Svona löguðu Svíar kynjahallann í styrkjakerfinu án kynjakvóta

Anna Serner forstöðumaður Sænsku kvikmyndastofnunarinnar. /Mynd: Per Myrehed/SFI.se)
Anna Serner forstöðumaður Sænsku kvikmyndastofnunarinnar. /Mynd: Per Myrehed/SFI.se)

Anna Serner forstöðumaður Sænsku kvikmyndastofnunarinnar, sem er sambærilegt apparat við Kvikmyndamiðstöð Íslands, lýsir því í nýlegu viðtali hvernig hún lagaði kynjahallann í styrkjakerfinu með því að víkja frá kynjakvóta en leggja áherslu á ný viðhorf í meðferð umsókna.

Serner tók við í október 2011 og nú hafa Svíar náð jafnvægi í dreifingu styrkja milli kynja. Þegar hún hóf störf var i gildi plan um að dreifingin ætti að vera 40-60 körlum í hag.

 „Ég sagðist vera þeirrar skoðunar að 40-60 væri rugl. Þetta ætti að vera 50-50 yfir ákveðið tímabil. Eitt árið væri hlutfallið kannski 70-30 en þegar horft væri á tiltekið tímabil væri jafnvægi náð. Að tala um hlutina skiptir engu máli. Þú verður að framkvæma. Hvað sem þú gerir verður gagnrýnt, en þú verður bara að lifa með því.“

Serner lýsir síðan í framhaldinu hvernig áætlun hennar mætti mikilli mótspyrnu, sérstaklega margra karla.

„Ég segi við karlana sem finnst að ég ógni þeim að þetta muni líða hjá. Ég tel ekki að konur séu færari eða geri betri myndir. En okkur hefur skort raddir kvenna þannig að þessvegna virka þær ferskar og nýjar. Og þær eru einstakar vegna þess að þær hafa ekki birst okkur áður.“

En hvernig bar hún sig að? Serner lýsir því hér:

„Við eyrnamerktum ekki peninga. Við sögðum ekki við ráðgjafana að þau gætu ekki fjármagnað það sem þau vildu. Við sögðum aðeins að við tækjum þetta markmið alvarlega og hvöttum þau til að líta á umsóknir frá nýjum sjónarhóli. Í reyndinni höfum við veitt hærri upphæðir til kvenna vegna þess að þær virðast eiga í meiri erfiðleikum með að fá fé annarsstaðar frá vegna þess að fjárfestar treysta þeim ekki.“

Staðan talar sínu máli.

„2014 voru helmingur leikstjóra kvenkyns, 55% handritshöfunda kvenkyns og 65% framleiðenda kvenkyns. Við viljum horfa á fimm ár í senn, en á síðustu þremur voru 43% leikstjóra konur, 49% handritshöfundar og 53% framleiðendur.“

Sjá nánar hér: Swedish Film Institute Achieves 50-50 Funding Distributio | Women and Hollywood

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR