Danska leiðin eins og Danir lýsa henni

Ingolf Gabold, dagskrárstjóri leikins efnis hjá DR 1999-2012.
Ingolf Gabold, dagskrárstjóri leikins efnis hjá DR 1999-2012.

Á vef Dönsku kvikmyndastofnunarinnar er að finna grein þar sem farið er yfir ástæðurnar á bakvið velgengni Dana á sviði sjónvarpsþáttagerðar. Höfundurinn, Freja Dam, bendir á að róttæk stefnubreyting hjá DR (danska ríkisútvarpinu) sem hafi meðal annars falið í sér mikla áherslu á nána samvinnu við kvikmyndabransann, hafi lagt grunninn að núverandi gullöld danskra sjónvarpsþáttaraða.

Aðgerð Morgunandvari

Í greininni er því lýst þegar kvikmyndaleikstjórinn Rumle Hammerich var skipaður dagskrárstjóri leikins efnis hjá DR 1994. Honum var ljóst að eitthvað varð að gera. Leikið sjónvarpsefni Dana hjakkaði í gömlu fari stirðra hámenningarlegra sjónvarpsleikrita. Svar Hammerich við stöðnuninni var „Aðgerð Morgunandvari“, áætlun um að nútímavæða danskt sjónvarpsdrama. Með innblæstri frá bandarísku sjónvarpi skyldi sjónvarpsdrama tekið alvarlega sem slíkt, ekki sem kvikmyndað leikhús eins og verið hafði. Markmiðið var að gera skemmtilegt sjónvarp þar sem amerískum frásagnaráherslum var blandað saman við norræna dýpt.

Það kom síðan í hlut Ingolf Gabold, eftirmanns Hammerich, að hleypa þessum áætlunum í framkvæmd.

Hin tvöfalda saga

Gabold, sem var hinn óskoraði leiðtogi danskrar sjónvarpsþáttagerðar sem dagskrárstjóri leikins efnis hjá DR frá 1999 til 2012, segir áhorfendur fúsa að taka lýsið sitt þegar þeir geta skolað því niður með einhverju hressandi. Í því sambandi nefnir hann hugmyndina um „hina tvöföldu sögu“. Með því á hann við að sjónvarpsdrama skuli ávallt innihalda tvö frásagnarlög. Hið fyrra væri „góð saga,“ sem samanstæði af vel gerðum söguþræði, persónum sem hægt væri að finna til samkenndar með, áhugaverðu sögusviði, góðum leik og svo frv. Þá kæmi hið seinna lag sem væri annaðhvort félags- og siðferðilegt eða félags- og sálfræðilegt að náttúru.

„Sem sjónvarpsstöð í almannaþágu viljum við fá virðisauka,“ segir Gabold og bendir á Forbrydelsen II sem þá þáttaröð sem hann sé hreyknastur af: þar sé að finna spennandi söguþráð þar sem blandað er saman morðum og pólitískri refskák, en yfir og allt um kring svífi hin samfélagslega umræða um lýðræðisþróun, lög gegn hryðjuverkum og þátttöku Danmerkur í stríðinu í Afghanistan.

„Allt í einu gerir þú þér grein fyrir því að heildin snýst ekki aðeins um hver gerði það, heldur einnig um mun pólitískari spurningu: hversu mikið af lýðræðislegum stjórnarháttum erum við reiðubúin að fórna gegnum lagasetningu gegn hryðjuverkum og með eftirliti, til að vernda þá?“

Gabold lítur á þessa aukavídd sem aðalástæðu þess að danskir sjónvarpsþættir hafi slegið í gegn á alþjóðavettvangi. „Þetta er það sem aðgreinir okkur frá kröfum einkasjónvarpsstöðva um leikið efni. Alþjóðlega tel ég að við séum á virkilega góðri leið með þessari tvöföldu frásagnarnálgun. Sagan sjálf og fléttan er ekki nóg. Heildarsagan, sem nær yfir öll landamæri, er það sem gerir verkið. Borgen til dæmis er um manneskju sem hlýtur mikil pólitísk völd en verður að gefa eftir völdin á heimilinu. Frásagnir af konum sem þurfa stöðugt að berjast við að halda frama sínum og fjölskyldu gangandi er kunnugleg um allan hinn vestræna heim. Það sem heillar er heimavöllurinn, forsætisráðherrann fer á hjólinu í vinnuna, danska er töluð – en snertiflöturinn er hinn alþjóðlegi útgangspunktur.“

Sjá nánar hér: From The Kingdom to The Killing.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR