„París norðursins“ ágætlega tekið í Danmörku

Björn Thors í París norðursins.
Björn Thors í París norðursins.

París norðursins, kvikmynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar sem frumsýnd var í fyrra, er nú til sýnis í 11 kvikmyndahúsum í Danmörku. Hér eru brot úr umsögnum nokkurra danskra fjölmiðla um myndina.

Bo Hansen hjá hinu kunna kvikmyndatímariti Ekko segir meðal annars í umsögn um myndina:

„Leikstjóranum Hafsteini Gunnari Sigurðssyni, tekst að komast nálægt aðalpersónu sinni. Við erum með Huga og göngum í gegnum hans reynslu. En stundum sýnir myndavélin okkur persónurnar að ofan, úr íronískri fjarlægð.

Og þannig sé ég myndina: eina stundina erum við inní þjáðum huga aðalpersónunnar en aðra stöndum við á fjallinu Þorfinni og lítum niður á þetta geggjaða fólk sem hleypur um og þræðir sig inn og út úr lífi hvers annars.“

Louise Kidde Sauntved hjá Berlingske Tidende segir:

„París norðursins er hljóðlát kómedía með þurrum húmor og meira hugleiðing en fjör.’

Henrik Queitsch hjá Ekstra bladet segir:

„Myndin sýnir vel samspilið milli hinna einangruðu húsa og stórbrotins landslagsins og hin hæga frásögn af aðalpersónunum er nokkuð hrífandi.“

Per Juul Carlsen hjá Filmland, kvikmyndaþætti DR, segir:

„Það hefði verið gott að hrista svolítið upp í Huga (aðalpersónunni). Meira frumkvæði frá persónum hefði getað sett meiri kraft í frásögnina sem fljótlega hættir að varpa fram nýjum hugmyndum.“

Søren Vinterberg hjá Politiken segir:

„Fjallið sem gnæfir yfir öllu heitir Þorfinnur og það talar jafn skýrt til manns og hinar fámæltu aðalpersónur í þessu afar hægláta drama.“

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR