Noregur í samkeppni við Ísland; tekur upp 25% endurgreiðslu

Norska bylgjan á leiðinni? Rammi úr kvikmyndinni Bølgen, vinsælustu norsku myndinni þessa dagana.
Norska bylgjan á leiðinni? Rammi úr kvikmyndinni Bølgen, vinsælustu norsku myndinni þessa dagana.

Norðmenn hafa ákveðið að taka upp endurgreiðslukerfi líkt og hefur verið í gildi hér á landi í hátt á annan áratug. Endurgreiðsla Norðmanna er þó mun hærri; 25% en hér er hún 20%.

Umræða um þetta mál hefur staðið nokkurn tíma í Noregi og hefur því verið búist við þessum tíðindum um nokkurt skeið.

Settar verða 4.7 milljónir evra (um 670 milljónir króna) í endurgreiðsluna fyrsta árið. Fjármagnið kemur af heildar fjárfestingu Norðmanna til kvikmyndagerðar, sem á næsta ári hækkar um 5% og verður 87 milljónir evra (um 12,4 milljarðar króna).

Til samanburðar vörðu Íslendingar 933 milljónum króna til endurgreiðslukerfisins árið 2013. Ætla má að upphæðin hafi hækkað nokkuð síðan þá.

Thorhild Widvey menningarmálaráðherra Noregs segir endurgreiðslukerfinu ætlað að styrkja samkeppnishæfni Noregs og bendir jafnframt á fjölbreytt úrval landslags og hentugra tökustaða, mikla fagmennsku í kvikmyndaiðnaðinum og og ríkulega menningarsögu.

Norðmenn leggja einnig áherslu á hagstætt gengi norsku krónunnar gagnvart dollar, pundi og evru. Allt eru þetta kunnugleg sjónarmið úr umræðu um endurgreiðslukerfið hér á landi.

Ætla má sökum nálægðar og um margt svipaðra þátta varðandi samfélag og landslagselement, að Noregur muni veita Íslandi harða samkeppni um stór alþjóðleg verkefni. Í því sambandi má minna á viðtal NRK við Baltasar Kormák í júní síðastliðnum þar sem hann talaði um að til greina kæmi að gera fyrirhugaða víkingamynd í Noregi ef það væri hagstæðara.

Sjá nánar hér: Norway introduces 25% rebate for international film and TV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR