Donnie Darko: Raunveruleiki hinna ímynduðu vina

donniedarko
„Hann er á skjön við tímana, tímana sem tóku Bush eldri framyfir Dukakis, tíma tvíhyggju ástar og ótta, tíma tvíhyggju kalda stríðsins sem er þó alveg við það að líða undir lok. Myndin kemur hins vegar út í tíð Bush yngri, þegar ný tvíhyggja vesturs og enn fjarlægra austurs fór að tvístra heiminum á ný, nánar tiltekið þegar Tvíburaturnarnir féllu.“

Ég veit ekki hvort Donnie Darko hafi nokkru sinni verið spurður hverra manna hann sé. En svarið er að minnsta kosti þetta: hann er sonur hjónanna Rose og Eddie Darko og hugarfóstur leikstjórans Richard Kelly. En kvikmyndin sem ber nafn hans er bastarður.

Óskilgetið afkvæmi Brennuvargs Egons Hostovskýs og 12 Monkeys (og þar af leiðandi barnabarn Vertigo)[i], hálfsystkini The Sixth Sense, Jesus de Montreal og Back to the Future, fjarskyldur ættingi Hafsins og Catcher in the Rye, stökkbreyttur tvíburi Harvey, ættleidd af John Hughes og Graham Greene. Og þetta eru aðeins þeir ættingjar sem undirritaður kannast við og man að nefna.

Það eru auðvitað ekki nein ný sannindi að ein kvikmynd vísi í aðra og listgreinar kallist á. Þetta er eilífðarverkefni listamanna. Nýjar kynslóðir reyna að finna sér sérstöðu, svo eru einstaklingar eins og Donnie sem passa engan vegin inní þá sérstöðu sem hans kynslóð hefur mótað sér.

Hann er á skjön við tímana, tímana sem tóku Bush eldri framyfir Dukakis, tíma tvíhyggju ástar og ótta, tíma tvíhyggju kalda stríðsins sem er þó alveg við það að líða undir lok. Myndin kemur hins vegar út í tíð Bush yngri, þegar ný tvíhyggja vesturs og enn fjarlægra austurs fór að tvístra heiminum á ný, nánar tiltekið þegar Tvíburaturnarnir féllu. Það var ástæðan fyrir því að myndin floppaði fyrst þegar hún kom út – ekki einu sinni dreifingarfyrirtækið sjálft vildi sýna fólki bíómynd þar sem flugvélarhreyfill gerbreytti heiminum í október árið 2001. En hann gerði það nú samt, rétt eins og flugvélarnar tvær.

En eins sterk og frumleikakrafan er orðin í list þá er formúlan sums staðar orðin svo skotheld að það býst enginn við neinu nýju. Þetta á óvenju vel við um fjöldaframleiddar unglingamyndir, svo vel að ófáar frumlegar og skemmtilegar unglingamyndir fá ekki séns því þær eru sjálkrafa hólfaðar í eitt óvirðulegasta hólf Hollywood. En Donnie Darko er samt hvorki beinlínis unglingamynd né vísindaskáldskapur, á sama hátt og unglingur er hvorki barn né fullorðinn – en þarf engu að síður að takast á við báða heima. Myndin gerist árið 1988, árið sem leikstjórinn Richard Kelly varð þrettán ára. Seinna fór þessi sami Richard Kelly í kvikmyndaskóla og á sama tíma og Donnie (Jake Gyllenhaal) glímir við foreldra sína og skólayfirvöld þá er myndin sjálf að kljást við hið sama: Kvikmyndasöguna sem gat hana og kvikmyndabransann þar sem hún fær að læra lexíurnar sínar.

Í Catcher in the Rye skiptir jafnaldri Donnie, Holden Caulfield, fólki í tvo hópa. Þá sem eru að þykjast og þá sem eru ekta. Á sama tíma berst Donnie gegn loddaranum Jim Cunningham (Patrick Swayze heitinn) sem hefur sannfært einn kennara Donnie um að gervöllu lífinu megi koma fyrir á milli tveggja póla – ÁSTAR og ÓTTTA. En hvernig er hægt að skilgreina sjálfan sig ef þú hafnar skyndilausnunum sem og troðnum slóðum? Sérstaklega þegar flestar slóðir virðast troðnar, það er ekkert sem á eftir að gera (ein ástæða nefnd fyrir verðandi heimsendi í annari ragnarakamynd, Strange Days). Eina leiðin til að verða nýr er að eyða því sem á undan kom, hugmynd sem einn kennarinn, Karen Pomeroy (Drew Barrymore), ræðir við Donnie og bekkinn hans í gegnum smásögu Graham Greene, „The Destructors.“

„Eyðilegging er ein gerð sköpunar …“

Það var líkt og ráðagerðin hefði verið með honum allt hans líf, íhuguð gegnum árin. Nú, á fimmtánda ári, kristallaðist hún með sársauka kynþroskans.

Þetta les Karen upp fyrir bekkinn. Greene er að tala um T., höfuðpaur strákagengis sem ákveður að brenna niður hús karlfausks nokkurs í þorpinu. Þeir finna peninga og brenna þá, eyðileggingin er eina takmarkið. En hún gæti eins verið að tala um Donnie[ii], sem er í meðferð hjá sálfræðingi eftir að hafa brennt til grunna autt hús. Það gerist áður en myndin hefst. Hún hefst á því að Donnie vaknar á golfvelli skammt frá heimili sínu eftir svefngöngu að undirlagi ímyndaðs vinar síns Frank. Þegar hann kemur aftur heim þá hefur stór flugvélarhreyfill lent á húsi Donnie, nánar tiltekið á herbergi hans.

Lífsbjörg Franks er þó skammvinn því stuttu síðar kallar hann á Donnie til þess að tilkynna honum að heimurinn farist eftir 28 daga, sex klukkustundir, 42 mínútur og tólf sekúndur. Það er kannski rétt að taka það líka fram að Frank þessi er giska óhugguleg risakanína.

„ … þeir vilja sjá hvað gerist þegar þeir tæta heiminn í sundur, þeir vilja breyta hlutum“

Seinna fær Frank Donnie til þess að valda flóði á göngum skólans sem og að kveikja í húsi loddarans Jim Cunningham, nokkuð sem kemur upp um ómennsku sjálfshjálpargúrúsins. Allt þetta verður svo óbeint til þess að hann byrjar með Gretchen, nýju stelpunni í bekknum, enda kynþroskinn og eyðileggingin tengd nánum böndum.

Gott dæmi er lítt þekkt tékknesk nóvella eftir Egon Hostovksý, Brennuvargurinn. Aðalpersónan Kamil fær hvolpavitið þegar hann kynnist Dóru, vinkonu systur sinnar, en á sama tíma er íkveikjufaraldur í tékkneska smábænum sem rammar inn líf hans. Þessu bregst hann við með þessari fullkomlega eðlilegu en þó órökréttu yrðingu:

„Dóra er eldur.“ Hann finnur að það eru einhver tengsl á milli þessarar dularfullu vinkonu systur hans og íkveikjanna sem hafa sett rólega tékkneska smábæinn á annan endann. Dóru sem kyssti hann þótt hún segði hann ljótan og eldanna sem kviknuðu að því er virtist þegar hann óskaði þess. Eins má nefna Hafið þar sem eldurinn einn virðist geta afmáð gamlar syndir fjölskyldunnar, fortíðin brennd til grunna og ættfaðirinn sendur á elliheimili.

[quote align=“right“ color=“#999999″]Allt þetta er þó vissulega til lítils ef heimurinn er að farast. En erum við ekki sloppin? 26 ár hafa liðið frá áætluðum heimsendi Franks og heiminum er ekki lengur skipt með járntjaldi. Kanski fórst einmitt gamli heimurinn um þetta leyti og við lifum í þeim nýja sem reis af rústum hans. En Donnie virðist takast að afstýra heimsendi – með því að deyja sjálfur.[/quote] Allt þetta er þó vissulega til lítils ef heimurinn er að farast. En erum við ekki sloppin? 26 ár hafa liðið frá áætluðum heimsendi Franks og heiminum er ekki lengur skipt með járntjaldi. Kanski fórst einmitt gamli heimurinn um þetta leyti og við lifum í þeim nýja sem reis af rústum hans. En Donnie virðist takast að afstýra heimsendi – með því að deyja sjálfur. Með því að ferðast um tímann og deyja í herberginu sínu í upphafi myndarinnar, því þar átti hann vissulega að vera. Back to the Future er ennþá tiltölulega ný og Donnie ræðir hana og aðra hluti tengda tímaferðalögum við efnafræðikennarann Monnitoff (Noah Wyle). Hann gefur Donnie bók Robertu Sparrow, The Philosophy of Time Travel, en Roberta þessi er einmitt engin önnur en Amma Dauði. 101 árs gömul kerling í bænum sem athugar autt pósthólfið sitt endalaust bíðandi bréfs sem aldrei kemur. Hún hvíslar í eyra Donnie: „sérhver skepna á þessari jörð deyr ein.

„Er leitin að Guði óþarfi?“

spyr sálfræðingurinn Donnie í næsta tíma. „Hún er það ef allir deyja einir.“ Þegar Donnie veltir fyrir sér möguleikum tímaferðalaga við Monnitoff segir Monnitoff að sú staðreynd að við myndum vita örlög okkar fyrirfram geri tímaferðalög ómöguleg. „Ekki ef ferðast er eftir vegum Guðs,“ svarar Donnie. Monnitoff getur ekki haldið samtalinu áfram því hann gæti misst vinnuna. En getur verið að Donnie sé að ferðast á Guðs vegum? Deyr hann fyrir syndir okkar? Hann á margt skylt með Jesús frá Montreal í samnefndri bíómynd, sá „Jesú“ er aðalleikarinn í umdeildri uppfærslu kanadísks leikhóps á píslarsögunni og ævi leikarans og gjörðir fara að spegla gjörðir fyrirmyndarinnar – sérstaklega í kjölfar dauða aðalleikarans. En þetta passar samt ekki alveg, Donnie verður seint talinn kristilegur í hegðan. Getur verið að hann sé að bjarga heiminum frá sjálfum sér, myrkrinu, og þó allra helst frá Frank, hreinskilninni? Bjarga fólki frá því að sjá á bak við grímuna, frá því að taka grímuna af sér. Getur verið að eina vonin til að bjarga heiminum sé að gramsa ekki í skápum, leyfa blekkingunum að standa, ljúga að sjálfum sér. Sannleikurinn gæti grandað heiminum.

Donnie-Darko-evildead-lasttemptation
Donnie Darko lýgur því að sjálfum sér að hann sé lifandi.

Á meðan lýgur Donnie því að sjálfum sér að hann sé lifandi. Rétt eins og Malcolm Crowe (Bruce Willis) í The Sixth Sense lifir Donnie í gegnum alla myndina lífi sem hann hefur í raun þegar lokið þátttöku í. Nema hér sé önnur vídd, tímaferðalagið sé raunverulegt. Hér má nefna aðra Willis-mynd, 12 Monkeys, sem hefur greinileg áhrif á Donnie Darko. Elskendurnir í auðu kvikmyndahúsi á sýningu mynda sem kallast sterklega á við myndina sjálfa (Í tilfelli Donnie Darko: The Last Temptation of Christ og Evil Dead). Í uppgjöri myndarinnar er Donnie líkt og Malcolm Cole (Willis) í grímubúningi og undir lok myndanna tveggja fáum við að sjá örlítið brot þar sem tvær sálir, nátengdar aðalpersónunni, horfast í augu, heilsast, þó þær tengist eingöngu á öðrum tíma, öðru plani. Það tekur Donnie gervalla myndina að takast á við að hann er dáinn, að sætta sig við að deyja einn. Á meðan heldur heimurinn áfram. En þessi örlitla ögn af óraunveruleika er honum nóg.

„Ég glímdi við raunveruleikann í 35 ár, læknir, og það gleður mig að geta sagt þér að ég hafði að lokum sigur.“

Hér mælir Elwood P. Dowd. Hann átti líka ímyndaða risakanínu að vini, titilpersónuna sjálfa, Harvey. Af hverju skipta þessar ímynduðu kanínur svona miklu máli? Bæði Elwood og Donnie játa óraunveruleika vina sinna án þess að það breyti neinu um mikilvægi gjörða þeirra. Það eru umræddar risakanínur sem hafa úrslitaáhrif á söguþráð beggja mynda, Harvey færir fólk saman og Frank gerir það líka þótt með öðrum hætti sé. Þeir hjálpa fólki að horfast í augu við sjálft sig.

Menningarrýni á raunar í mínum huga að snúast um einmitt um þetta: Að sjá samhengið í verkunum og á milli þeirra, reyna að skilja þau í samhengi við raunveruleikann og raunveruleikann í samhengi við verkin. Kannski út af öllum möguleikunum sem liggja ónýttir í raunveruleikanum. Kannski af því raunveruleikinn er kominn of langt frá mannskepnunni þegar hann er að finna í tölum og hagskýrslum. Kannski af því að raunveruleikinn er að breytast í sýndarveru.

Að lokum gætum við jafnvel unnið sigur á raunveruleikanum með hjálp ímyndaðrar kanínu.

[divider scroll_text=““]

[i] Sú ættfærsla er rakin betur hér

[ii] Nú eða Jókerinn í The Dark Knight sem vill bara sjá heiminn brenna – og nýtur þess að kveikja í peningafjöllum.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR