Frönsk kvikmyndahátíð frá 23. janúar; „Lulu nakin“ eftir Sólveigu Anspach og „Jules et Jim“ Truffaut meðal mynda

Opnunarmyndin Ömurleg brúðkaup.
Opnunarmyndin Ömurleg brúðkaup.

Hin árlega Franska kvikmyndahátíð fer fram í Háskólabíói 23. janúar – 2. febrúar. Opnunarmyndin að þessu sinni er gamanmyndin Ömurleg brúðkaup sem hefur slegið í gegn víða um heim.

Að hátíðinni standa Græna ljósið og Háskólabíó, Institut français og Alliance française í Reykjavík ásamt Franska sendiráðinu.

Hér má fræðast um allar myndirnar en þær helstu eru:

Ömurleg brúðkaup (Qu’est-ce qu’on a fait au Bon Dieu?) 

Myndin fjallar á afskaplega gamansaman hátt um sambúð fólks af ólíkum uppruna, með mismunandi trú, og sýnir að þrátt fyrir fordóma á alla bóga getur þetta allt gengið. Í Frakklandi eru 20% giftinga milli fólks af ólíkum uppruna. Leikstjóri myndarinnar þekkti sjálfur slíka blöndu úr eigin fjölskyldu og nýtti þá reynslu við gerð myndarinnar.

Lyktin af okkur (The Smell of Us)

Glæný mynd eftir Larry Clark sem leikstýrði sinni fyrstu mynd, Kids, 51 árs að aldri árið 1995, en hún hlaut frábæra dóma einsog reyndar flestar myndir sem hann hefur gert síðan. Allar þessar myndir fjalla á einn eða annan hátt um unglinga, heim þeirra og viðhorf til hins daglega lífs og í öllum myndunum koma hjólabretti mikið við sögu.

Í Lyktin af okkur er Larry kominn til Parísar þar sem við hittum fyrir nokkra unglinga sem eru að reyna að átta sig á hvernig hlutirnir virka og er óhætt að segja að sumir þeirra séu ekki á réttri leið, a.m.k. ekki frá þeim sjónarhóli sem flestir myndu miða við. Þetta er hispurslaus mynd og áhrifamikil sem mun væntanlega sitja lengi eftir í huga þeirra sem sjá hana, enda dregur Larry Clark ekkert undan.

Myndin er sýnd með íslenskum texta.

Jules og Jim (Jules et Jim)

Eitt af meistaraverkum franskrar kvikmyndasögu. Hér segir frá Þjóðverjanum Jules og Frakkanum Jim sem verða báðir ástfangnir af sömu konunni, Catherine. Myndin hefst í París, rétt fyrir heimsstyrjöldina fyrri og áhorfendur fylgja þremenningunum eftir allt þar til þau hittast á ný í Þýskalandi eftir stríðið.

Laurence hvernig sem er (Laurence Anyways)

Margföld verðlaunamynd eftir fransk-kanadíska leikstjórann Xavier Dolan. Við kynnumst hér Laurence sem ákveður að láta leiðrétta kyn sitt og breyta sér í konu eftir að hafa leynt tilfinningum sínum í áratugi, þ. á m. fyrir eiginkonu sinni sem Laurence vonar að muni standa með sér eftir sem áður. Það sem gerist kemur á óvart, ekki síst Laurence sjálfum, fjölskyldu hans og litríkum hópi vina og vinnufélaga.

Myndin er sýnd með enskum texta.

Lulu nakin (Lulu femme nue)

Eftir misheppnað atvinnuviðtal ákveður Lulu að snúa ekki aftur heim og ákveður að skilja eiginmann sinn og þrjú börn eftir í í óvissunni. Þetta var ekkert sem hún var búin að ákveða fyrirfram; þetta bara gerðist. Hún stelur nokkrum dögum fyrir sjálfa sig og nýtur algers frelsis við ströndina án þess að hafa nokkra áætlun, aðra en þá að njóta augnabliksins til fulls, án nokkurs samviskubits. Á leiðinni mætir hún alls konar fólki sem er, líkt og hún sjálf, á hjara veraldar: skrýtnum náunga sem nýtur verndar bræðra sinna; gamalli konu sem dauðleiðist og konu sem verður fyrir áreiti af hendi yfirmanns síns. Nýju vinirnir hjálpa Lulu að endurnýja kynnin við konu sem hún hefur ekki hitt lengi: sjálfa sig.

Spurt og svarað sýning með Sólveigu Anspach, leikstjóra myndarinnar, verður föstudaginnn 23. janúar kl. 18:00.

Myndin er sýnd með enskum texta.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR