Gagnrýni | Dauður snjór 2 (Död snö 2)

SMÁRABÍÓ/HÁSKÓLABÍÓ/BORGARBÍÓ | Dauður snjór 2 (Död snö 2)
Leikstjóri: Tommy Wirkola
Handrit: Stig Frode Henriksen, Vegar Hoel, Tommy Wirkola
Aðalhlutverk:  Amrita Acharia, Carl-Magnus Adner, Jocelyn DeBoer
Lengd: 100 mín.
Noregur/Ísland, 2014

Död Snö frá 2009 var líklega sú fyrsta sinnar tegundar: Norsk uppvakningamynd. Og þetta voru engir venjulegir uppvakningar heldur nasistauppvakningar! Hugmyndin ein og sér var líklega nóg til þess að myndin naut vinsælda og vakti athygli Hollywood á leikstjóranum Tommy Wirkola sem fór þangað og gerði Hansel & Gretel: Witch Hunters.

En Wirkola snéri ekki baki við heimalandi sínu og hefur snúið aftur með framhaldi af myndinni sem gerði hann frægan: Död Snö 2. Myndin var nú samt ekki stærri en svo að hún var tekin upp á Íslandi til að spara pening og að mestu leyndi standa sveitir landsins fyrir sveitir Noregs.

Död Snö 2 hefst á sama punkti og sú fyrsta endaði þar sem aðalhetjan taldi sig vera sloppinn frá uppvakningunum en svo birtast þeir allt í einu. Hann nær að sleppa frá þeim en er síðan handtekinn og álitinn vera ábyrgur fyrir dauða vina sinna úr fyrstu myndinni. Hann sleppur líka frá lögreglunni sem þýðir að núna þarf hann bæði að fást við lögregluna og uppvakningana. Inn í þetta blandast síðan svokölluð “Zombie Squad” frá Bandaríkjunum, fleiri uppvakningar og stór skriðdreki svo eitthvað sé nefnt.

Meiri hasar, minni leiðindi

Fyrsta myndin var lítið meira en hin þokkalegasta vitleysa, ca. helmingurinn af henni var ágætlega skemmtilegur (en kannski ekki ýkja eftirminnilegur) uppvakningahasar á meðan hinn helmingurinn var frekar leiðingjart og óspennandi unglingadrama með óeftirminnilegum persónum. En núna er búið að kynna aðstæðurnar og helstu persónur og því hægt að vinda sér beint í hasarinn, sem gerir Död Snö 2 strax aðeins skemmtilegri en þá fyrstu: Meiri hasar og minni leiðindi.

Död Snö 2 er samt langt frá því að vera einhver snilld. Myndin á auðvitað ekki að vera neitt listaverk og tekur sig ekki vitund alvarlega en um leið er hún heldur ekki nærri því eins snjöll og sniðug eins og hún gæti verið. Engu að síður er hún lífleg og fjörug og óhrædd við að vera fáránleg auk þess sem henni tekst að koma manni nokkrum sinnum á óvart, þannig að hún nær takmarki sínu: að skemmta áhorfandanum. En bara rétt svo.

Eftirminnilegir lúðar

Helsti ókostur fyrstu myndarinnar var skortur á áhugaverðum persónum. Uppvakningarnir gerðu lítið meira en að rymja og éta fólk og krakkarnir sem börðust við þá höfðu flestir mjög einfalda persónuleika þannig að það var lítið gaman að þeim. Það er mikilvægt fyrir svona mynd að hafa skemmtilegar persónur því annars verður gamanið frekar einhæft. En sem betur inniheldur framhaldið fleiri og fjölbreyttari persónur. Eftirminnilegasta persónan er líklega vitlausi lögreglustjórinn sem á flestar af bestu línum myndarinnar (“Jesús, María og Jósef Stalín!”).

Einnig er vert að minnast á leiðtoga “Zombie Squad” samtakanna sem er leikinn af erkilúðanum Martin Starr (líklega frægastur fyrir leik sinn í þáttunum Freaks and Geeks). Hann er frábær sem ofurnjörður sem hefur tileinkað lífi sínu að berjast við uppvakninga og fær núna loksins tækifæri til þess. Samtökin samanstanda af honum og tveimur stúlkum sem eru jafnvel meiri lúðar en hann en þær eru ekki eins eftirminnilegar (fyrir utan að önnur þeirra er með áráttu fyrir því að vitna í Star Wars við öll tækifæri).

Örlítið betri en fyrsta myndin

Líkt og fyrri myndin er Död Snö 2 samt lítið meira en þokkaleg vitleysa og nær ekki sömu hæðum og myndir á borð við Shaun of the Dead. Tommy Wirkola er ágætlega hæfur leikstjóri sem kann að halda hlutunum líflegum en það er ekki hægt að segja að hann sé frábær stílisti og meistara “genre” leikstjóri á borð við menn eins og Edgar Wright eða John Carpenter. Það er eitthvað af flottum skotum í myndinni og kvikmyndagerðin er ágætlega fagmannleg en það vantar einhvern karakter í heildarsvipinn á sjónrænu hliðinni. Hasarinn er oft einhæfur og vanhugsaður og það hefði verið hægt að gera mun snjallari hluti með þessari hugmynd. En þar sem það er meira af skemmtilegum hasar og minna af leiðinlegu drama í þetta skiptið nær Död Snö 2 þeim sjaldgæfa árangri að vera örlítið betri en fyrsta myndin.

Hvar eru morðóðir íslenskir jólasveinar?

Ísland nær að mestu að ganga sem staðgengill fyrir Noreg en þó bregður fyrir skotum á borð við eitt þar sem Bónusbúð sést greinilega í bakgrunninum og blekkingin verður ljós. En þetta er vandamál sem aðeins 300.000 íslendingar þurfa að spá í.

Död Snö 2 er hluti af greinamyndaæði sem hefur verið í gangi í Skandinavíu undafarin misseri, fyrir utan Död Snö myndirnar má nefna Trollhunter og finnsku myndirnar Iron Sky og Rare Exports, allt myndir sem vinna með sagnfræði eða þjóðsögur í bland við vísindaskáldskap og hroll. Þetta fær mann til að hugsa hvers vegna Íslendingar séu ekki að taka meiri þátt í þessu æði enda hefur verið mikill skortur á alvöru greinamyndum í íslenskri kvikmyndagerð. Það er reyndar ein uppvakningamynd á leið í bíó á þessu ári en það væri gaman að sjá íslenska kvikmyndagerðarmenn taka sig til og gera fleiri myndir af þessu tagi. Nóg eigum við að þjóðsögum um tröll, álfa og huldufólk, að ógleymdum jólasveinunum. Hver vill ekki sjá mynd um morðóða íslenska jólasveina eða tröll sem valda usla í miðbæ Reykjavíkur?

Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson er mikill kvikmyndaunnandi og er með meistaragráðu í samanburðarbókmenntum. Hann stefnir á að gerast frægur kvikmyndaleikstjóri einn góðan veðurdag.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR