Tökum á íslensk/skosku kvikmyndinni „Pale Star“ lokið

Rammi úr Pale Star.
Rammi úr Pale Star.

Tökum á kvikmyndinni Pale Star með Þrúði Vilhjálmsdóttur og Þresti Leó Gunnarssyni í aðalhlutverkum er nú nýlokið en myndin sem er spennudrama í fullri lengd er í leikstjórn Graeme Maley. Einnig fara með íslensk hlutverk í myndinni þau Björn Thors og ung stúlka, Freyja Björk Guðmundsdóttir.

Pale Star er fjármögnuð af skoska kvikmyndasjóðnum auk bresks fjárfestingafyrirtækis og framleidd af íslenska framleiðslufyrirtækinu Vintage Pictures og Makar Productions í Skotlandi. Hún var kvikmynduð alfarið hérlendis af kvikmyndatökumanninum Arnari Þórissyni.

Þrúður fer með hlutverk Sólveigar, örvæntingarfullrar móður – sem undir álagi gerir óafturkræfa hluti og tekur upp frá því vafasamar ákvarðanir, með það fyrir augum að vernda unga dóttur sína.

Einnig fara með hlutverk í myndinni skosku leikararnir Isabelle Joss og Iain Robertson.

Handritshöfundurinn og leikstjórinn Graeme Maley segir myndina fjalla um konur fyrst og fremst, hugmyndin hafi orðið til á Íslandi og hjarta hennar slái í íslenskum takti en þó séu sannarlega á henni skoskir og evrópskir snertifletir.

Sólveig þarf að takast á við afleiðingar ákvarðana sem hún tekur undir miklu álagi með skerta dómgreind, en raunveruleikinn gefur engann afslátt. Hvatvísi, óbeislaðar tilfinningar og bjöguð skynjun eru mikilvægir þættir í myndinni sem er í senn spennandi og óhugnanleg – en á sama tíma er hún íslenskt ljóð, segir Maley.

Þess má geta að Maley vinnur einnig að annarri kvikmynd í fullri lengd með Vintage Pictures, Reykjavik Porno. Eftirvinnslu á þeirri mynd hefur verið frestað meðan unnið er að Pale Star sem verður sýnd í haust en Reykjavik Porno á næsta ári.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR