Hvað er með þessa Eddustyttu?

Örlítið um verðlaunagripinn, afhverju hann lítur svona út og listamanninn sem bjó hann til.

„Eddustyttan er holdgervingur íslenskrar kvikmyndagerðar; fólk í tómu basli, bundið á hæl og hnakka að reyna að passa að allt fari ekki til spillis.“

Segir Dagur Kári, margfaldur Edduverðlaunahafi, á Fésbók og má til sanns vegar færa.

Og Óskar Jónasson, sem einnig hefur fengið verðlaunin nokkrum sinnum, sagði þegar hann tók við verðlaununum á fyrstu Edduhátíðinni 1999:

„Þetta er æðislegt. Verst hvað þetta er dónaleg stytta.“

Frá Skáldskaparmálum með viðkomu í Gunnlaðar sögu

Þegar við vorum að undirbúa fyrstu verðlaunahátíðina 1999 kom ég með þá hugmynd að verðlaunin skyldu kallast Edda, með vísun í sagnaarfinn og samhengi hans og þess starfs sem unnið er í kvikmyndum og sjónvarpi nútímans. Jafnframt sá ég fyrir mér að svipmót verðlaunagripsins yrði sótt í frásögn Skáldskaparmála Snorra-Eddu um samskipti jötnadótturinnar Gunnlaðar og Óðins.

Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu segir frá því þegar Óðinn komst yfir skáldskaparmjöðinn. Steypti hann sér í ormslíki og skreið gegnum göng inní Hnitbjörg, heimili Suttungs jötuns og dóttur hans Gunnlaðar. Suttungur hafði sett Gunnlöðu að gæta skáldskaparmjaðarins sem geymdur var í katli og tveimur kerjum, Óðreri, Són og Boðn. Fór Óðinn til Gunnlaðar og lagðist hjá henni í þrjá daga uns hún leyfði honum að bergja af miðinum. Svelgdi hann í sig allt innihald allra ílátanna, tók sér arnarham og flaug á braut. Suttungur jötunn veitti honum eftirför, einnig í arnarhami. þegar Óðinn sá að Suttungur var að draga á hann, spýtti hann útúr sér hluta mjaðarins og lenti hann á víð og dreif. Hafði þar hver sem vildi og kallast þeir skáldfífl sem af drukku. Afgangnum náði Óðinn að koma í Ásgarð og gaf síðan þeim sem yrkja kunnu.

Verkið sýnir semsagt þau Óðinn og Gunnlöðu takast á og heldur Gunnlöð á einu kerjanna sem skáldskaparmjöðurinn var geymdur í.

Eddulogo

Hugmyndina fékk ég frá hinni frábæru bók Svövu Jakobsdóttur, Gunnlaðar sögu, sem ég hafði lesið þegar hún kom út 1987 og orðið fyrir sterkri upplifun.

Bókin segir frá íslenskri konu sem kölluð er til Kaupmannahafnar þegar Dís, dóttir hennar, er handtekin fyrir að stela dýrmætu keri úr forngripasafni Kaupmannahafnar. Móðirin kemur til að hjálpa dóttur sinni, en dóttirin stendur fast á því að hún hafi ekki stolið kerinu, heldur verið að endurheimta það fyrir Gunnlöðu, sem Óðinn átti að hafa stolið skáldskaparmiðinum frá. Þessi undarlega hegðun dótturinnar leiðir móðurina í heilmikla sjálfsskoðun auk þess sem hún kynnir sér betur hver þessi Gunnlöð eiginlega var. Eftir því sem hún heyrir meira af frásögn Dísar því sterkar virkar hún á móðurina, skilin milli raunveruleika og goðsagnarinnar verða ógreinilegri og lesendur fylgjast með Gunnlöðu undirbúa það að taka á sig allar skyldur hofgyðju og vígja nýjan konung, Óðinn, í embætti.

Svava leggur út af gömlu goðsögninni með nýstárlegum hætti, gerir t.d. Gunnlöðu að einskonar gyðju og túlkar samband þeirra Óðins á allt annan hátt en í Skáldskaparmálum. Allt um það, þetta var sterk og áhrifamikil frásögn sem á sínum tíma leiddi mig einmitt að frásögn Snorra-Eddu.

Svo segir frá í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu um skáldskaparmjöðinn og hvernig Óðinn komst yfir hann.

5. KAFLI: UPPHAF SUTTUNGAMJAÐAR.

Ok enn mælti Ægir: “Hvaðan af hefur hafist sú íþrótt, er þér kallið skáldskap?”

Bragi svarar: “Þat váru upphöf til þess, at goðin höfðu ósætt við þat fólk, er Vanir heita. En þeir lögðu með sér friðstefnu ok settu grið á þá lund, at þeir gengu hvárirtveggju til eins kers ok spýttu í hráka sínum. En at skilnaði þá tóku goðin ok vildi eigi láta týnast þat griðamark ok sköpuðu þar ór mann. Sá heitir Kvasir. Hann er svá vitr, at engi spyrr hann þeirra hluta, er eigi kann hann úrlausn.

Hann fór víða um heim at kenna mönnum fræði, ok þá er hann kom at heimboði til dverga nökkurra, Fjalars og Galars, þá kölluðu þeir hann með sér á einmæli ok drápu hann, létu renna blóð hans í tvau ker ok einn ketil, ok heitir sá Óðrerir, en kerin heita Són og Boðn. Þeir blendu hunangi við blóðit, ok varð þar af mjöðr sá, er hverr af drekkr, verðr skáld eða fræðamaðr. Dvergarnir sögðu ásum, at Kvasir hefði kafnað í mannviti, fyrir því at engi var þar svá fróðr, at spyrja kynni hann fróðleiks.

Þá buðu þessir dvergar til sín jötni heim, er Gillingr heitir, ok konu hans. þá buðu dvergarnir Gillingi at róa á sæ með sér. En þeir fóru fyrir land fram, reru dvergarnir á boða ok hvelfðu skipinu. Gillingr var ósyndr, ok týndist hann, en dvergarnir réttu skip sitt og reru til lands. þeir sögðu konu hans þenna atburð, en hon kunni illa ok grét hátt. þá spurði Fjalarr hana, ef henni myndi hugléttara, ef hon sæi út á sæinn, þar er hann hafði týnst, en hon vildi þat. þá mælti hann við Galar, bróður sinn, at hann skal fara upp yfir dyrrnar, er hon gengi út, ok láta kvernstein falla í höfuð henni, ok talði sér leiðast óp hennar. Ok svá gerði hann.

Þá er þetta spurði Suttungr jötunn, sonr Gillings, ferr hann til ok tók dvergana ok flytr á sæ út ok setr þá í flæðarsker. Þeir biðja Suttung sér lífsgriða ok bjóða honum til sættar í föðurgjald mjöðinn dýra, ok þat verðr at sætt með þeim. Flytr Suttungr mjöðinn heim ok hirðir, þar sem heita Hnitbjörg, setr þar til gæslu dóttur sína, Gunnlöðu. Af þessu köllum vér skáldskap Kvasis blóð eða dvergadrekku eða fylli eða nökkurs konar lög Óðreris eða Boðnar eða Sónar eða farskost dverga, fyrir því at sá mjöðr flutti þeim fjörlausn ór skerinu, eða Suttungamjöð eða Hnitbjargalögr”.

Þá mælti Ægir: “Myrkt þykkir mér þat mælt at kalla skáldskap með þessum heitum. En hvernig kómust þér æsir at Suttungamiði?”

6. KAFLI: HVERSU ÓÐINN KOMST AT MIÐINUM

Bragi svarar: “Sjá saga er til þess, at Óðinn fór heiman ok kom þar, er þrælar níu slógu hey. Hann spyrr ef þeir vilji, at hann brýni ljá þeirra. þeir játa því. þá tekr hann hein af belti sér ok brýndi ljána, en þeim þótti bíta ljárnir miklu betr ok föluðu heinina, en hann mat svá, at sá, er kaupa vildi, skyldi gefa við hóf. En allir kváðust vilja ok báðu hann sér selja, en hann kastaði heininni í loft upp. En er allir vildu henda, þá skiptust þeir svá við, at hverr brá ljánum á háls öðrum.

Óðinn sótti til náttstaðar til jötuns þess er Baugi hét, bróðir Suttungs. Baugi kallaði illt fjárhald sitt ok sagði, at þrælar hans níu höfðu drepist, en talðist eigi vita sér ván verkmanna. En Óðinn nefndist fyrir honum Bölverkr. Hann bauð at taka upp níu manna verk fyrir Bauga, en mælti sér til kaups einn drykk af Suttungamiði. Baugi kvaðst einskins ráð eiga af miðinum, sagði, at Suttungr vildi einn hafa, en fara kveðst hann mundu með Bölverki, ok freista, ef þeir fengi mjöðinn.

Bölverkr vann um sumarit níu manna verk fyrir Bauga, en at vetri beiddi hann Bauga leigu sinnar. þá fara þeir báðir til Suttungs. Baugi segir Suttungi, bróður sínum, kaup þeirra Bölverks, en Suttungr synjar þverliga hvers dropa af miðinum. þá mælti Bölverkr til Bauga, at þeir skyldu freista véla nökkurra, ef þeir megi ná miðinum, en Baugi lætr þat vel vera. þá dregr Bölverkr fram nafar þann, er Rati heitir, ok mælti, at Baugi skal bora bjargit, ef nafarrinn bítr. Hann gerir svá. þá segir Baugi, at gegnum er borað bjargit, en Bölverkr blæss í nafarsraufina, ok hrjóta spænirnir upp í móti honum. þá fann han, at Baugi vildi svíkja hann, ok bað bora gegnum bjargit. Baugi boraði enn, en er Bölverkr blés annat sinn, þá fuku inn spænirnir. þá brást Bölverkr í ormslíki ok skreið inn í nafarsraufina, en Baugi stakk eftir honum nafrinum ok missti hans.

Fór Bölverkr þar til, sem Gunnlöð var, ok lá hjá henni þrjár nætr, ok þá lofaði hon honum at drekka af miðinum þrjá drykki. Í inum fyrsta drykk drakk hann allt ór Óðreri, en í öðrum ór Boðn, í inum þriðja órSón, ok hafði hann þá allan mjöðinn. þá brást hann í arnarham ok flaug sem ákafast.

En er Suttungr sá flug arnarins, tók hann sér arnarham ok flaug eftir honum. En er æsir sá, hvar Óðinn flaug, þá settu þeir út í garðinn ker sín, en er Óðinn kom inn of Ásgarð, þá spýtti hann upp miðinum í kerin, en honum var þá svá nær komit, at Suttungr myndi ná honum, at hann sendi aftr suman mjöðinn, ok var þess ekki gætt. Hafði þat hverr, er vildi, ok köllum vér þat skáldfífla hlut. En Suttungamjöð gaf Óðinn ásunum og þeim mönnum, er yrkja kunnu. því köllum vér skáldskapinn feng Óðins ok fund ok drykk hans ok gjöf hans ok drykk ásanna.”

Snorra-Edda. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Íslendingasagnaútgáfan, 1954

Magnús Tómasson myndlistarmaður ásamt Jóni Gnarr þáverandi borgarstjóra við verk Magnúsar "Minnisvarði óþekkta embættismannsins".
Magnús Tómasson myndlistarmaður ásamt Jóni Gnarr þáverandi borgarstjóra við verk Magnúsar „Minnismerki óþekkta embættismannsins“.

Magnús Tómasson myndlistarmaður, höfundur styttunnar

Við fengum hinn kunna myndlistarmann Magnús Tómasson til að gera styttuna, sem er um 40cm á hæð, steypt í brons.

Magnús er einn af kunnari myndlistarmönnum þjóðarinnar, fæddur í Reykjavík árið 1943. Hann lauk námi frá Konunglegu Akademíunni í Kaupmannahöfn árið 1969 og hefur haldið fjölda sýninga á verkum sínum allt frá 1962.

Magnús er einn af stofendum SÚM-hópsins á sjöunda áratugnum. þessi hópur, sem nú er orðinn að nokkurskonar goðsögn í íslensku listalífi, braut upp hið langa tímabil þar sem abstrakt-málverkið hafði ráðið ríkjum og kynnti þjóðinni í einu vetfangi ýmsar listastefnur samtímans eins og hugmyndalistina, fluxus, minimalisma og fleira.

Verk Magnúsar Tómassonar eru oft með frásagnarkenndum blæ, ýmist eru þau eins og lítil ljóð eða jafnvel stuttar frásagnir, full af svartri kímni, eða verk hans eru stór útiverk, unnin úr efnivið sjálfrar náttúrunnar, sem miðla til okkar ljóðrænni skynjun á umhverfinu og lífinu sjálfu.

Magnús hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir list sína og meðal kunnustu verka hans eru t.d. „Þotueggið“ við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og „Minnismerki óþekkta embættismannsins“ í miðbæ Reykjavíkur.

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR