RIFF 2015 auglýsir eftir myndum

RIFFRIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hefur opnað fyrir innsendingu mynda á komandi hátíð, sem verður sú 12. í röðinni, og fer fram dagana 24. september til 4. október. Auglýst er eftir íslenskum sem og alþjóðlegum kvikmyndum í fullri lengd og stuttmyndum til að frumsýna á RIFF.
Í fréttatilkynningu frá RIFF segir:
RIFF hvetur kvikmyndagerðarmenn til þess að sækja um fyrr en síðar vegna mikils fjölda innsendra mynda síðastliðin ár og hvetur íslenska kvikmyndagerðarmenn til þátttöku. Íslenskar kvikmyndir og stuttmyndir eru sýndar í flokkinum Ísland í brennidepli (e. Icelandic Panorama).
RIFF leggur sérstaka áherslu á íslenska stuttmyndaflokkinn og vill styðja efnilega leikstjóra og framsækna kvikmyndagerð. Undanfarin ár hefur RIFF stuðlað að kynningu á stuttmyndadagskrá sinni á erlendum hátíðum. Í síðasta mánuði voru nokkrar íslenskar stuttmyndir, sem voru sýndar á RIFF 2014, sýndar á íslensku menningarhátíðinni Air d’Islande í París. Sýningarstaður var Cinematheque Francaise, ein elsta og þekktasta kvikmyndastofnun heims en hún var stofnuð árið 1936.
Íslenskar stuttmyndir keppa um verðlaunin Besta íslenska stuttmyndin á RIFF og hlýtur sigurvegarinn vegleg verðlaun úr minningarsjóði Thors Vilhjálmssonar. Verðlaunin féllu í skaut Hlyns Pálmasonar, fyrir stuttmyndina Málarann, í fyrra og árið 2013 hlaut Guðmundur Arnar Guðmundsson verðlaunin fyrir Hvalfjörð. Skilafrestur mynda er til 15. júlí og eru allar frekari upplýsingar að finna á nýjum vef RIFF.
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR