DV um „Grafir og bein“: Ágætis byrjun

grafir-og-bein-stillValur Gunnarsson skrifar um Grafir og bein Antons Sigurðssonar í DV þar sem hann gefur henni þrjár og hálfa stjörnu af fimm:

Eitthvað skelfilegt gerðist einhvern tímann á Íslandi. Hinum seku hefur ekki verið refsað. Á yfirborðinu er allt að komast í samt lag, en undir niðri veit fólk að sitthvað er enn rotið. Þetta hljómar eins og efniviður í kvikmynd um Ísland eftirhrunsáranna. Eða hryllingsmynd. Grafir og bein er bæði.

Par fer út á land til að gista í skuggalegu húsi. Hann sætir rannsókn vegna efnahagsbrota. Að auki hafa þau nýlega misst barn. Barnsmissirinn er í sjálfu sér ágætis myndlíking fyrir hrunið, fyrir sakleysið sem hvarf og reynt er að endurheimta en kemur aldrei aftur. Ýmislegt skuggalegt gerist svo í sveitinni.

Þetta er ágætis byrjun á bíómynd og margt er vel gert. Persónurnar eru afskaplega raunverulegar og samræðurnar sömuleiðis. Íslenskum kvikmyndum hefur upp á síðkastið tekist mun betur upp að nálgast íslenskt mál eins og það raunverulega er talað en bókmenntir og leikhús hafa gert. Og þó má jafnvel segja að þegar díalógurinn er kominn svo nálægt fyrirmyndinni missi hann eitthvað af þeim kostum sem hefur skáldskapinn yfir raunveruleikann.

Hvað sem því líður, þá eru meginpersónurnar hér afskaplega vel leiknar af Birni Hlyni og Nínu Dögg. Líklega er hápunktur myndarinnar þegar þau rífast um græðgina og góðærið, hún ásakar hann um óheiðarleika, hann ásakar hana um að hafa tekið þátt í þessu þegar allt lék í lyndi og hún segir á móti að hann hafi reynt að kaupa barnið í stað þess að sinna því. Þetta er allt svo raunverulegt og satt að maður fær næstum gæsahúð.

Verr tekst til með hryllingselementin. Leikstjórinn Anton brýtur þá grundvallarreglu að ekki skuli sýna skrímslin of fljótt, því áhorfandinn óttast það mest sem hann getur ekki séð. Eins og myndir á borð við Omen eða Shining hafa sýnt fram á eru börn vel til þess fallin að skapa hrylling, enda eru þau líklegri til að sjá inn í handan heima en þeir sem eldri eru. Og mörg atriði eru út af fyrir sig ágæt, en einhvern veginn mistekst uppbyggingin. Í stað þess að ógnin verði stöðugt nálægari er hún nokkurn veginn á sama stað frá upphafi. Og það er heldur einfeldningslegt hvernig upp kemst um allt, maður bankar upp á og segir okkur alla söguna.

Einn styrkur sögunnar er að maður veit ekki alveg hvað á að vera raunveruleiki og hvað ímyndun persónanna, hvað býr í myrkrinu og hvað býr í hugskotssjónum þeirra sjálfra. En mun betur hefði mátt vinna úr þessu. Það er eins og handritshöfundur forðist ákvörðun, við fáum báðar útskýringar matreiddar hvora af annarri undir lokin í stað þess að önnur hvor sé valin eða þá (eins og fyrsta flokks handritshöfundur gæti gert) að báðar gætu virkað jafn vel.

Niðurstaðan er þá sú að Anton Sigurðsson er afskaplega lofandi kvikmyndagerðarmaður sem hefur mikla tæknilega færni og ferst vel úr hendi að vinna með leikurum á öllum aldri. En það væri óskandi ef leikstjórar sem eru að gera sína fyrstu mynd í fullri lengd fengju meiri aðstoð við handritsgerðina, því handritin eru jú sá grunnur sem allt byggir á.

Sjá nánar hér: Ágætis byrjun – DV.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR