Viðhorf | Sjö punktar um Paradís og Mekka

Blessaður Erlendur og takk fyrir skrifið um Bæjarbíó og Bíó Paradís.

Vil byrja á að taka fram að ég tala bara fyrir sjálfan mig.

Þá hef ég aldrei „gefið mér“ að Kvikmyndasafnið flytti sýningar sínar í Bíó Paradís. Né hef ég reynt að „hlutast til um rekstur Kvikmyndasafns Íslands“ eða „segja því fyrir verkum,“ eins og þú minnist á.

Ég og fleiri hafa hinsvegar freistað þess að sannfæra þig og fyrri forstöðumann Kvikmyndasafnsins um ágæti þess að flytja safnabíóið í Bíó Paradís. Það hefur ekki tekist, ennþá. Á meðan hef ég á málinu skoðun sem ég læt stundum í ljós. Annað er það nú ekki.

Rök þín gegn flutningi safnabíósins í Bíó Paradís finnast mér ekki sannfærandi, ég útskýri afhverju hér fyrir neðan. Ég geri mér þó glögga grein fyrir því að meðan vilji þinn sem forstöðumanns er ekki fyrir hendi í málinu gerist ekki mikið. En vilji er líka mestanpart það sem þarf.

1. Umhyggjan

Það er einmitt „vegna umhyggju fyrir Kvikmyndasafninu og áhorfendum þess“ sem ég hef orð á þessu. Mér finnst reyndar að áhorfendurnir mættu vera ögn fleiri og ég tel að þeim sé betur þjónað með því að hafa safnabíóið í Bíó Paradís. Svo finnst mér líka að þessar tvær góðu stofnanir eigi að standa saman og sækja styrk í hvora aðra, enda báðar að sýna klassískar kvikmyndir með stuðningi opinberra aðila.

2. Ekki í hagnaðarskyni

Kvikmyndasýningar í Bíó Paradís fara ekki fram í hagnaðarskyni. Bíóið er „non-profit“, rekið af sjálfseignarstofnun, sem þýðir að allur „hagnaður“ rennur beint til starfseminnar ef verður. Verðstrúktúr aðgöngumiða er fjölbreyttur, allt frá fullu miðaverði, gegnum ýmiskonar afslætti á því, til klippikorta og sérstaks klúbbkorts. Semsagt svona svipað og finna má í til dæmis safnabíóum víða um heim.

Og þú ert að djóka með kókið og poppið, er það ekki? Í flestum safnabíóum sem ég hef komið í er hægt að kaupa sér hverskyns munngát og líka drykki, jafnvel áfenga. Stundum heilu máltíðirnar. Man ekki alveg með poppið, en eigum við nokkuð að láta málið stranda á því?

Bíó Paradís greiðir vissulega gjöld fyrir sýningarrétti en það gerir safnið líka, það skiptir t.d. oft við sömu sérhæfðu dreifingaraðilana og Bíó Paradís. Þá nýtur Bíó Paradís styrkja ríkis og borgar sem nema rúmum fimmtungi af heildartekjum, auk styrkja frá Europa Cinemas og Media. Ekki væri grundvöllur fyrir bíóinu ef þeir kæmu ekki til. Það er því útí hött hjá þér að tala um Bíó Paradís og „hin stóru húsin“ eða lýsa því sem „fjölsala bíói á kvikmyndahúsamarkaði.“

3. Bíó Paradís svipar til safnabíós

Tilraun þín til að lýsa Bæjarbíói og Bíó Paradís sem óskyldum fyrirbrigðum er líka ótrúverðug fyrir þá sök að dagskrá Bíó Paradísar er einmitt að mörgu leyti eins og safnabíó Kvikmyndasafnsins ætti að vera (jú, almennar sýningar á nýjum „arthouse“ myndum væru sjálfsagt færri). Kvikmyndasafnið er með fínt prógramm en býsna smátt að vöxtum; ein kvikmynd á viku og aðeins yfir vetrartímann. Ég þykist vita að þetta sé vegna þröngs ramma, ekki skorts á vilja eða metnaði.

Á meðan er dagskrá Bíó Paradísar – þar sem margar myndir eru sýndar daglega árið um kring – einmitt á margan hátt náskyld þeirri sem finna má í safnabíóum víða um heim og stemmningin einnig (sjá t.d. dagskrá sænska Cinemateket, þess danska og BFI Southbank). Vissulega minnir Bíó Paradís einnig á klassísk „arthouse“ bíó eins og t.d. Grand í Köben, Öst for Paradis í Árósum eða Filmhouse í Edinborg.

Bíó Paradís sýnir árlega á þriðja hundrað kvikmynda af ólíkum toga. Flestar þeirra eru svokallaðar „sérsýningar“ líkt og sýningar Bæjarbíós og annarra safnabíóa, nema hvað Bíó Paradís sýnir ekki aðeins klassískar kvikmyndir heldur einnig nýjar og nýlegar myndir frá margskonar þjóðlöndum eða myndir sem tilheyra tilteknum sviðum (sem Bæjarbíó gerir ekki en mörg safnabíó gera).

Og já, ég fullyrði að klassísk dagskrá Bíó Paradísar er vönduð og vel dagskrársett líkt og hjá Kvikmyndasafninu í Bæjarbíói. Svartir sunnudagar hafa til dæmis verið með afar gott prógram í á annað ár og einnig hefur bíóið staðið fyrir þemasýningum á myndum fjölmargra meistara eins og t.d. Jacques Demy, Powell og Pressburger, frönsku nýbylgjuleikstjóranna, Max Ophuls, Wajda, Hitchcock, Jodorowsky og margra fleirri, svo ekki sé minnst á sýningar á myndum meistara þögla tímans. Nefni líka fjölbreytta dagskrá fyrir börn og unglinga þar sem markmiðið er að uppfræða bæði um miðilinn sjálfan sem og sögu hans. Allt þetta á fullkomlega heima á dagskrá safnabíós.

4. Umgjörð sýninga og aðgangur að sýningarsölum

Ég efa ekki að semja mætti um að fella niður auglýsingar á undan sýningum safnabíósins. Ég tel einnig að auðveldlega megi semja um aðgang safnsins að sölum Bíó Paradísar vegna rannsóknarvinnu og prófana á daginn. Þetta getur því ekki flokkast sem „meginástæðan fyrir því að Kvikmyndasafn Íslands getur ekki haft sýningar sínar í Bíó Paradís.“

5. Gildur sýningarstaður

Miðað við stöðu Bíó Paradísar sem „non-profit“ sjálfseignarstofnunar og dagskrárstefnu þess tel ég að hægt verði að fá bíóið viðurkennt af FIAF sem „gildan sýningarstað“. En þetta er auðvitað ekki síst háð vilja og áhuga Kvikmyndasafnsins á að semja við Bíó Paradís.

6. Sýningarvélar úrlausnarefni

Að koma sýningarvélum Kvikmyndasafnsins fyrir í Bíó Paradís er einfaldlega framkvæmdaratriði. Safnið þyrfti væntanlega að gera það sama fari það annað.

7. Að horfa á kvikmynd er góð skemmtun

Jújú, að draga tjaldið frá og fyrir í Bæjarbíói finnst mér æðislegt. Svo getur vissulega verið mjög gaman að horfa á kvikmynd sem sýnd er af gamalli og slitinni 35mm filmu. En ertu ekki meira og minna hættur því og farinn að skanna filmurnar á diska og sýna þær þannig? Meirihluti kvikmyndaunnenda velur líka frekar að horfa á gott uppgert eintak af gamalli kvikmynd í fullum stafrænum gæðum (sýningarupplifunin er miklu nær því sem upphaflega var). Bíó Paradís ræður yfir stafrænum sýningarbúnaði af alþjóðlegum standard. Auk þess væri hægt að sýna 35mm filmur samkvæmt kröfum FIAF með sýningarvélum Kvikmyndasafnsins í Bíó Paradís. Hér er því ekkert vandamál á ferðinni.

Takk í bili og bestu kveðjur!

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR