Er Adam Price besti handritshöfundur Evrópu?

Sveinbjörn I. Baldvinsson handritshöfundur og formaður FSE veitir kollega sínum Adam Price verðlaunin. (Ljósmynd: Milena Strange).
Sveinbjörn I. Baldvinsson handritshöfundur og forseti FSE veitir kollega sínum Adam Price verðlaun FSE. (Ljósmynd: Milena Strange).

Evrópsku handritshöfundaverðlaunin afhent í fyrsta sinn í Brussel.

Ef eitthvað er að marka Evrópsku handritshöfundaverðlaunin, FSE European Screenwriters Award, sem Evrópsku handritshöfundasamtökin (FSE) stóðu fyrir í fyrsta sinn 22. september síðastliðinn, þá er svarið já – Adam Price er handritshöfundur Evrópu, a.m.k. næstu tvö árin þar til næsta hátíð verður haldin 2017. Og líklega geta flestir verið nokkur sáttir við valið, sem hugmyndasmiður og aðalhöfundur Borgen er Adam Price vel að heiðrinum kominn. En hver er náunginn?

Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur og formaður Félags leikskálda og handritshöfunda.
Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur og formaður Félags leikskálda og handritshöfunda.

Adam Price er fæddur árið 1967 og áður en Borgen kom til sögunnar var hann fyrst og fremst þekktur í heimalandinu Danmörku sem sjónvarpskokkur, matargagnrýnandi og veitingahúsaeigandi. Þættirnir Spise med Price (Price bræður bjóða til veislu) hafa verið sýndir á RÚV og fólk man kannski eftir þessum huggulegu bræðrum sem setja engin efri mörk við notkun á smjöri í matargerð sinni. En Adam Price stökk ekki beint út úr eldhúsinu fullskapaður handritshöfundur til að skrifa þrjár þáttaraðir af Borgen og sigra heiminn. Hann hefur starfað sem handritshöfundur í 20 ár, meðal annars skrifað einstaka þætti í seríum sem íslenskir áhorfendur ættu að þekkja, Taxa og Anna Phil. Borgen er hins vegar óumdeilanlega gullæðin hans sem ekki sér fyrir endann á hversu mikið mun gefa af sér.

Í þakkarræðu sinni á verðlaunahátíðinni í Brussel, sem fram fór í forkunarfögru húsi (einskonar vin í miðri stjórkerfishverfiseyðimörkinni) þar sem áður var hesthús Louis Pasteur en hýsir nú bæverska fulltrúaráð Evrópuþingsins, sagði Adam Price frá því að þegar hann kynnti hugmyndina að Borgen fyrir DR á sínum tíma hafi viðbrögðin verið: „Leikin sería um dönsk nútímastjórnmál? Hver í ósköpunum hefur áhuga á því?!“ Danska ríkissjónvarpið lét þó tilleiðast en varaði Price við „Þetta er lókal sería, það verður í mesta lagi hægt að selja hana til hinna Norðurlandanna“. Reyndin varð heldur betur önnur. Borgen hefur verið seld til um 90 landa, allt frá Bretlandi og Bandaríkjunum til Rúmeníu og Suður-Kóreu. Reyndar lýsti Price því yfir í þakkarræðunni að hann dreymdi um að Borgen yrði sýnd í Norður-Kóreu, hún myndi þá líklega flokkast sem vísindahrollvekja.

Á meðal gesta á verðlaunahátíðinni var fjöldi evrópskra handritshöfunda, frá þeim 19 löndum sem mynda Evrópsku handritshöfundasamtökin FSE, fólk úr belgíska kvikmyndabransanum, Evrópuþingmenn og -fulltrúar af ýmsu tagi. Það var því ekki síst verið að lobbía þarna og freista þess að koma málstað kvikmyndahöfunda, með áherslu á bætt samningsumhverfi og aðgerðir til að tryggja rétthöfum sanngjarnar tekjur af hvers kyns notkun verka þeirra, á framfæri við fólkið sem stýrir heiminum í gegnum lagasetningar og reglugerðir. En fyrst og fremst var þetta náttúrlega bara gott partí þar sem fókusinn var á handritshöfundinn (nokkuð sem gerist ekki oft) og þá sérstaklega verðlaunahafa kvöldsins, Adam Price.

Undirrituð var svo heppin að vera boðið ásamt öðrum norrænum fulltrúum handritshöfundasamtaka út að borða með Dönunum og Adam Price eftir verðlaunaafhendinguna. Það er skemmst frá því að segja að á fjórða eða fimmta rétti var maður alvarlega farinn að efast um forréttindi sín og óttaðist helst að verða boðið eitt lítið myntulauf, svona rétt að lokum. En þetta er að sjálfsögðu ósmekkleg kaldhæðni, gestrisni Dananna var eins og þeirra er von og vísa og Adam Price er virkilega sætur og klár maður.

Adam Price vinnur nú að glænýrri sjónvarpþáttaröð sem ber vinnutitilinn Rides Upon the Storm sem áætlað er að hefja tökur á næsta vor. Í nýju seríunni er bakgrunni stjórmálanna skipt út fyrir trúmál, en að sjálfsögðu er aðaláherslan á sterkar persónusögur. Það má því búast við bæði eldfimu og krassandi efni og óhætt að fara að láta sig hlakka til ársins 2017.

Margrét Örnólfsdóttir
Margrét Örnólfsdóttir
Margrét Örnólfsdóttir er handritshöfundur og formaður FLH, Félags leikskálda og handritshöfunda.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR