„Fúsi“ selst vel í Berlín, frumsýning á Íslandi 20. mars

virginmountainAlþjóðleg sala á kvikmynd Dags Kára, Fúsi, sem frumsýnd var á yfirstandandi Berlínarhátíð, gengur vel. Franska sölufyrirtækið Bac Films hefur nú selt myndina til Imovision (Brasilíu), September Films (Benelux), Babilla Cine (Kólumbíu) og Europafilm (Noregi). Fyrir kvikmyndahátíðina í Berlín var hún einnig seld til Alamode (Þýskaland og Austurríki) og MCF Megacom (fyrrum Júgóslavía).

Fúsi segir frá titilpersónunni, sem er liðlega fertugur og býr einn með móður sinni. Líf hans er í afar föstum skorðum og lítið sem kemur á óvart.  Hann minnir á unga sem hefur komið sér þægilega fyrir í hreiðrinu og hefur enn ekki haft kjark til að hefja sig til flugs. Þegar ung stúlka og kona á hans reki koma óvænt inn í líf hans, fer allt úr  skorðum og hann þarf að takast á við ýmislegt í fyrsta sinn.

Myndin er framleidd af þeim Baltasar Kormáki og Agnesi Johansen fyrir framleiðslufyrirtækið Sögn. Með aðalhlutverk fara Gunnar Jónsson og Ilmur Kristjánsdóttir. Tónlist myndarinnar er samin af slowblow, hljómsveit sem samanstendur af Degi Kára og Orra Jónssyni. Meðframleiðslufyrirtæki er hið danska Nimbus Film (sjónvarpsþáttaröðin Broen og kvikmyndirnar Festen, Mifune‘s sidste sang og Submarino).

Fúsi verður frumsýnd hér á landi þann 20. mars næstkomandi í Smárabíói, Háskólabíói og Laugarásbíói.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR