Framleiðendur „Sumarbarna“ viðurkenna mistök og biðjast afsökunar

Rammi úr Sumarbörnum; myndin mun væntanleg í kringum áramót.
Rammi úr Sumarbörnum; myndin mun væntanleg í kringum áramót.

Anna María Karlsdóttir og Hrönn Kristinsdóttir hjá Ljósbandi, framleiðanda kvikmyndarinnar Sumarbörn, segja drátt á launagreiðslum til leikara og starfsliðs kvikmyndarinnar algerlega á sína ábyrgð og biðja hlutaðeigandi afsökunar.

Þetta kemur fram í spjalli við Fréttablaðið:

„Okkur þykir afar leitt hversu hefur dregist að greiða þeim hæfileikaríku og duglegu börnum sem tóku þátt í gerð myndarinnar Sumarbörn,“ segir annar framleiðandi myndarinnar, Anna María Karlsdóttir.

„Við biðjum börnin og aðstandendur þeirra innilega afsökunar á þessum drætti. Vanhöld þessi eru algerlega á okkar ábyrgð,“ útskýrir hún.

Ljósband ehf., sem framleiðir Sumarbörn, er í eigu Hrannar Kristinsdóttur og Önnu Maríu Karlsdóttur. Fyrirtækið hefur áður framleitt kvikmyndir á borð við Desember og síðast, Okkar eigin Ósló með Þorsteini Guðmundssyni í aðalhlutverki.

„Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að hraða því að hægt verði að greiða börnunum fyrir þeirra góðu vinnu og munum halda því áfram þar til greiðslur eru í höfn,“ segir Anna María og bætir við að hún og samstarfskona hennar, Hrönn, hafi gert alla samninga við starfsfólk í góðri trú þar sem byggt var á hefðbundinni fjármögnun sem hefur gengið eftir í þeirra fyrri verkum.

„Tafir á afgreiðslu fjármagns, meðal annars frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, til myndarinnar var eitthvað sem við sáum ekki fyrir,“ heldur Anna María áfram.

„En við ítrekum að það er á okkar ábyrgð að standa við gerða samninga og að því vinnum við öllum árum. Við viljum biðja alla hluteigandi afsökunar á að hafa gert samningana í þeirri trú að afgreiðsla á fjármagni yrði með vanabundnum hætti. Það voru greinilega mistök af okkar hálfu.“

Sjá nánar hér: Vísir – „Við biðjum börnin og aðstandendur þeirra innilega afsökunar“.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR