Gagnrýni | Cartel Land *** (RIFF 2015)

cartel landFyrirbærið “ Drug Cartel” er hugtak sem ekki er auðvelt að snara yfir á Íslensku á einfaldan hátt, myndin Cartel Land er þýdd sem “Glæpaland” á íslensku af þýðendum RIFF og er sú þýðing ekkert verri en hver önnur en um leið e.t.v. full mikil einföldun. Cartel er í stuttu máli orð yfir einhvers konar samtök sem koma sér saman um einokun á markaði, drug cartel gæti því útleggst sem “Dóphringur” en það hljómar samt svolítið eins og einhvers konar leikfang. En í þessum dómi skal einfaldlega haldið við þýðingu RIFF, Glæpaland, þar sem þessi mynd fjallar um hvernig Mexíkó er á vissan hátt gegnumsýrt af glæpum og spillingu. En líkt og með hugtakið drug cartel er engin sérlega einföld leið til að lýsa ástandinu.

[column col=“1/2″][message_box title=“Cartel Land“ color=“gray“] [usr 3] Leikstjóri: Matthew Heineman
Mexíkó, Bandaríkin, 2015
[/message_box][/column]Glæpaland fjallar um þessa ljótu hlið á Mexíkó frá sjónarhorni sem hefur lítið sést áður, hún segir frá hópi fólks sem hefur tekið sig til og tekið lögin í sínar eigin hendur. Þessi hópur er ekki ánægður með hvernig yfirvöld hafa staðið sig í stríðinu gegn eiturlyfjum og hafa fengið nóg af spillingunni og ákveða því sjálf að gera eitthvað í málunum, eins konar “vigilante” hópur (annað hugtak sem erfitt er að þýða á einfaldan hátt, “sjálfskipaður lögreglumaður” er ein þýðing). Þessi hópur er staðsettur í Michoacán fylki í Mexíkó og kallar sig “Autodefensas” en þau eru leidd af lækninum Jose Mireles sem er álitinn af sumum vera hálfgerð þjóðhetja í þessum hluta af Mexíkó. Tökuliðið eltir Mireles og félaga þar sem þau ferðast milli borga og hvetja fólk til að ganga til liðs við sig og elta uppi eiturlyfjasalana. Við kynnumst vægast sagt grimmilegum aðstæðum sem þetta fólk þarf að lifa við dag hvern þar sem meðlimir “dóphringjanna” hika ekki við að myrða börn og afhausa fólk fyrir það eitt að búa í ákveðnum bæ. Einnig kynnumst við aðeins persónulegu lífi Mireles og fáum að vita hvernig maður þetta er sem ákveður að taka lögin í eigin hendur.

Glæpaland er mynd sem dæmir ekki heldur sýnir hvernig hlutirnir eru og leyfir áhorfandanum að dæma, aðferðir “Autodefensas” eru stundum vafasamar og þeir beita stundum grófu ofbeldi, og þeir eru alls ekki jafn elskaðir af öllum auk þess sem yfirvöld eru ekki hrifin af því sem þeir eru að gera. En þetta er erfitt ástand og þegar menn horfa upp á dauða og óhugnað á hverjum degi og finnast yfirvöld ekki vera að gera neitt í ástandinu er skiljanlegt að menn vilji gera eitthvað í málunum sjálfir. En misjafn sauður er í mörgu fé og smám saman kemur í ljós að það leynist líka spilling meðal “Autodefensas” hópsins auk þess sem Mireles sjáfur er langt frá því að vera fullkominn (hann er t.d. duglegur við að halda framhjá konunni sinni).

Til hliðar við þessa sögu kynnumst við líka manni frá Arisóna fylki í Bandaríkjunum sem stundar það að elta uppi meðlimi dóphringjanna sem hafast við kringum landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó, annars konar “vigilante” sem hefur fengið nóg af ástandinu og aðgerðarleysi yfirvalda.

[quote align=“center“ color=“#999999″]En vandamálið við þessa mynd er að hún nær ekki að kafa nógu djúpt. Við fáum góða tilfinningu fyrir ástandinu en einhvern veginn er eins og eitthvað vanti, myndin gerir full mikið af því að sýna það sama aftur og aftur (t.d. “Autodefensas “að hlaupa um götur Mexíkó og elta glæpona) í staðinn fyrir að skoða og sýna heildarmyndina betur.[/quote] Í stuttu máli sagt gefur Glæpaland ákveðið sjónarhorn af stríðinu við eiturlyfin í Mexíkó sem á sér djúpar rætur og væri vel hægt að gera heila myndaseríu um allar hliðar þess. En vandamálið við þessa mynd er að hún nær ekki að kafa nógu djúpt. Við fáum góða tilfinningu fyrir ástandinu en einhvern veginn er eins og eitthvað vanti, myndin gerir full mikið af því að sýna það sama aftur og aftur (t.d. “Autodefensas “að hlaupa um götur Mexíkó og elta glæpona) í staðinn fyrir að skoða og sýna heildarmyndina betur. Áhorfandinn fær ekki nógu ljósa hugmynd af því hverju spilling stjórnvaldanna felst í og sömuleiðis hefði maður viljað vita meira um glæpasamtökin sem barist er við. Einnig hefði verið gaman að kafa dýpra í spillinguna sem leynist í Autodefensas hópnum, ýmislegt kemur í ljóst seint í myndinni sem hefði vel mátt dvelja lengur við. Vandamálið gæti verið að kvikmyndagerðarmennirnir hafi einfaldlega ekki haft nægan aðgang að öllu sem þeir vildu en þó eru þau greinilega að leggja líf sitt í hættu, eltandi uppi Mireles og félaga í miðjum skotbardögum.

Annað sem má nefna er hliðarsagan í Bandaríkjunum sem er vissulega áhugaverð (leiðtogi þess ætlaði upphaflega að flæma burt ólöglega innflytjendur sem voru að taka vinnu frá honum en lærði svo að vandamálið væri stærra og dýpra en það) en ristir í raun ekki svo djúpt og lítið áhugavert er sýnt, það er eins og sú saga hafi átt að vera stærri en svo ekki náðst að gera nógu mikið úr henni en leikstjóranum samt fundist hún verða að vera í myndinni (sirka fjórðungur myndarinnar fer í þessa sögu og oft líður langur tími á milli atriða þannig að þegar er horfið er aftur til Bandaríkjanna er maður næstum búinn að gleyma þeirri sögu). Hugsunin á bak við þetta er skiljanleg, að sýna tvær hliðar á sama peningnum, en eitthvað vantar engu að síður. Myndin hefði vel getað virkað án Bandaríska hlutans og einblínt bara á Mexíkó, en þá hefði hún bara verið rétt rúmlega klukkutíma löng en ekki þessar klassísku 90 mínútur sem öllum alvöru bíómyndum finnst þær þurfa að vera.

Glæpaland er ekki löng mynd en samt tekst henni einhvern veginn að teygja lopann og gefur ekki alveg eins góða heildarmynd af ástandinu og hún gæti hafa gert, þó vissulega sé hún mögnuð á köflum. Það er hægt að mæla með þessari mynd ef menn vilja fá smá innsýn í ástandið í Mexíkó og heilt á litið er hún alls ekki slæm (öll tæknihliðin er vönduð en þó óframúrskarandi) en hún hefði geta verið sterkari og kafað dýpra í hlutina.

Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson er mikill kvikmyndaunnandi og er með meistaragráðu í samanburðarbókmenntum. Hann stefnir á að gerast frægur kvikmyndaleikstjóri einn góðan veðurdag.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR