Minning | Albert Maysles 1926-2015

Albert Maysles á Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda 2008. Ljósmynd: Ásgrímur Sverrisson.
Albert Maysles á Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda 2008. Ljósmynd: Ásgrímur Sverrisson.

Albert Maysles, hinn heimskunni höfundur (ásamt bróður sínum David) heimildamynda á borð við Gimme Shelter, Grey Gardens og Salesman, er látinn 88 ára að aldri. Maysles kom til Íslands 2008 sem heiðursgestur Skjaldborgarhátíðarinnar.

Stund með Albert Maysles

Ég, ásamt hópi annarra íslenskra kvikmyndagerðarmanna, varð þeirrar ánægju aðnjótandi að eiga stund með Albert Maysles í kringum heimsókn hans hingað 2008. Hann var hinn elskulegasti á alla lund, ræðinn og opinn. Hann var enn að, kominn yfir áttrætt og með mörg járn í eldinum. Sérstaka athygli mína vakti hversu áhugasamur hann var um breytingarnar yfir í stafræna vinnslu kvikmynda, hann sagði það himnasendingu fyrir kvikmyndagerðarmenn, þar sem kostnaður væri miklu lægri og tæki öll margfalt meðfærilegri.

Meðal annars sagði hann okkur frá verkefni í vinnslu sem gekk útá fólk sem ferðast með langferðalest þvert yfir Bandaríkin. Myndin verður frumsýnd á væntanlegri Tribeca hátíð innan skamms og kallast In Transit. Fræðast má um verkefnið hér (önnur mynd, Iris, um hina 93ja ára gömlu tískudrottningu Iris Apfel, er einnig tilbúin til sýninga).

Hann sagði okkur einnig frá því að í bígerð væri Hollywood mynd sem byggð væri á einni frægustu mynd hans, Grey Gardens, með þeim Jessicu Lange og Drew Barrymore í aðalhlutverkum. Honum skildist að þeir bræður myndu koma eitthvað við sögu í myndinni og velti fyrir sér hver myndi leika sig! (Myndin kom út á vegum HBO 2009, Arye Gross lék Albert, Drew Barrymore hlaut Golden Globe verðlaun fyrir leik sinn í myndinni).

Brautryðjandi nýrrar nálgunar

Maysles bræður (Albert og David sem lést 1987) voru, ásamt nokkrum öðrum, forvígismenn Direct Cinema stefnunnar í Bandaríkjunum, sem í Evrópu var kölluð Cinema Vérité. Stefna þessi varð tæknilega möguleg vegna léttari og meðfærilegri tóla sem komu til sögunnar á seinni hluta sjötta áratugs síðustu aldar, en hún gengur í stuttu máli útá það að fylgjast með viðfangsefninu í umhverfi sínu og forðast bein viðtöl, þuli og sviðsetningu. Stefnan er stundum köllið „fluga á vegg kvikmyndagerð“ en Maysles var ósáttur við þá skilgreiningu, fyrir honum snerist þetta um að tengjast viðfangsefninu og bregðast við því með eðlilegum mannlegum samskiptum sem byggjast á trausti. Í spjalli við Björn Ægi Norðfjörð kvikmyndafræðing á Skjaldborgarhátíðinni sagði Maysles „flugu á vegg myndir“ fela í sér tengslaleysi þar sem myndavélinni væri aðeins stillt upp án einhverskonar tengingar við viðfangsefnið og því alveg undir hælinn lagt hvort fram kæmi það sem máli skipti.

Þrjár helstu myndir Maysles

Ferill Maysles bræðra spannar hátt í sextíu ár og meðal viðfangsefna þeirra voru fólk á borð við Dalai Lama, John F. Kennedy, Marlon Brando, Muhammad Ali, Salvador Dalí, Fidel Castro, Truman Capote og Bítlarnir. Af öllum þeim fjölda mynda sem þeir Maysles bræður gerðu standa þrjár uppúr að hinum ólöstuðum; Gimme Shelter frá 1970, Salesman frá 1968 og Grey Gardens frá 1976.

Gimme Shelter er ein frægasta heimildamynd tuttugustu aldarinnar. Myndin er um tónleikaferð Rolling Stones um Bandaríkin sumarið 1969 sem náði dramatískum hápunkti með tónleikum í Altamont við San Fransisco. Óeirðir brutust út á tónleikunum og leikar fóru svo að einn tónleikagesta var myrtur af meðlimi Hells Angels sem ráðnir höfðu verið sem öryggisverðir. Atvikið var fest á filmu og birtist í myndinni. Gimme Shelter er mögnuð frásögn með þéttum stíganda og tragískum lokakafla. Í gegnum myndina birtast Stónsarar við klippiborðið þar sem þeir skoða efnið, hljóðir og hnípnir, áhrifamikið stöff. Þá er og afbragðs kafli í myndinni þar sem piltarnir sitja í stúdíói og hlusta á upptöku af Wild Horses sem þeir höfðu nýlokið við.

Salesman er myndin sem kom þeim bræðrum á kortið á sjöunda áratugnum. Hún er um fjóra Ameríkana af írskum ættum sem ganga hús úr húsi og selja biblíuna og hefur verið kölluð einskonar brú milli leikrits Arthur Miller Sölumaður deyr og leikrits/kvikmyndar David Mamet Glengarry Glen Ross. Maysles hefur talað um að markmiðið með myndinni hefði verið að kynnast Írunum sem þeir bræður þurtu stöðugt að verjast á uppvaxtarárum sínum í Boston. „Anti-semítísmi var mjög áberandi í Boston þegar við vorum strákar. Varla leið dagur án þess að einhver írskur strákur kæmi upp að okkur og vildi slagsmál. Myndin var aðferð til að kynnast þessu fólki á jákvæðari hátt, veita því eftirtekt. Við komumst að því að yfir 4000 menn stunduðu þessa sölumennsku á biblíunni á þessum tíma og okkur fannst afar áhugavert að þeir væru að selja þetta sem hverja aðra vöru frekar en sem heilagt orð.“

Fyrrnefnd Grey Gardens er sú mynd þeirra bræðra sem borið hefur hróður þeirra víðast og var mikil sensasjón þegar hún kom út um miðjan áttunda áratuginn. Hún segir af mæðgunum Edith Bouvier Beale og dóttur hennar Edie, frænkum Jacqueline Kennedy Onassis fyrrum forsetafrúar. Mæðgurnar búa í niðurníddu húsi í East Hampton sem eitt sinn var afar glæsilegt. Þær eru af afar fínum ættum en lifa í einangrun frá umheiminum. Dótturinnar beið glæstur ferill í leikhúsheiminum, hún setti hann á ís tímabundið til að sinna móður sinni en átti aldrei þaðan afturkvæmt.

Í viðtali við The New York Times 2005 sagði Maysles, aðspurður um lykilinn að velgengi sinni að málið snerist um að fylgja sannfæringu sinni alla leið. Hann sagði einnig í öðru viðtali við tímaritið Interview:

„Eitt af því sem gerir mér auðveldara fyrir er að mér þykir sannarlega vænt um fólk og þannig á ég ekki í erfiðleikum með að komast að því og viðhalda tengslum við það.“

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR