Arnar Sigurðsson: „Ætli eina leiðin fram á við fyrir íslenska kvikmyndagerð sé ekki að hætta að vera íslensk kvikmyndagerð?“

Arnar Sigurðsson kvikmyndagerðarmaður hjá Klapp kvikmyndagerð og einn stofnenda Karolina Fund ræðir íslenska kvikmyndagerð við vefsíðuna moi.is og fer um víðan völl á gagnrýnan máta.

Arnar segir stóra fiska í lítilli tjörn vera okkar sérkenni og segist ekki viss um að íslensk kvikmyndagerð sé til sem aðferð, stíll eða sena.

Aðspurður um hvort gróska ríki í íslenskri kvikmyndagerð eða hvort tími sé kominn á eitthvað nýtt og ferskt, svarar Arnar:

„Það koma af og til fréttir af aukinni veltu í kvikmyndagerð á Íslandi, hitt og þetta árið, til dæmis vegna erlendra stórmynda sem íslenska ríkið undirbýður önnur svæði til að fá hingað. En að skoða þessar veltutölur er mjög abstrakt leið til að meta kvikmyndagerð, svolítið eins og að setja keramikverkstæði og álver saman í flokk og búa til tölu fyrir hann.

Ég held að við ættum ekki að eltast við „nýtt og ferskt“ heldur frekar eitthvað satt, hættulegt, fallegt. „Nýtt og ferskt“ er tugga sem yngri kynslóðir í margar aldir hafa notað sem merkingarlítið slagorð yfir óþolinmæði sína að komast að.“

Þegar spurt er hvað hann vilji sjá gerast í íslenskri kvikmyndagerð í nánustu framtíð, segir hann:

Kvikmyndin er óhamingjusamt listform, eins og Tarkovksí sagði, efnislegur grundvöllur hennar svo þunglamalegur að hún verður alltaf meðvituð um eigin aðstæður. Ég vil sjá kvikmyndgerð sem er minna meðvituð um eigin aðstæður. Ætli eina leiðin fram á við fyrir íslenska kvikmyndagerð sé ekki að hætta að vera íslensk kvikmyndagerð?

Burtséð frá því sem þú vilt sjá gerast í framtíðinni, hvert heldur þú að greinin sé að stefna?

Listamenn sjálfir, sem stétt, eru ekki í mikilli aðstöðu til að berjast gegn hnignunum menningarstofnana sem voru reistar á þessu þjóbyggingartímabili. Við erum einangraður og innræktaður hópur, og við lifum á tímum þar sem enginn er hræddur við okkur og enginn snobbar fyrir menningunni okkar.

Kvikmyndin finnur sér einhvern annan farveg, ég hef ekki áhyggjur af henni, en ég veit ekki hvað verður um „bransann“. En líður fólkinu í bransanum endilega svo vel, húkandi fyrir utan griptrukk í þykku svörtu dúnúlpunni, eldsnemma að morgni að drekka kaffi úr plastbolla? Kannski fer þessum bransa svo líka að hætta að vera sama um þessar íslensku myndir, kannski er best að nota dúnúlpurnar bara í þjónustuverkefnin og auglýsingar? Kannski sjáum við einmitt aðskilnað bransans og kvikmyndarinnar. Ljóðið hefur engan bransa.

Sjá nánar hér: Ljóðið hefur engan bransa – Spjallað við Arnar Sigurðsson um kvikmyndagerð – Mói.is.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR