um lífskilyrði þeirra og þorpsins.

Ber fyrst að telja hina öldnu Jóhönnu sem segir nýliðna sögu þorpsins. Önundur vörubílstjóri heitir eftir firðinum þar sem hjarta hans slær, en hann fær ekki þrifist. Samhent fjölskylda Guðrúnar, eiginmanns hennar og barna, gerir út og herðir gæðaharðfisk. Einyrkinn Sigurður fiskar með syni sínum á unglingsaldri upp í leigukvóta. Janina var nýflutt til landsins, vann í frystihúsinu og var nýbúin að kaupa hús, þegar henni var sagt upp í þrengingum þorpsins. Stanislaw flæktist til Íslands úr atvinnuleysi Póllands og endaði á Flateyri sem sjómaður. Á endanum hittum við Bryndísi, nýkomna til þorpsins full eldmóðs sem framkvæmdastjóri nýs fyrirtækis.

Inn í persónulegar dramatískar frásagnir er klippt inn fréttaefni allt frá því er kvótahafi selur burt kvóta þorpsins dag einn í maí 2007 og síðan þá hvernig reynt hefur verið að koma fótum á nýjan leik undir atvinnustarfsemi í þorpinu; með stofnun nýs fyrirtækis sem gerði út á leigukvóta en fór í gjaldþrot upp úr íslenska efnahagshruninu. Þá kemur enn nýtt fyrirtæki til leiks sem virðist muni ganga vel…

Ásdís Thoroddsen stýrir gerð myndarinnar en framleiðendur eru Hjálmtýr Heiðdal hjá Seylunni og Heather Millard hjá Compass Films. Samframleiðendur eru Yeti Film Þýskalandi og Metro Films Póllandi. Myndin er 80 mínútur að lengd.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR