Mennirnir á bakvið Djúpavogsmyndina

Heima er best, myndband Djúpavogshrepps og Afls starfsgreinafélags, þar sem lýst er sjónarmiðum heimamanna í „Vísismálinu“ svokallaða, hefur vakið gríðarlega athygli og umræður.

Myndbandið var unnið af kvikmyndagerðarmönnunum Sigurði Má Davíðssyni og Skúla Andréssyni sem báðir eru frá Djúpavogi. Þeir útskrifuðust úr Kvikmyndaskóla Íslands 2012 og hafa síðan rekið framleiðslufyrirtækið Arctic Project. Fyrirtækið hefur fengist við gerð stuttmynda, heimildamynda, auglýsinga og tónlistarmyndbanda.

Í stuttu spjalli við Klapptré sagði Sigurður Már hugmyndina hafa vaknað hjá stjórnendum Djúpavogshrepps í kjölfar fréttar þar sem Vísismönnum var þakkað fyrir að hjálpa starfsmönnum sínum á Djúpavogi með því að bjóða þeim vinnu í Grindavík. Oddvitinn hafi síðan haft samband við þá Skúla. „Okkur langaði að sýna að málið væri ekki alveg svona einfalt,“ segir Sigurður Már.

Í kynningu á myndbandinu segir:

Markmiðið með útgáfu þessa myndbands af hálfu Djúpavogshrepps er að vekja almenning í landinu og stjórnvöld til alvarlegrar umhugsunar um stöðu Djúpavogs í ljósi þeirra augljósu veikleika þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem að smærri byggðum landsins er ætlað að búa við. Kerfis sem vegur með ómannúðlegum og óvægnum hætti að tilveru fólks í landinu með stuðningi stjórnvalda. Íbúar krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda um að tryggja byggðinni sanngjarna hlutdeild í hinni sameiginlegu auðlind.

Myndina má sjá hér að neðan:

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR