„Austur“, kvikmynd Jóns Atla Jónassonar, væntanleg 17. apríl

Rammi úr Austur eftir Jón Atla Jónasson.
Rammi úr Austur eftir Jón Atla Jónasson.

Kvikmyndin Austur eftir Jón Atla Jónasson er væntanleg í kvikmyndahús þann 17. apríl næstkomandi. Þetta er fyrsta bíómynd Jóns Atla sem kunnur er fyrir handritsskrif.

Myndin er innblásin af sannsögulegum atburðum úr íslenskum undirheimum. Ungur maður á einnar nætur gaman með fyrrum unnustu og barnsmóður ofbeldisfulls glæpamanns sem er í mikilli neyslu. Hann er tekinn í gíslingu af gengi glæpamannsins með það fyrir augum að kúga út úr honum fé.  Þegar þau áform verða að engu þá skapast atburðarás þar sem líf unga mannsins er í stórhættu. Ungi maðurinn er orðin gísl gengisins sem bregður á það ráð að fara austur fyrir fjall í þeim erindagjörðum að losa sig við hann. Þegar þangað er komið banka þeir upp á hjá gömlum félaga glæpamannsins sem er að reyna að snúa við blaðinu og ná lífi sínu á réttan kjöl.

Með helstu hlutverk í myndinni, sem tekin var upp á síðasta ári, fara Arnar Dan Kristjánsson, Björn Stefánsson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Ólafur Darri Ólafsson  og Vigfús Þormar Gunnarsson.

Leikstjóri og handritshöfundur er Jón Atli Jónasson sem hefur starfað um árabil sem leikskáld og handritshöfundur og skrifaði meðal annars handritið að Djúpinu ásamt Baltasar Kormáki. Þetta er fyrsta kvikmyndin sem hann leikstýrir. Um kvikmyndatöku sér Aske Alexander Foss, Hákon Már Oddsson klippir og Urður Hákonardóttir semur tónlistina.

Myndin verður frumsýnd í Smárabíói og Háskólabíói þann sautjánda apríl næstkomandi.

Leiðrétting 14.4.2015: Í fréttinni sagði upphaflega að myndin kæmi út 10. apríl. Frumsýningardagur var færður fram um viku og hefur texti fréttarinnar verið leiðréttur til samræmis við það.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR