Jón Gnarr ráðinn dagskrárstjóri 365

Jón Gnarr hefur verið ráðinn ritstjóri innlendrar dagskrár hjá 365. Hann hefur þegar hafið störf.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 segir í tilkynningu frá fyrirtækinu:

„Við gætum ekki verið ánægðari með þessa ráðningu og vitum að Jón Gnarr mun reynast okkur mikill happafengur. Handbragð Jóns mun sjást í öllum okkar miðlum strax í haust. Ég er sannfærður um að viðskiptavinir okkar og landsmenn allir eiga eftir að njóta þessa í dagskránni okkar. Við hlökkum til að starfa með jafn skapandi og skemmtilegum manni og Jóni Gnarr.“

Í sömu tilkynningu segir Jón Gnarr:

„Ég er spenntur fyrir að takast á við þetta áhugaverða og krefjandi starf og takast á við þessa áskorun. Íslensk dagskrárgerð hefur verið ástríða mín alla tíð. Flest það sem ég hef gert í þeim efnum hef ég gert á miðlum 365; Stöð 2, X-inu og Fréttablaðinu. 365 er að mínu mati einn mest spennandi vinnustaður á Íslandi í dag. Ég þakka stjórnendum traustið og hlakka til að fá að leggja mín lóð á vogarskálarnar með því að móta vandaða innlenda dagskrárgerð til framtíðar með skemmtilegu samstarfsfólki.”

Jón er í viðtali við DV þar sem eftirfarandi kemur meðal annars fram:

„Jú, það má eiga von á góðu efni. Maður er að koma hingað til að reyna að gera betra alls konar. Ég er ritstjóri innlendrar dagskrár og þvert á alla miðla, þannig að þá bara skipti ég mér svolítið af eins og þurfa þykir hverju sinni. Svo getur vel verið að ég verði misjafnlega mikið í mismunandi deildum eftir eðli og aðstæðum,“ segir Jón Gnarr um nýtt starf sitt á 365 miðlum.

Aðspurður segir Jón að starf hans sé með snertingu við fréttir. Þá vaknar sú spurning hvort hætta sé á að hans pólitíski ferill hafi áhrif á fréttir.

„Ég myndi ætla að hann hefði ekki bein áhrif en svo veit maður aldrei. En maður veit ekki alltaf hvernig maður bregst við.“

Ertu með einhver sérstök áform núna varðandi dagskrá og þess háttar?

„Nei. Ég vil vinna að vandaðri, innlendri dagskrá sem er upplýsandi og skemmtileg. Að þetta tvennt, upplýsandi og skemmtilegt, fari saman. Mér finnst sama í hvaða miðli það er eða hvaða tegundum samskipta. Þannig að ég mun vinna að því. En ég er ekki með nein einstök mál á borðinu núna.“

En svo ég bara ítreki þessa spurningu með pólitíkina. Heldur þú að þín pólitík hafi áhrif á dagskrána eða fréttirnar?

„Ég held ekki. En ég var náttúrulega byrjaður áður að skrifa þætti sem heita Borgarstjórinn og verða sýndir á Stöð 2 og eru um mann sem er borgarstjóri í Reykjavík. Það er svolítil pólitík. Síðan er ég mikið þekktur fyrir það að hafa verið borgarstjóri í Reykjavík. Síðan skrifa ég reglulega pistla sem eru frekar pólitískir. Margir vilja fá álit á þessu en mitt svar er að ég held að þetta hafi ekki áhrif. Ég er ekki mjög upptekinn af þessu. Mér finnst bara gaman að gera eitthvað á meðan það er en svo er ég fljótur að breyta til.“

Sjá frétt Vísis hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR