Menntamálaráðherra segir tillögu Baltasars skynsamlega

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. (Mynd: RÚV)
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. (Mynd: RÚV)

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra tekur vel í hugmyndir Baltasars Kormáks um að öll aukning á framlögum til kvikmyndasjóðs færi til kvenna.„Það er ljóst að það gengur ekki að helmingur þjóðarinnar, sem eru konur, eigi sér ekki sína rödd í kvikmyndum, öflugasta miðli nútímans. Það er ekkert bara vandamál kvikmyndagerðarmanna, heldur samfélagsins alls,“ segir Illugi Gunnarsson við Fréttablaðið.

Í frétt Fréttablaðsins segir:

Baltasar Kormákur lagði fram hugmynd í föstudagsviðtali Fréttablaðsins um hvernig ætti að auka hlut kvenna í kvikmyndagerð. Framlög til kvikmyndasjóðs yrðu aukin, potturinn stækkaður og allt umfram það sem þegar er færi til kvenna í kvikmyndagerð.

„Baltasar er að leggja til tímabundinn kynjakvóta og horfa til þeirrar aukningar sem væri möguleg á sjóðinn. Þetta er hugmynd sem ég er tilbúinn að skoða alvarlega,“ heldur Illugi áfram. Hann segir þurfa að huga að útfærslum. Almennt sé hann ekki hrifinn af kynjakvótum.

„Það eitt og sér að bæta við fjármagni er ekki nóg. Það skiptir máli að fyrirtækin sem starfa í greininni nýti sér þá fjármuni og ýti áfram konum, opni fyrir þær tækifærin. Það er ekki bara ríkið sem getur gert það, en við getum sannarlega hvatt til þess.“

Illugi segir tillögu Baltasars skynsamlega og rökin sannfærandi. „Við erum að missa af hæfileikaríkum konum. Ef við látum þetta standa óáreitt þá breytist ekkert. Þetta er óæskileg staða, eins og hún er í dag.“ Hann segir það vissulega skipta máli að maður með bakgrunn eins og Baltasar stígi fram með slíka hugmynd. „Það hefur auðvitað mikið að segja, þegar menn hafa náð árangri eins og Balti þá hefur hann tækifæri til að hafa mótandi og jákvæð áhrif á þessu sviði. Ég er sannarlega ánægður með að heyra þennan tón. Þetta skiptir máli.“

En þarf þá karlmenn til þess að hvetja konur til þess að búa til kvikmyndir?

„Nei. Það á ekki að skipta máli hvort það er karl eða kona því þetta varðar okkur öll. Þetta er jafn mikið hagsmunamál karla og kvenna, jafnrétti. Hvort sem er í menningu, listum eða efnahagslífinu. Við þurfum á öllum að halda, öllum sjónarmiðunum og ólíku þáttunum. Ef við nýtum það ekki erum við öll að tapa. Ég tek jákvætt í þetta, ég tek undir. Ég er algjörlega, heils hugar sammála forsendunum sem þarna eru gefnar. Ég held að þetta séu orð í tíma töluð.“

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR