Sex íslenskar bíómyndir í sýningum frá 31. október

Föstudaginn 31. október gerast þau undur að hvorki meira né minna en sex íslenskar bíómyndir verða í sýningum í kvikmyndahúsum; Borgríki 2, Afinn, París norðursins, Vonarstræti, Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum og Grafir og bein. Tvær þær síðastnefndu verða frumsýndar þennan dag.

Klapptré rekur ekki minni til að slíkur fjöldi íslenskra kvikmynda hafi verið samtímis í sýningum áður, þó að vissulega hafi stundum komið fyrir að tvær og jafnvel þrjár hafi verið í gangi á sama tíma.

Og ein í viðbót…

Að auki má ekki gleyma sænsk-íslensku kvikmyndinni Hemma sem nú er til sýnis í Háskólabíói.

Leikstjóri myndarinnar er Maximilian Hult og framleiðendur eru Anna G. Magnúsdóttir og Anders Granstöm fyrir sænska framleiðslufyrirtækið Little Big Productions. Íslenskir meðframleiðendur eru Guðrún Edda Þórhannesdóttir og Friðrik Þór Friðriksson fyrir Kvikmyndafélagið Hughrif ehf. Framkvæmdastjórn var í höndum Tinnu Proppé.

Tökur á myndinni fóru fram á Eyrarbakka sumarið 2012 með íslensku tökuliði en stór hluti af aðstandendum myndarinnar eru Íslendingar.  Eftirvinnsla fór einnig öll fram hér á landi en myndin hlaut eftirvinnslustyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Valdís Óskarsdóttir og Sigurður Eyþórsson klipptu myndina, hljóðhönnun var í höndum Kjartans Kjartanssonar og Ingvars Lundberg hjá Bíóhljóð ehf., litgreining og samsetning var í umsjá Eggerts Baldvinsson hjá RGB Iceland ehf.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR