Varðveisla kvikmynda í ólestri

Frá vinstri: Tökumennirnir Karl Óskarsson, Víðir Sigurðsson, Ari Kristinsson, Sigurður Sverrir Pálsson, G. Magni Ágústsson (formaður ÍKS) og Ágúst Jakobsson í Bíó Paradís miðvikudagskvöldið 25. febrúar 2015.
Frá vinstri: Tökumennirnir Karl Óskarsson, Víðir Sigurðsson, Ari Kristinsson, Sigurður Sverrir Pálsson, G. Magni Ágústsson (formaður ÍKS) og Ágúst Jakobsson í Bíó Paradís miðvikudagskvöldið 25. febrúar 2015, en þá var Sigurður Sverrir sæmdur heiðursverðlaunum Félags íslenskra kvikmyndatökustjóra (ÍKS).

Á kvikmyndahátíðinni Stockfish, sem fram fór í febrúar, var Sigurður Sverrir Pálsson sæmdur heiðursverðlaunum ÍKS, fyrir starf sitt sem kvikmyndatökustjóri. Honum til heiðurs átti að sýna 3 kvikmyndir frá ferlinum, en þegar til átti að taka, reyndist það erfiðleikum háð.

Sigurður Sverrir óskaði eftir að sýndar yrðu Tár úr steiniBenjamín dúfa og Land og synir. Það kom hins vegar í ljós að ekkert nothæft sýningareintak var til af Benjamín dúfu og nokkur vafi lék á um Land og syni. Hann stakk þá upp á Sódómu Reykjavík og heimildarmyndinni Íslands þúsund ár, en aftur fékkst sama svar frá hátíðinni: ekki í sýningarhæfu ástandi.

Ný stafræn sýningartækni (DCP) hefur leyst gömlu sýningarvélarnar af hólmi, þó svo að enn sé hægt að sýna gömlu filmurnar í einstaka bíóum – ennþá. En DCP (Digital Cinema Package) er því miður engin trygging fyrir gæðum.

Ástandið á þeim myndum, sem voru sýndar, var misjafnt og er áhyggjuefni:

Tár úr steini var sýnd af filmu. Um var að ræða gamalt og skaddað eintak, sem verður aldrei endurnýjað, sýnt af sýningarvél, sem tæplega á langt líf fyrir höndum. Það er ekki til stafræn útgáfa af þessari mynd, þannig að sýningar á myndinni í fullum gæðum eru ekki mögulegar í augnablikinu.

Land og synir var sýnd af DCP. Gallinn var bara sá að DCP útgáfan hafði verið vitlaust gerð að öllu leyti, þannig að myndgæðin voru skelfileg. Í fyrsta lagi hafði myndin verið skönnuð vitlaust, í öðru lagi var skorið ofan og neðan af myndrammanum, sem eyðilagði myndbygginguna, og í þriðja lagi hafði myndin verið litgreind, án nokkurs samráðs við kvikmyndatökustjórann.

Eða eins og Sverrir sagði sjálfur:

„Í heildina er þessi núverandi DCP af Landi og sonum mér og öðrum aðstandendum myndarinnar til skammar. Það var eftir þessa sýningu, sem ég var heiðraður, en sýningin gaf mér ekki mikla ástæðu til að vera stoltur.“

Kaldaljós var einnig sýnd af DCP. Hér var um að ræða eintak, sem a.m.k. hafði verið skannað í HD upplausn og myndinni haldið í réttum ramma, þ.e. cinemascope. En því miður vantaði tvennt: Litgreiningin var gerð án samráðs við kvikmyndatökustjórann (og leikstjórann), og efnið sem var skannað var ekki frumefnið, sem hefði gefið betri mynd.

Þeir DVD- diskar, sem eru á markaðnum af þessum myndum eru allir vitlaust gerðir og án nokkurs samráðs við myndhöfundinn, kvikmyndatökustjórann. Þetta er ekki bara brot á höfundarrétti, heldur sýnir algera lítilsvirðingu gagnvart starfi kvikmyndatökustjórans.

Engum dytti í hug að henda Kjarvalsmálverki inn í ruslageymslu, og týna því, einungis vegna þess að ótal póstkort hafi verið prentuð af verkinu. Þetta starf er ekki bara tæknilegt, kvikmyndatökustjórinn sér um að skapa þá stemmingu, sem er í myndinni, með lýsingu, myndskurði og hreyfingum. Við gerð nýrra eintaka, sem byggja á nýrri tækni, er bráðnauðsynlegt að kvikmyndatökustjórinn sé hluti af þeirri vinnu, þannig að hann geti endurskapað eða jafnvel bætt stemminguna í stafrænu útgáfunni.

Hér þarf að gera skipulagt átak og Félag íslenskra kvikmyndatökustjóra vill brýna fyrir þeim, sem hér eiga hlut að máli, hvort sem það eru framleiðendur, Kvikmyndamiðstöð, Kvikmyndasafnið eða aðrir, að hafa eftirfarandi atriði í huga við endurnýjun kvikmyndaarfsins:

Til að fá sem best myndgæði þarf að tryggja að:

  1. besta frumefnið sé skannað, sem í flestum tilfellum er frum-negatífið,
  2. efnið sé skannað í fullri HD-upplausn, í besta viðeigandi formati,
  3. hreinsun á negatífinu, viðgerð á skemmdum og kornum rýri ekki myndgæðin í heild,
  4. myndhlutfallinu verði ekki breytt, – t.d. úr 1:66 í 1:85. Ef myndhlutfallinu er breytt, má alls ekki gera það án samráðs við kvikmyndatökustjórann,
  5. litgreiningin verði aldrei gerð án samráðs við kvikmyndatökustjórann.
  6. til þess að tryggja það, að þetta sé gert rétt, er nauðsynlegt að einhver einn aðili, sem hefur sérþekkingu á þessu sviði, hafi tæknilega yfirumsjón með þessu ferli.

Allt það efni, sem hefur verið tekið á filmu, bæði bíómyndir og heimildarmyndir, eru að mörgu leyti í meiri myndgæðum en stafræn tækni skilar. Ef þetta myndefni fær þá alúð og nærgætni sem þarf, til að búa til góðan stafrænan master, þá getur þetta efni orðið betra og fallegra en það hefur nokkru sinni verið fyrr.

Þjóðin á það skilið að geta í framtíðinni séð og sýnt umheiminum þennan kvikmyndaarf okkar í bestu hugsanlegu gæðum. Aðeins þannig getum við verið stolt af því sem við sýnum.

F.h. félags íslenskra kvikmyndatökustjóra,

Bergsteinn Björgúlfsson, ÍKS

Forseti

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR