Framtíðin ekki glæsileg fyrir íslenska kvikmyndagerð

Mikil óánægja ríkir hjá kvikmyndagerðarmönnum vegna stöðu Kvikmyndasjóðs. Þegar er búið að veita vilyrði fyrir fjármunum upp á 442 milljónir úr sjóðnum á yfirstandandi ári en heildar fjármagn sem sjóðurinn hefur til úthlutunar eru 684,7 milljónir króna.

Eyjan greinir frá þessu og ræðir við Hilmar Sigurðsson formann SÍK:

Bætt var verulega í kvikmyndasjóð árið 2013 þegar um einn milljarður króna var til úthlutunar úr sjóðnum. Í fjárlögum fyrir árið 2014 voru framlög til sjóðsins hins vegar skorin niður í 625 milljónir í stað 1.070 milljóna sem stefnt hafði verið að.

Hilmar Sigurðsson formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda segir að í ljósi sterkari stöðu sjóðsins árið 2013 hafi óvenju mörg kvikmyndaverkefni farið í þróunarferli, enda hafi verið stefnt að auknum framlögum í sjóðinn næstu þrjú ár. „Það er því búið að leggja í þróunarkostnað á miklu fleiri kvikmyndaverkefnum heldur en raunverulega verður hægt að styðja vegna niðurskurðarins. “

Vilyrði frá Kvikmyndasjóði er að mati kvikmyndaframleiða lykilatriði til þess að hægt sé að finna aðra aðila til að hægt sé að fjármagna verkefni. „Við létum gera úttekt árið 2010 á kvikmyndaverkefnum og fjármögnun þeirra. Þá kom í ljós að greinin var að fá rúmlega 40 prósent fjármögnun erlendis frá. Við höfum oft talað um að við fimmföldum hverja krónu sem við kvikmyndagerðarmenn fáum úr kvikmyndasjóði í ferlinu. Það er mjög góð fjárfesting fyrir hið opinbera,“ segir Hilmar.

Vegna niðurskurðar fjármuna til Kvikmyndasjóðs mun umfang íslenskrar kvikmyndagerðar dragast mjög saman að mati Hilmars. „Framtíðin er ekkert sérstaklega glæsileg, ef ég væri ungur maður myndi ég hugsa mig tvisvar um varðandi feril í framleiðslu á íslenkum kvikmyndum.”

Sjá nánar hér: Framtíðin ekki glæsileg fyrir íslenska kvikmyndagerð « Eyjan.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR