Tómas Lemarquis í „X-Men: Apocalypse“

Tómas Lemarquis leikur Caliban í nýjustu X-Men myndinni, X Men: Apocalypse. Tökum hans lauk fyrir nokkrum vikum en myndin kemur út á næsta ári. Jennifer Lawrence, Michael Fassbender, Olivia Munn og James McAvoy fara með helstu hlutverkin í myndinni en leikstjóri er Bryan Singer.

DV fjallar um málið og spjallar við Tómas:

„Ég er búinn í tökunum en þær fóru fram í Montreal í Kanada. Það var ótrúleg lífsreynsla að taka þátt í þessu stóra verkefni með Bryan Singer.“ segir Tómas Lemarquis sem leika mun í stórmyndinni X-Men: Apocalypse. Hann tiltekur sérstaklega risastórar þrívíddarmyndavélar sem voru notaðar á tökustað. Blaðamaður er eðlilega mjög spenntur fyrir því að fá að vita meira en það er ekki hægt. „Ég má því miður ekkert tjá mig um verkefnið né gefa neitt til kynna um hversu stórt hlutverkið er,“ segir Tómas.

En hvernig kom þetta verkefni til?

„Þetta verkefni kom í gegnum umboðsmann minn í Los Angeles. Framleiðendur höfðu séð aðrar kvikmyndir sem ég hef leikið í en svo sendi ég svokallað „self-tape“ og var ráðinn út frá því,“ segir Tómas.

DV fjallar einnig stuttlega um persónuna Caliban:

Samkvæmt vef Internet Movie Database leikur Tómas karakterinn Caliban, sem er stökkbreyttur albinói. Sé miðað við lýsingar aðdáenda á netinu þá er Caliban harmrænn og dapur karakter sem er iðulega sköllóttur, horaður og íklæddur brúnum lörfum. Hæfileikar hans felast í því að hann er eins og radar á aðra stökkbreyta einstaklinga auk þess sem hann getur dregið í sig ótta frá einstaklingum í návíst hans og umbreytt óttanum þannig að líkamlegur styrkur hans eykst. Sumar heimildir herma einnig að hann sé með taugaeitur í hvössum nöglunum. Hann er hluti af „The Morlocks“ sem er hópur heimilslausra jaðarsettra stökkbreytta sem hafast við í holræsum.

Sjá nánar hér: Tómas Lemarquis leikur í X-Men – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR