Samferðamenn minnast Þorfinns Guðnasonar

Þorfinnur-Guðnason-multiÝmsir samstarfsmenn og félagar Þorfinns Guðnasonar hafa minnst hans í dag. Hér er sýnishorn:

Hrafnhildur Gunnarsdóttir: Toffi búin að tékka út. Hann var alltaf skrefinu á undan okkur hinum … ósköp lá þér á félagi…

Ari Eldjárn: Þorfinnur Guðnason er látinn, 55 ára að aldri. Fyrir 20 árum sá ég þetta innslag í Dagsljósi um hina gerð myndar hans „Hagamús – með lífið í lúkunum“ og varð heillaður af þessum karakter sem hafði eirð í sér til að sitja yfir litlum músum mánuðum saman og leikstýra þeim. Seinna átti frábær mynd hans um Lalla Johns eftir að gera mig enn forvitnari um manninn á bak við kameruna. Ég man enn lætin í áhorfendunum í sal 2 í Háskólabíói; ég hafði aldrei séð svona viðbrögð við íslenskri kvikmynd áður. Leiðir okkar lágu loks saman árið 2003 þegar ég fékk að sýna stuttmynd eftir sjálfan mig á undan heimildarmynd hans um Grand Rokk, á sérstakri sýningu á Grand Rokk. Reyndist hann vera algjört ljúfmenni, hógvært séní og alveg hrikalega fyndinn. Hann lýsti sér sem gömlum pönkara og var alveg laus við snobb. Tókst með okkur ágætis vinskapur næstu árin og þótti mér vænt um hvað hann var alltaf jákvæður og hvatti mig mikið til dáða þegar við hittumst. Við spjölluðum oftast saman um kvikmyndagerð en áhugasvið hans dekkaði nánast allt. Fyrst og fremst hafði hann þó brennandi ástríðu fyrir því að segja góðar sögur og skín hún í gegn í öllum myndunum hans. Þegar ég frétti í vetur að hann glímdi við illvígan sjúkdóm sló ég á þráðinn til hans. Tónninn var enn hinn sami og alltaf stutt í hláturinn þó auðvitað hvíldi alvaran yfir öllu. Í kjölfarið hittumst við svo stuttlega á aðfangadag til að skiptast á jólagjöfum og reyndist það vera okkar seinasti fundur. Hann gaf mér eintak af Hagamúsinni sem ég held núna á og virði fyrir mér. Það veitir mér örlitla huggun að vera með þennan fallega hluta af lífi hans í lúkunum.

Andri Snær Magnason: Góður drengur, mikill listamaður og samstarfsmaður er fallinn frá. Þorfinnur Guðnason, Toffi lést í gærmorgun eftir erfiða baráttu við krabbamein. Við unnum saman þegar við gerðum myndina um Draumalandið. Hann Þorfinnur var einstaklega ljúfur drengur og heill og einhvernveginn heiðskír. Það var gaman að kynnast honum, vinna með honum, liggja í sófanum í sveitinni með fjárhundinum og klippa, fara í réttir með honum á hestbaki og kynnast Biddý og baklandinu hans í sveitinni. Þorfinnur var einn af okkar fremstu kvikmyndagerðarmönnum og persóna hans skín í gegnum verkin, ræturnar voru í hagamúsinni og sveitinni á Vatnsleysu, baslið hans og breyskleiki skín gegnum Lalla Johns, næmni hans og ljóðræna í Hestasögu og broddurinn í Draumalandinu. Blessuð sé minning Þorfinns Guðnasonar. Hvíl í friði kæri vinur.

Davíð Þór Jónsson: Í morgun barst mér sú sorgarfrétt að Þorfinnur Guðnason, kvikmyndagerðarmaður, væri látinn. Ég sendi öllum vinum hans og aðstandendum samúðarkveðjur. Toffi var snillingur. Hann mun lifa áfram í verkum sínum.

Hulda Rós Guðnadóttir: Þorfinnur Guðnason er látinn aðeins 55 ára að aldri. Það eru sorglegar fréttir og votta ég ekkju hans og fjölskyldu samúð mína. Hann Toffi veitti mér mikilvægt tækifæri í lífinu og mun ég alltaf vera honum þakklát fyrir að trúa á mig. Hann var ástríðufullur maður og hafði alveg sérstakt talent í að skynja aðstæður þegar hann hélt á myndavél á tökustað heimildamynda. Það eru fáir sem hafa þennan talent og þau moment sem ég varð vitni af eru mér ógleymanleg. RIP Þorfinnur Guðnason.

Freyr Eyjólfsson: Sorgartíðindi. Þorfinnur Guðnason fallinn frá. Einn besti og mikilvægasti kvikmyndagerðarmaður okkar. Við erum rík að eiga myndir hans, sem eru merkilegar heimildir um Ísland, menningu okkar og náttúru. Toffi var nefnilega stórmerkilegur mannfræðingur og rannsakaði viðfangsefni sín af lífi og sál. Ég var svo heppin að eiga Toffa að vini og fá að starfa örlítið með honum. Hann var stórgáfaður, sískapandi, örlátur, lifandi og glaður maður. Ég lærði margt af Toffa og á honum margt að þakka. Ég votta öllum aðstandendum samúð mína.

Egill Helgason: Við Þorfinnur Guðnason – kallaður Toffi af vinum sínum – unnum saman á Ríkisútvarpinu í eina tíð. Það var einstaklega gaman að fara í fréttaferðir með honum, því Toffi hafði alltaf sína meiningar. Gat jafnvel kallast sérvitur. Það var hressandi í þessari vinnu sem oft var andlaus rútína.

Einhverjum árum seinna ræddum við um að gera mynd saman. Viðfangsefnið sem við töluðum um var séra Baldur í Vatnsfirði, klerkur sem þótti nokkuð einkennilegur í háttum. Ég sagði að við þyrftum kannski svona þrjá tökudaga.

Toffa fannst það alveg fáránlegt. Svona var ekki tímarammi hans í kvikmyndagerð. Það var frekar þrír mánuðir eða þrjú ár. Ég gantaðist með að hann hefði helst viljað grafa sig ofan í fjallshlíð fyrir ofan heimili prestsins og fylgjast með honum þaðan.

Toffi var semsagt til í að leggja margt á sig til að gera sínar frábæru myndir. Hann hann hafði stórar hugmyndir um viðfangsefni sem gátu virst agnarlítil – eins og hagamúsina.

Hann var oft blankur eins og títt er um kvikmyndagerðarmenn í þessu landi, líf hans var ekki alltaf þægilegt, en hann var heill og sannur maður.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR