Morgunblaðið um „Þresti“: Spegill, spegill, herm þú hver

Þrestir still jarðarförHjördís Stefánsdóttir skrifar um Þresti Rúnars Rúnarssonar í Morgunblaðið og gefur henni fjóra og hálfa stjörnu af fimm. Hún segir áhorfendur finna tilfinningaspennu magnast innra með sér og skynja illþyrmilega að slæmar aðstæður Ara komi til með að versna til muna áður en yfir lýkur.

Umsögn hennar fer hér í heild sinni:

Leikstjórinn Rúnar Rúnarsson lauk námi frá danska kvikmyndaskólanum árið 2009 og er þegar orðinn einn verðlaunaðasti leikstjóri sinnar kynslóðar. Hann hefur unnið vel á annað hundrað alþjóðleg kvikmyndaverðlaun fyrir fyrstu þrjú verk sín en stuttmyndirnar „Smáfuglar“ og „Síðasti bærinn“ voru auk þess tilnefndar til Gullpálmans í Cannes annars vegar og Óskarsverðlauna hins vegar.

Í fyrstu frásagnarmynd sinni í fullri lengd, Eldfjalli, gerði Rúnar hrörnun ellinnar góð skil en í nýjustu mynd sinni Þröstum, er óhörðnuð æskan í brennidepli. Nýja myndin hefur strax sannað að hún er enginn eftirbátur fyrirrennara sinna því fyrir skemmstu var hún valin besta myndin á hinni virtu San Sebastián-kvikmyndahátíð á Spáni. Hún var frumsýnd hérlendis fyrir helgi, með viðhöfn á RIFF, og fer svo í almennar sýningar um miðjan mánuðinn.

Sagan segir af hinum unga og óharðnaða Ara (Atli Óskar Fjalarsson) sem syngur engilblítt í reykvískum drengjakór. Grandalaus glatar hann sakleysi æskunnar er móðir hans ákveður að fljúga á vit ævintýra í Afríku með nýjum eiginmanni, því þá neyðist Ari til að flytja á æskuslóðir sínar vestur á fjörðum. Þar á hann að búa með föðurónytjungi sínum Gunnari (Ingvar E. Sigurðsson) sem keppist við að blóta Bakkus í slagtogi með öðrum álíka svallsukkandi amlóðum.

Gunnar sem enn sýtir að hafa drukkið frá sér konuna, hefur ekki staðið sig í föðurhlutverkinu svo árum skiptir og ber ekkert skynbragð á hvernig hann getur nálgast son sinn. Einu haldreipi Ara í þessum kaldranalegu nýju hlutskiptum eru yndisleg föðuramma hans (Kristbjörg Kjeld) og æskuvinkonan Lára (Rakel Björk Björnsdóttir) en þær geta aðeins veitt honum takmarkaða björg. Hlutskipti Ara versnar stöðugt og endar í heitasta helvíti þegar það rennur upp fyrir honum hversu siðlaust og grimmt samfélag hans er og hann neyðist til að velja milli þess að afhjúpa syndir þess eða reyna að verja sína kærustu fyrir soranum.

Í Mattheusarguðspjallinu eru þrestir notaðir sem táknmynd guðlegrar forsjár er Jesú hvetur fjöldann til að gefa sig á vald Guðs. Í bókmenntum frá fornu fari hafa þrestir hins vegar oft staðið í yfirfærðri merkingu fyrir lágkúrulegar persónur sem eru jafnvel grimmar og klúrar. Það er einnig til fornegypsk híeróglýfa af þresti sem notuð var til að tákna eitthvað lítið, þröngt eða slæmt. Titill myndarinnar er sem sagt vel valinn og hlaðinn vísunum. Ari er eins og lítill saklaus þrastarungi sem syngur guðdómlega sálma á meðan margir aðrir úr nærumhverfi hans eru syndugir. Farfuglseðli þrastarins birtist einnig í flugi móður Ara suður á bóginn og vesalings sonarins á æskustöðvarnar.

Myndin er hæg og þrúgandi en þó aldrei langdregin því hvergi er dregið undan, né neitt misjafnt falið í nærgöngulum og beinskeyttum efnistökunum. Áhorfendur finna tilfinningaspennu magnast innra með sér og skynja illþyrmilega að slæmar aðstæður Ara koma til með að versna til muna áður en yfir lýkur. Það verður að segjast að handrit myndarinnar er roknagott og leikstjórnin sömuleiðis.

Hið staðbundna íslenska sögusvið heldur áfram að sigra heiminn í gegnum stórbrotna íslenska kvikmyndagerð. Frásögnin getur þó með engu móti talist hefðbundin þroskasaga með tilheyrandi eðlilegum manndómsvígslum og glötuðu sakleysi, hvort heldur sem litið er til séríslensks veruleika né stærra samhengis alheimsins og þar munar líklega mest um frásagnarmáta og römmun myndefnis. Heilnæmur leikurinn hefur einnig sitt að segja. Áhorfendur komast ekki hjá því að klökkna á stundum yfir angurværri en um leið afdráttarlausri túlkun aðalleikaranna. Upprennandi stórstjörnurnar Atli Óskar og Rakel Björk gefa kempunum Kristbjörgu Kjeld og Ingvari E. ekkert eftir en samspil þessa kvartetts er með ólíkindum dínamískt. Aukaleikarar standa sig einnig vel en frammistaða Víkings Kristjánssonar og Arndísar Hrannar Egilsdóttur í hlutverkum dauðadrukkinna amlóða er einkum eftirminnileg.

Eini smáljóður myndarinnar er að orðaskipti mæðginanna í upphafi myndar eru ekki sannfærandi en það kemur lítt að sök því í þessum senum eins og annars staðar er yfirveguð myndatakan með afburðum listræn. Línur, litir og mynstur í leikmynd ramma myndefni af mikilli festu. Staðarval sögusviðsins umvafið dalalæðu og háum fjöllum og næturbirta sumarsins leggja sitt á vogarskálarnar sem og ákallandi sálmatónlistin. Tæknileg framvindan leiðir áhorfendur markvisst að merkingarbærum blæbrigðum. Fyrstu rammar myndarinnar sýna upp í hvítkalkað, bogadregið hvolfþak kirkju þar sem Ari syngur með kór sínum. Sakleysi hans og sæla er þar í öruggri höfn. Næst sjáum við Ara kúldrast undir hvítri sæng og heyrum mömmu hans grátbiðja hann að koma undan henni því þeim liggi á. Ófleygur þarf hann að yfirgefa hreiðrið þvert gegn vilja sínum. Þegar vestur kemur vaka skörðótt fjöll, óravíddir himins og drungi hafsins yfir og allt um kring svo Ari verður eins og krækiber í helvíti. Innilokun hans í draslaralegum hýbýlum er ekki skárri. Þar drepast flugur í skítugum gluggum og speglar leyna ekki hroðalegum myrkraverkum sem framin eru bak við luktar dyr. Þótt myndin sé hæg er hvert andartak hlaðið spennu sem verður á köflum nánast óbærileg og áhorfendur standa að lokum upp og langar að emja: „Foreldrar, gætið barna ykkar!“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR