Rás 1 um „Þresti“: Kunnuglegt en glæsilega saman sett

Rammi úr Þröstum.
Rammi úr Þröstum.

„Þrestir er þroskasaga ungs manns, sem er að miklu leyti staðnaður sem barn, og myndin skoðar tímabil í lífi hans þar sem hann neyðist til að horfast í augu við fullorðinsárin, sama hversu glötuð þau kunna að virðast,“ segir Gunnar Theódór Eggertsson meðal annars í Víðsjá Rásar 1 um mynd Rúnars Rúnarssonar.

Gunnar segir:

Þrestir hefur fengið glimrandi góða dóma víðast hvar og þegar unnið til stórra verðlauna á hátíðum úti í heimi og miðað við allt umtalið kom það mér þó nokkuð á óvart hversu hefðbundin myndin er að miklu leyti, en einkum þó hvað varðar handrit, uppbyggingu og þemu. Myndin ferðast eftir vandlega troðnum slóðum um þroskasögu unglings sem uppgötvar hvað það þýðir að verða fullorðinn, og enn fremur snýst myndin um tilfinningasambönd karlmanna sem hafa verið illa brenndir af konum – efni sem virðist koma fram í annarri hverri íslenskri mynd um þessar mundir.

Og síðar:

En þótt söguefnið sé afskaplega kunnuglegt, þá má nú alltaf finna nýjar leiðir til að segja gamlar sögur, allir segja frá á ólíka vegu, og þó að handritið sé ekki sérlega áhugavert á heildina litið, þá verður því seint neitað að Rúnar Rúnarsson er reglulega góður myndrænn leikstjóri. Myndin er stílíseruð, glæsilega saman sett, og greinilega útpæld og unnin af markvissri sýn leikstjórans hvað varðar uppbyggingu á rammasetningu og sjónrænum mótífum, speglum og gluggum, áherslum í nær og víðmyndum, og brotakenndri upplifun áhorfenda á lykilatriðum, sem endurspegla oft andlega líðan aðalpersónunnar.

Og ennfremur:

Talandi um karakterstúdíu, þá leiðist mér að þurfa að ræða enn einu sinni um íslensku karlamyndirnar, en ég get ekki annað en minnst á kvenpersónurnar í Þröstum, sem eru, líkt og víða, nánast ekki til staðar nema sem viðföng fyrir karlpersónurnar. Það er í raun ekki bara að kvenhlutverkin séu ekki bitastæð eða að þau séu grunn eða smávægileg miðað við þungann sem karlarnir bera, heldur birtast kvenhlutverkin fyrst og fremst sem frásagnartól til að færa sögu karlsins áfram, og það er mun dýpra vandamál í karllægri kvikmyndagerð.

Og loks:

Sem fyrr segir er margt fallegt og gott við Þresti, þótt vandamálin varðandi handritið, díalóginn, og ekki síst kynhlutverkin, dragi myndina óneitanlega aðeins niður, svo úr verður fín mynd, en ekki frábær, um þroskasögu drengs sem lærir eða lærir ekki hvað það þýðir að vera fullorðinn, eða að vera karlmaður. Styrkleikar myndarinnar liggja annars staðar heldur en í persónunum eða sögunni – þeir liggja í ljóðrænni túlkun í gegnum mátt hins myndræna, í því smáa frekar en því stóra – litlum fallegum senum frekar en stærra samhengi söguþráðarins – og hvað það varðar fer ekki á milli mála að leikstjórinn er sterkur og sjónrænn kvikmyndasmiður sem kann að smíða fallega ramma og byggja upp krefjandi senur, en mætti finna sér sterkari handrits- og persónugrunn til að vinna með.

Sjá umsögnina í heild sinni hér: Þrestir Rúnars Rúnarssonar

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR