DV um „Hrúta“: Lömbin fagna

Hrútar Sigurður Sigurjónsson víttValur Gunnarsson fjallar um Hrúta Gríms Hákonarsonar í DV, gefur fimm stjörnur og leggur útaf hinni sögulegu vídd, allt aftur til Lands og sona: „Siggi Sigurjóns er kominn aftur í sveitina, en í stað þess að skjóta hross er hann hér að skjóta kindur með tárin í augunum. Þar var sagt frá bændum sem neyddust til að flykkjast á mölina í kreppunni, en hér segir frá þeim fáu eftirlegukindum sem enn hanga í sveitinni. Í millitíðinni hefur allt breyst, og ekkert.“

Valur segir ennfremur:

Það er kannski fyrst á þessum áratug að tækni og saga eru farin að vinna saman. Hross í oss og Hrútar hefðu hvorki getað gerst eða verið gerðar annars staðar, og það sama gildir reyndar um stórborgarsöguna Fúsa. Og kannski eins og íslensk popptónlist hefði fyrst þurft að stæla aðra áður en hún fann sinn eigin hljóm sem gat sigrað heiminn með Björk og öllum hinum, þá er nú röðin kominn að íslenskum kvikmyndum.

Hrútar varast hinar hefðbundnu gryfjur íslenskrar kvikmyndagerðar sem felast í að ofkeyra dramatíkina eða ofútskýra hlutina. Með því að spila á dýpri strengi verða til kostuleg atriði á borð við lögfræðinginn sem fær ekkert kaffi án þess að vera boðið eða biðja um, en áhorfendur hlæja samt. Hrútar talar annars sínu máli sjálf og óþarfi er að þylja upp hinar mörgu góðu senur, þó að sérstaklega megi nefna jólaveislu bóndans. Og líklega verður nógu lofi hlaðið annars staðar á lágstemmdan en um leið tjáningarfullan leik Sigurðar eða þá leikstjórn Gríms, og eru þeir vel að því komnir.

Og áfram heldur Valur:

Ástarsaga úr fjöllunum

Ást milli karls og konu er „so ’90s.“ Disney-myndin Frozen, ein vinsælasta mynd síðasta árs, fjallaði ekki um prins og prinsessu heldur tvær systur, og jafnvel í Mad Max verður enginn ástfanginn. Það sama á við um íslenskar kvikmyndir þessa dagana, í Fúsa segir frá sambandi sem verður að vináttu, í Hross í oss frá sambandi manna og hrossa, og voru þau ekki bara vinir í Vonarstræti líka?

Í Hrútum segir vissulega frá nokkurs konar ástarþríhyrning, annars vegar er um að ræða ástar- og haturssamband bræðranna tveggja og hins vegar samband hvors um sig við sauðféð sem öllu máli skiptir. Líkamlegur losti er aðeins til í réttunum. Og þó verður samband þeirra líkamlegt á sinn hátt áður en yfir lýkur, gott ef þeir skríða ekki aftur inn í móðurkviðinn og liggja naktir hlið við hlið eins og ófæddir tvíburar. Endar myndin því ekki á jarðarför eins og til stóð heldur öfugri fæðingu.

Sjá nánar hér: Lömbin fagna – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR