„Leviathan“ sýnd á Rússneskum kvikmyndadögum í Bíó Paradís

rússneskir kvikmyndadagar 2014 BPBíó Paradís stendur fyrir Rússneskum kvikmyndadögum dagana 23.-27. október. Sýndar verða fimm myndir, þar á meðal Leviathan, nýjasta mynd Andrey Zvyagintsev, fremsta leikstjóra Rússa nú um stundir. Ókeypis er á opnunarmynd hátíðarinnar á fimmtudag kl. 18; Postman´s White Nights sem mætti helst lýsa sem síðkommúnískri nostalgíu með vodkabragði. Myndin vann Silfurbjörninn, aðalverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Hátíðin er í samstarfi við Sendiráð rússneska sambandsríkisins á Íslandi.

UM MYNDIRNAR:

Postman’s White Nights: Síðkommúnísk nostalgía með slatta af vodka.

Postman´s white nights dregur upp athyglisverða mynd af guðsvoluðu þorpi á einstaklega einangraðri eyju í norðurhluta Rússlands. Eina tenging þorpsbúa, sem hafa leitt allar framfarir síðustu áratuga framhjá sér, er bréfberi sem siglir til þeirra reglulega með helstu nauðsynjar. Þrátt fyrir að hafna allri tækni og vanrækt innviði samfélagsins síns, mega þorpsbúar lifa við það að verða vitni að reglulegum eldflaugaskotum Rússa skammt frá.

Þarna er blandað saman einkennilega fallegri og ósnertri náttúru, og svo síðkommúnískri nostalgíu þar sem tíminn er drepinn með vodkadrykkju. Og svo meiri drykkju.

Þegar bátsvél bréfberans bilar kemst rót á líf bæjarbúanna og ekki síst bréfberans sem reynir í örvæntingu að festa kaup á nýjum mótor.

Myndin vann Silfurbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og fékk meðal annars fimm stjörnur af fimm hjá gagnrýnanda breska blaðsins The Guardian. Þá hefur myndin vakið mikla athygli fyrir þá staðrynd að það er venjulegt fólk sem fer með nær öll hlutverk myndarinnar.

Leviathan: Raunir Job og hið spillta Rússland

Það er óhætt að segja að það hafi komið mörgum á óvart þegar Leviathan var útnefnd framlag Rússlands til Óskarsverðlauna í ár. Ekki síst vegna þess að myndin þykir takast á við spillingu og kúgun í Rússlandi með áleitnum hætti. Meðal annars má sjá myndir af Leonid Brezhnev, Mikhail Gorbachev og svo Vladimar Pútin sjálfum tengdar við spillingu í þessari athyglisverðu sögu sem fékk meðal annars verðlaun fyrir besta handrit á Cannes hátíðinni. Sagan er byggð á hinum einstaklega óheppna Job úr Jobsbók Biblíunnar. Sá varð nokkurskonar miðdepill valdabaráttu guðs og djöfulsins og þurfti að þola ólýsanlegar raunir áður en yfir lauk. Slíkt hið sama á við um söguhetju Leviathan, sem þarf að takast á við spilltan borgarstjóra sem ásælist landið hans.

Myndin var fjármögnuð að hluta til af menningarmálaráðuneyti Rússlands, en framleiðandi myndarinnar sagði í viðtali við The Guardian að að væri ólíklegt að leikstjórinn myndi njóta slíks styrks aftur. Sérsaklega í ljósi umfjöllunarefnisins og hvernig leiksjórinn nálgast þetta eldfima efni í landi sem hefur ítrekað sakað um spillingu og skeytingarleysi þegar kemur að mannréttindum. Myndinni hefur verið vel tekið af áhorfendum, meðal annars sigraði hún á kvikmyndahátíðinni í London í lok september.

Angels of the Revolution: Framúrstefna í Sovétríkjunum

Framúrstefnulistamenn fá óvænt nýtt hlutverk í kvikmyndinni Angels of Revolution. Myndin gerist skömmu eftir að kommúnisminn hefur tekið völdin í Rússlandi. Í nýjum heimi Sovétríkjanna þurfa fimm listamenn, ljóðskáld, leikari, arkitekt og leikstjóri, að taka þátt í að treysta völd hins nýja ríkis. Þeim er gefið það verkefni að fara til Síberíu og Norður-Rússlands og stöðva ófrið á svæðinu. í þessari erfiðu sendiför þurfa listamennirnir að takast á við eigin hugmyndafræði og list og samræma hana skapalóni Sovétríkjanna.

Two Women: Umdeild árás á hjónabandið

Rússneska kvikmyndin Two Women byggir á frægu leikriti Ivan Turgenev og fjallar um eiginkonu valdamikils landeiganda sem leiðist lífið innilega. Líf hennar tekur þó stakkaskiptum þegar ungur og fallegur kennari kemur á bæ þeirra til þess að kenna syni hennar. Málin flækjast þó þegar sautján ára gömul fósturdóttir landeigandans verður einnig ástfangin af kennaranum.

Leikritið þótti umdeilt á nítjándu öldinni og var meðal annars bannað um stund í Rússlandi vegna þess að það var túlkað sem árás á hjónabandið. Skáldið skírði leikritið Two Women í upphafi, en gerði síðar smávægilegar breytingar á verkinu, meðal annars tónaði hann niður pólitísk broddinn, og skírði það að lokum A Month in the Country. Þá fyrst hlaut verkið náð fyrir augum þeirra sem ritskoðuðu list á þeim tíma.

Það er enginn annar en Ralph Fiennes sem leikur landeigandann í kvikmyndinni sem Vera Glagoleva leikstýrir.

White Reindeer Moss: Togstreita Aleshka

Kvikmyndin byggir handrit sitt á tveimur bókum eftir frægast rithöfund Nenets-ættbálksins í Norður-Rússlandi, Önnu Nerkagi. Sagan fjallar um hinn unga Aleshka og óendurgoldna ást hans. Stúlkan sem hann elskar, Aniko, yfirgefur þetta litla frumstæða samfélag og verður til þess að Aleshka bíður hennar í tíu ár.

Í kvikmyndinni er ljósi varpað á þennan frumstæða ættbálk sem mætti kannski helst líkja við Lappa í Finnlandi. Sagan snýst ekki síst um togstreitu forns samfélags og gilda sem margir teldu úelt, og svo tækifæra í síminnkandi alþjóðasamfélagi sem þrengir stöðugt að lífsháttum frumstæðra samfélaga heimsins.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR