Truenorth og Magnús Scheving fá útflutningsverðlaun forseta Íslands

Leifur B. Dagfinnson og Helga Margrét Reykdal hjá Truenorth veita verðlaunum viðtöku. Bakatil má sjá forseta Íslands. MYND: VÍSIR/VILHELM.
Leifur B. Dagfinnson og Helga Margrét Reykdal hjá Truenorth veita verðlaunum viðtöku. Bakatil má sjá forseta Íslands. MYND: VÍSIR/VILHELM.

Síðdegis í gær veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, kvikmyndafyrirtækinu Truenorth Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2014 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Það voru Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri og Leifur B. Dagfinnsson, stjórnarformaður Truenorth, sem veittu verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.

Að auki hlaut Magnús Scheving, hugmyndasmiður Latabæjar, heiðursviðurkenningu fyrir að hafa aukið hróður Íslands á erlendri grund.

Forseti afhjúpaði við athöfnina listaverk eftir Jónínu Guðnadóttur sem fylgdi verðlaununum.

Í ræðu Vilborgar Einarsdóttur, formanns valnefndarinnar segir meðal annars.

„Truenorth er í fararbroddi þeirra fyrirtækja sem hafa sérhæft sig í að þjóna erlendum aðilum sem vilja kvikmynda á Íslandi – hvort sem það eru heilar kvikmyndir, sjónvarpsþættir, auglýsingar eða myndbönd. Mikil fagmennska, dugnaður og ósérhlífni einkennir fyrirtækið, starfsmenn og stjórnendur:“

Í þakkarræðu sinni sagði Leifur B. Dagfinnsson, stjórnarformaður Truenorth meðal annars.

“Það er mikill heiður fyrir okkur og starfsemi okkar að hljóta þessa viðurkenningu í dag. Við teljum jafnframt að í henni felist hvatning og yfirlýsing þess efnis að íslensk kvikmyndagerð sé traustsverð og framsækin atvinnugrein sem hefur sýnt sig skipta þjóðina máli meðal annars með miklum og nauðsynlegum útflutningstekjum undanfarin ár.”

Tilgangurinn með veitingu útflutningsverðlaunanna er að vekja athygli á þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 26. sinn en þau voru fyrst veitt árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Össur, Icelandair, Eimskip, Hampiðjan, Trefjar, Delta, og Ferðaskrifstofa bænda og á síðasta ári hlaut HB Grandi verðlaunin.

Sjá nánar hér: Vísir – Truenorth og Magnús Scheving heiðruð af forseta.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR