Kvikmyndasafnið leitar að týndum íslenskum myndum

Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.
Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.

Nú stendur yfir átak á vegum Kvikmyndasafnsins og Kvikmyndamiðstöðvar að hafa uppi á öllum íslenskum kvikmyndum á filmu, sem enn kunna að leynast á kvikmyndavinnustofum erlendis. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu/Vísi.

Safnið stefnir á að hefja útgáfu á íslenskum kvikmyndum þegar höfundarréttarmál hafa verið leyst. Þá þarf auðvitað að huga að sem bestum myndgæðum en týndar myndir eru oft settar aftur saman úr mörgum mismunandi filmum sem hafa verið grafnar upp.

Til dæmis má nefna að myndin Gullsandur frá árinu 1984 var talin týnd lengst af en upprunalega negatívan fannst loksins á erlendri vinnustofu mörgum árum seinna. Nú hefur myndin verið skönnuð í fullum gæðum. Safnið vinnur nú meðal annars að endurgerð á Morðsögu frá 1977, sem hefur fengið yfirhalningu á mynd og hljóði til að tryggja sem bestu mynd- og hljóðgæði á myndinni.

Erlendur [Sveinsson, forstöðumaður safnsins]segir að Kvikmyndasafnið leiti nú að nútímalegum leiðum til að miðla kvikmyndaarfi landsins. „Ég veit að kvikmyndasöfnin eru mikið að velta fyrir sér sinni miðlun í þessum breytta heimi,“ segir hann en alþjóðlegur fundur kvikmyndasafnstjóra verður einmitt haldinn í Stokkhólmi í lok október, þar sem þessi miðlun kvikmyndasafnanna verður rædd.

„Það er partur af stefnuskránni hjá mér að safnið geti gefið út vandaðar endurgerðir á gömlum kvikmyndum þannig að almenningur geti notið þeirra. Ég er síðan með heilmiklar hugmyndir um það hvernig eigi að þróa sýningarþátt safnsins í náinni framtíð með því að nýta nútímatækni,“ segir Erlendur.

Fjölmargir leggja leið sína í safnið svo sem dagskrárgerðarfólk og erlendir fræðimenn. „Fólk hefur jafnvel komið til að leita að afa sínum í gamalli mynd, og við hjálpum eins og við getum,“ segir Erlendur en í augnablikinu starfa rúmlega fimm manns á safninu.

Sjá nánar hér: Vísir – Leita að týndum íslenskum myndum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR