Gagnrýni | The Babadook (RIFF 2014)

the babadook[column col=“1/2″][message_box title=“The Babadook“ color=“gray“] [usr 4,5] Leikstjóri: Jennifer Kent
HandritJennifer Kent
AðalhlutverkEssie Davis, Daniel Henshall, Tiffany Lyndall-Knight
Ástralía, 2014
[/message_box][/column]Missir ástvina og sorgin sem fylgir getur verið mjög erfið fyrir marga og sumir eiga jafnvel erfiðara með að fast við það en aðrir. Aðalsöguhetjur áströlsku hrollvekjunnar The Babadook eru Amelia og sonur hennar Robbie. Nóttina sem Amelia fæddi Robbie lést faðir hans í bílslysi á leið til spítalans. Það eru liðin sjö ár síðan en þau er enn að fast við missinn. Einn daginn finna þau undarlega barnabók sem heitir The Babadook og skrítnir hlutir fara að gerast…

Með The Babadook hefur leikstjórinn og handritshöfundurinn Jennifer Kent náð að gera líklega eina bestu hrollvekju undanfarinna ára, þó hún sé í raun mun meira en bara venjuleg hrollvekja. Hún er þessi sjaldgæfa hryllingsmynd sem ber fulla virðingu fyrir áhorfandanum og móðgar aldrei vitsmuni hans. Þetta er hrollvekja fyrir hugsandi manninn. Myndin byrjar hægt og rólega og byggir hlutina smám saman upp en þó er greinilegt frá upphafi að myndin ætlar sér merkari hluti en bara að hræða líftóruna úr áhorfandanum. Hún nær því þó vel að gera það líka, og um leið að vera hrollvekjandi og óþægileg.

The Babadook virkar á mörgum stigum, byrjar sem eins konar mynd og smám saman, og mjög örugglega, þróast hún yfir í eitthvað annað (það myndi skemma fyrir að gefa upp hvernig). Kent stendur sig mjög vel í að viðhalda réttum tóni og réttri stemningu og það er varla augnablik í myndinni sem virkar ekki eða passar ekki (nema á réttan hátt). Kent hefur líka vit á að svindla ekki á áhorfandanum og nær að halda góðu samræmi í öllu (nema þegar það á ekki að vera svo) og myndar sterka heild.

Það er ekki gott að skemma fyrir og tala of mikið um þemun hérna en The Babadook fæst við sorg og missi og hvernig fólk fæst við það, og hvað þessir hlutir geta gert mann brjálaðan, en um leið má líta svo á að myndin fáist líka við hugsýki. Ákveðnir atburðir sem gerast í myndinni gætu hafa allir gerst í höfðinu á aðalsögupersónunum og myndin nær vel að halda hlutunum óljósum þannig að oft er ekki á hreinu hvað er raunverulegt og hvað ekki.

Aðalleikararnir tveir, Essie Davis sem móðirin og Daniel Henshall sem sonurinn, standa sig bæði með prýðum. Davis túlkar það sem hlýtur að vera ein þreytulegasta persónan sem sést hefur á hvíta tjaldinu, maður finnur algjörlega fyrir að þarna er á ferðinni manneskja sem hefur misst maka sinn, sjö ár af því að fást við missinn og erfitt barn hafa ljóslega tekið sinn toll. Henshall er líka mjög sannfærandi og laus við alla tilgerð eða óhóflegan krúttleika sem hrjá marga barnaleikara.

Það vantar samt örlítið upp á að The Babadook nái því að vera hreint hryllingsmeistarstykki. Myndin er ekki alveg laus við húmor en hugsanlega hefði hjálpað að hafa aðeins meiri húmor til að létta manni aðeins við allan hryllinginn. Lokakaflinn hefði líka geta verið (ennþá) sterkari og það örlar fyrir stöku klisjuaugnablikum. En þetta eru smávægilegar gallar í annars frábærri mynd.

Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson er mikill kvikmyndaunnandi og er með meistaragráðu í samanburðarbókmenntum. Hann stefnir á að gerast frægur kvikmyndaleikstjóri einn góðan veðurdag.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR