Þessar fengu verðlaun á RIFF 2014

Pétur Björnsson, ræðismaður Ítalíu á Íslandi, tók við verðlaunum ítölsku myndarinnar Ég get hætt þegar ég vil fyrir hönd kvikmyndagerðarmannanna. Mynd: RIFF
Pétur Björnsson, ræðismaður Ítalíu á Íslandi, tók við verðlaunum ítölsku myndarinnar Ég get hætt þegar ég vil fyrir hönd kvikmyndagerðarmannanna. Mynd: RIFF

RIFF lýkur í dag, en í gærkvöldi fór fram verðlaunaafhending í Iðnó þar sem eftirfarandi myndir hlutu verðlaun:

Gullni lundinn / uppgötvun ársins

Ég get hætt þegar ég vil
(Smetto quando voglio/I Can Quit Whenever I Want)
Leikstjóri: Sydney Sibilia
Ítalía
Í umsögn dómnefndar segir að myndin sé einstaklega skemmtileg ítölsk kómedía sem undirstriki fjölbreytileika Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík, sem rúmar bæði tilraunakenndar kvikmyndir sem og svo farsælar kvikmyndir sem eru til þess fallnar að falla í kramið hjá stórum hópi fólks. Myndin ber ekki þess merki að hún sé sú fyrsta sem Sydney Sibilia leikstýrir. Í henni er varpað athyglisverðu ljósi á stöðu menntamanna í Ítalíu en myndin segir sögu ólíklegra einstaklinga sem enda í heimi glæpa og gjálífs.

Sérstök viðurkenning dómnefndar:

Áður en ég hverf
(e. Before I Disappear)
Leikstjóri: Shawn Christensen
USA/GBR
Í umsögn dómnefndar segir að í myndinni sé að finna sterka og ferska rödd leikstjórans Shawn Christnsen, en hann leikstýrir, skrifar og leikur í myndinni sem fjallar um mann sem er á barmi þess að fremja sjálfsmorð þegar hann fær það óvænta hlutverk að passa barnunga frænku sína. Leikstjórinn er sannarlega kvikmyndagerðarmaður sem er vert að fylgjast með.

Umhverfisverðlaun:

Beðið eftir ágúst
Leikstjóri: Teodora Ana Mihai
ROM/BEL
Í umsögn dómnefndar segir: Í fyrsta lagi langar okkur að taka fram að við vorum mjög samstíga í áliti okkar – þrátt fyrir sérlega sterkt og fjölbreytt úrval mynda. Myndin sem heillaði okkur hvað mest lét að mörgu leyti ekki mikið yfir sér en tókst í gegnum þröngt og afmarkað sögusvið að segja mjög stóra sögu sem vakti okkur til umhugsunar. Leikstjórinn sýndi dirfsku í framsetningu sinni sem var bæði áreynslulaus og mannleg, en um leið skýr og hleypti manni mjög nálægt viðfangsefninu. Leikstjórinn ber greinilega mikla virðingu fyrir persónum sínum og ekki síður okkur áhorfendum, sem sitjum eftir með mjög áleitna mynd.

Kvikmyndaverðlaun kirkjunnar:

Touma húsið
(e. Villa Touma)
Leikstjóri: Suha Arrar.

Í umsögn dómnefndar segir að kvikmyndin Touma húsið fjallar um stöðu kvenna, um hefðarfestu og breytingar. Hún gefur innsýn í heim sem er kunnuglegur og framandi í senn. Trúarleg tákn og atferli eru vitnisburður um sársaukann og gleðina í lífinu, um vanmátt og styrk. Touma húsið minnir á hvernig við erum kölluð til lífs og til þess að vera gerendur í eigin lífi. Hún sýnir hvernig formfesta og yfirborðskennd getur bælt fólk og leitt hug og hjarta frá því sem mestu skiptir. Hún minnir okkur á hvernig unga fólkið og börnin eru vonarberar. Touma húsið sýnir að stundum þarf uppreisn til að knýja fram breytingar um leið og hún minnir á að þær eru aldrei sársaukalausar.

Gullna eggið:

Þrettán blátt
(e. Thirteen Blue)
Leikstjóri: Jacqueline Lentzou
UK
Breska stuttmyndin, Þrettán blátt, hlýtur Gullna eggið í ár. Í umsögn dómnefndarinnar segir að í myndinni sé að finna sterkt myndmál, þéttar samræður og öflugan leik. Myndin bregður ljósi með næmum og sterkum hætti á líf ungrar stúlku sem stendur á krossgötum í lífi sínu. Leikstjórinn hefur skarpa sýn og næmt auga fyrir smáatriðum auk þess að vera frumlegur. Þannig tekst honum að varpa skýrri mynd af flóknum heimi hinna fullorðnu í gengum auga barns.

Besta íslenska stuttmyndin:

Málarinn
Leikstjóri: Hlynur Pálmason
ICE/DEN
Stuttmynd sem fjallar um hið fullkomna listaverk ófullkomna listamannsins. Í umsögninni segir að í myndinni skyggnist áhorfandinn inn í heim manns sem svífst einskis þegar kemur að list hans en er snauður af tilfinningum gagnvart sínum nánustu. Sterkt myndmál, heildstæðar ófullkomnar persónur og grípandi söguþráður.

Sérstök dómaraviðurkenning:

Sub Rosa
Leikstjóri: Þóra Hilmarsdóttir
ICE/GBR
Stuttmynd sem grípur athyglina og leiðir áhorfendur í heim sakleysis sem ekki er lengur til staðar. Myndmálið er þrungið táknrænum myndum sem kalla fram vangavelltur um siðgæði, sakleysi, munúð, græðgi og losta. Ljóðræn mynd sem vekur upp áleitnar spurningar.

FIPRESCI verðlaunin:

Bota
The World
Dir.: Iris Elezi & Thomas Logoreci
ALB/ITA
Í umsögn dómnefndar segir að myndin Bota sé allt í senn seiðandi og einföld saga. Hún hafi þó margslunginn og óvæntan pólitískan undirtón sem verður flóknari eftir því sem líður á myndina. Úr verði einstök blanda fallegri melankólíu og nútímasögu.

Sjá nánar hér: RIFF verðlaun 2014 | Reykjavík International Film Festival.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR